Hörkuspennandi, snjöll og áleitin

enn5309050470Stóri bróðir eftir Skúla Sigurðsson er mjög vel unnin sakamálasaga. Að halda forvitni lesandans vakandi í yfir 500 síður, einkum og sérílagi eftir að ljóst verður hver er morðinginn er þó nokkur kúnst. En Skúla tekst það og það vel. Hann skapar trúverðugar persónur og skemmtilega karaktera en bókin er ekki síst góð fyrir að vekja upp alls konar siðferðilegar spurningar. Er réttlætanlegt að taka lögin í sínar hendur og refsa? Allir vita að réttarkerfið hefur reynst vanmegnugt þess að taka á kynferðisbrotamálum og fjölmargir sitja uppi með þá tilfinningu að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar. Stóri bróðir fjallar um slík mál og mann sem telur sig verða að útdeila refsingum vegna þess að réttvísin hafi brugðist. Skúli brýtur frásögnina upp á skemmtilegan hátt með því að birta fréttir af rannsókn lögreglunnar og skrifar í anda mismunandi miðla en er einnig virkur í athugasemdum við þær. 

Í bókinni er einnig komið inn á ofbeldi gegn börnum á ríkisreknum barnaheimilum en slíka mál hafa komið upp hvað eftir annað á undanförnum árum. Mörg þeirra hafa ekki verið fyllilega gerð upp og þolendur ofbeldisins ekki náð sátt. Það er undarlegt að börnum skuli sjaldnast trúað enn í dag þegar þau segja frá ofbeldi og að eftirlit bregðist gersamlega með úrræðum sem eiga að forða börnum í erfiðum aðstæðum og byggja þau upp til betra lífs. Úr slíkum jarðvegi sprettur ekkert gott. Stóri bróðir á tilnefninguna til Blóðdropans fyllilega skilið og þetta er mjög athyglisverð frumraun. Ég hlakka til að lesa næstu bók.


Bloggfærslur 20. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband