Fordæður, galdramenn og töfrajurtir

Spil_Asta_2Forlagið gaf út núna fyrir jólin spil gerð eftir teikningum listakonunnar Ástu Sigurðardóttur. Hún hannaði spilin og ætlaði að gefa þau út en entist ekki aldur til. Mannspilin eru frægir íslenskir galdramenn, draugar og nornir en einnig bregður fyrir í ásunum þjóðsagnadýrum, jurtum og öðrum fyrirbærum. Þarna má sjá Þorgeirsbola, hjónagras, flæðarmús, Gottskál grimma, Sæmund fróða, Bjarna Dísu og ótal fleiri merkilega og spennandi karaktera. Þetta eru sérlega falleg spil og mögnuð í útliti en Forlagsfólk hefur líka vandað einstaklega vel til þessarar útgáfu. Bæði eru spilin mjög vel útfærð og sömuleiðis kassinn utan um þau. Þeim fylgir líka bæklingur með upplýsingum um bæði Ástu og öll fyrirbærin sem hún gæðir lífi í myndum sínum. 

Ekki er langt síðan sýnt var í Þjóðleikhúsinu verkið Ásta, eftir Ólaf Egilsson en hann leikstýrði líka. Það var byggt á ævi Ástu. Hún var hneykslunarhella borgara í Reykjavík á sinni tíð en heillaði marga með hæfileikum sínum. Fíknin var henni fjötur um fót og dró hana að lokum til dauða en enn er fólk forvitið um list hennar, persónu og örlög.

Hugsanlega er ástæða þess að enn leikur dulúð og spenna um persónu Ástu sú að í henni voru miklar andstæður. Hún var sveitastúlka, fædd að Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Hún kom til Reykjavíkur fjórtán ára til að leita sér mennta og byrjaði á að klára landspróf og síðan fór hún í Kennaraskólann. Áhugi hennar á kennslu var hins vegar takmarkaður og hún starfaði aldrei við það. 

Ásta lærði leirkerasmíð og grafíklist og myndskreytti sjálf bók sína, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Þar er listavel skrifaðar og áhrifamiklar smásögur, sem margar eru taldar byggja á atvikum úr lífi Ástu. Það var einkum titilsaga bókarinnar, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns sem skapaði úlfúð en hún birtist fyrst í tímaritinu Líf og list árið 1951. Sagan fjallar um nauðgun og margir áfelldust Ástu fyrir að segja frá og aðrir fyrir að lýsa gerandanum en nafngreina hann ekki því þar með félli grunur á marga aðra. Kannast einhver viðdownload-3 þessa umræðu? Hún hefur verið endurtekin margoft með mismunandi áherslum allt frá því Metoo-byltingin hófst. Hún vann einnig fyrir sér sem nakið módel í Myndlistarskólanum og olli það hneykslun margra hennar auk þess að hún kaus að búa í kommúnu skálda og listamanna í Hólum í Skerjafirði. Ástalíf hennar þótti sumum betri borgurum einnig fullfjörlegt. Ásta átti son með Jóhannesi Geir listmálara en árið 1957 tók hún saman við Þorstein frá Hamri og átti með honum fimm börn. Þau bjuggu í Kópavogi þar til upp úr sambandi þeirra slitnaði. Þá tók Ásta saman við Baldur Guðmundsson og giftist honum árið 1967.

Sársauki undir niðri

Ásta var glæsileg kona og eftirminnileg í útliti og fasi. Hún vakti þess vegna athygli hvar sem hún kom og allir vissu hver hún var. Þótt hún bæri höfuðið hátt og léti sér fátt um hneykslan og dómhörku samborgaranna finnast á yfirborðinu var mikill sársauki undir niðri. Hann er augljós í mörgum sögunum í Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Hún var alkóhólisti og margt bendir til að hún hafi mátt þola margvíslegt ofbeldi. Ein sagan hennar er meðal annars um nauðgun og önnur ofbeldi gegn barni. Margir telja ekki vafa á að Ásta sé að skrifa um eigin reynslu. 

Hún þekkti einnig fátækt og basl mæta vel því það er erfitt að lifa af list á Íslandi og var mun erfiðara þá en nú. Drykkjan hjálpaði heldur ekki. Í útvarpsþáttunum Helmingi dekkra en nóttin fjallar Vera Sölvadóttir um listakonuna og byggir meðal annars á bréfum hennar til systur sinnar auk þess er talað við eftirlifandi börn hennar og fólk sem man eftir henni. Ólafur Egill sagði einnig í útvarpsviðtali um sýninguna sína að alltaf væri ábyrgðarhluti að fjalla um ævi annarra og orðar það einkar fallega: „Maður þarf að muna að þetta er líf fólks og sögur og það þarf að fara blíðum höndum um hana.“ Birgitta Birgisdóttir fór með hlutverk Ástu og gerði það einstaklega vel. En spilin hennar bera listfengi hennar og ímyndunarafli vitni og vert að mun að kerti og spil eru klassísk jólagjöf. 


Bloggfærslur 16. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband