Veröld sem var

isl-bladamAf stjórnlausri græðgi hafði ég auðvitað gleypt í mig allar bækur sem ég komst yfir fyrir jólin og var því í hálfgerðri örvæntingu á Þorláksmessu að leita að einhverju að lesa. Einmitt þegar ég hélt að öll sund væru lokuð og ég neyddist til að lesa innihaldslýsingar á baunadósunum sem við vorum nýbúin að kaupa mundi ég eftir þriðja bindi ritraðar Blaðamannafélags Íslands um íslenska blaðamenn. Guðrún Guðlaugsdóttir tók viðtöl við tólf reynda og virta kollega mína og mikið ofboðslega tekst henni vel upp. Þarna er rakin saga íslenskra fjölmiðla frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og fram á okkar daga en einnig gefin skemmtileg innsýn í persónuleika viðmælenda og hvernig þeirra gildi mótuðu starfið. Þetta fólk tók þátt í bæði uppgangi og hnignun íslenskra fjölmiðla. Fjörið þegar DV varð til og flokksblöðin smátt og smátt lögðu upp laupana. Frelsi gefið til rekstur ljósvakamiðla og nýjar útvarps- og sjónvarpsstöðvar verða til. Nú þegar komið er fram á þriðja áratug tuttugustu og fyrstu aldar er margt af þessu fólki hætt störfum en sumir eru enn að. Það er fróðlegt að lesa um viðhorf þess til breytinga á fjölmiðlaumhverfinu og hvernig það sér framtíðina fyrir sér. Flestir tala um að prentmiðlar séu á undanhaldi og netið að taka yfir. Þar vanti hins vegar trausta ritstýrða miðla og lesendur þjálfaða í að greina hismið frá kjarnanum. Næstu ár munu skera úr um hvort íslenskir dagblöð og tímarit lifi af og nái að laga sig að breyttu umhverfi. Að mínu mati hafa prentmiðlar fjölbreytilegt menningargildi og það væri mikill missir ef þeir hyrfu alveg og áður en svartsýnin nær alveg tökum á mér finnst mér vert að minnast að dauða bókarinnar hefur verið spáð margoft og ekki gengið eftir fremur en heimsendir sem ótal spámenn hafa séð fyrir og reiknað út dagsetningar á.

 


Bloggfærslur 28. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband