Brakandi ný dagbók

downloadAllt frá því menn fóru fyrst að draga til stafs hafa verið til dagbækur í einhverju formi. Færð hafa verið rök fyrir því að hellamálverk hafi gegnt þeim tilgangi að skrá veiði og gengi síðasta árs og annálaritarar miðalda lögðu gjarnan út af þeim atburðum sem þeir sögðu frá öðrum til lærdóms og varnaðar. Dagbókarritarar hafa  skilað sumum að stærstu perlum bókmenntasögurnnar og formið er vinsælt þegar skrifaðar eru skáldsögur. Þrátt fyrir tölvuvæðingu heldur dagbókin velli og menn flykkjast í bókabúðir til að kaupa sér nýja um hver áramót.

Það er eitthvað spennandi við það að opna nýja dagbók, sjá að hver dagur er óskrifað blað og vita að maður hefur frelsi til að fylla það á hvern þann hátt sem hentar manni best. Sumir færa dagbók í tölvunni en þar sem rannsóknir sýna að manneskjan þjálfar aðra hluta heilans þegar hún handskrifar en þegar slegið er á takkaborð er vel þess virði að kaupa fallega bók með línustrikuðum blöðum og byrja að færa inn hápunkta dagsins. Tilbúnar dagbækur eru einnig orðnar svo fjölbreytilegar og skemmtilegar að þær eru í raun nóg. Tíminn minn, dagbókin eftir Björgu Þórhallsdóttur minnir á að hver dagur er gjöf. Á hverri síðu er eiganda hennar gefið færi á að fylla út drauma sína, hugsanir, ígrundanir um hið góða og hitt sem miður fer á hverjum degi. Myndir Bjargar eru einstaklega litríkar og fallegar og til þess fallnar að blása mönnum skáldanda í brjóst svo ekki er verra að skjóta inn einu og einu ljóði.

Margir kjósa að kaupa sér hefðbundnar, línustrikaðar, harðspjalda stílabækur til að halda dagbók og þá skemmir ekki að kápan sé falleg. En á undanförnum árum hefur færst í vöxt að hægt sé að fá dagbækur með ákveðinn tilgang, til dæmis til að setja sér markmið, brjóta leiðina að þeim niður í skref, marka síðan ferilinn og fagna þegar því er náð. Hver vika byrjar þá gjarnan á tilvitnun eða spakmælum sem hvetja menn áfram ef viljinn er tekinn að dala. Slíkar bækur eru því mjög handhægar fyrir þá sem strengt hafa áramótaheit og ætla sér lengra á þessu ári en í fyrra. Þakklætisdagbækur eru líka að verða algengari og foreldradagbækur þar sem þroski og vöxtur litla krílisins er skráður. Nú er líka vinsælt svokallað creative journaling eða skapandi dagbókarskrif en þá blanda menn saman úrklippu-, minningar-, og dagbókum. Skreyta síðurnar með teikningum, límmiðum, stimplum, úrklippum, aðgöngumiðum, ljósmyndum og fleiru. Margir gera þetta af miklu listfengi. 

Heimspeki og fræði á skrifborðinu

download-1Þeir sem vilja fræðast og kynnast nýjum viðhorfum ættu hins vegar að athuga hvort ekki sé hægt að kaupa dagbækur með fræðsluefni í bland, Almanak háskólans og hins Íslenska þjóðvinafélags koma upp í hugann ef þau koma enn út. Fyrir nokkrum árum tóku sig einnig saman fræðikonurnar Sigríður Þorgeirsdóttir, Erla Karlsdóttir, Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Nanna Hlín Halldórsdóttir
og gáfu út dagbækur þar sem farið var yfir sögu nokkurra helstu kvenheimspekinga mannkynsins. Þetta voru vandaðar bækur og gaman væri ef þær yrðu endurútgefnar árlega því það er jú alltaf gott að kynnast heimspekikenningum. 

Um allar dagbækur má hins vegar segja að þær séu góð kaup. Í gegnum tíðina hafa ótalmargir notað dagbækur til að efla sjálfsskilning og öðlast yfirrsýn yfir samtíma sinn. Samuel Pepys var breskur flotaforingi og þingmaður en er þekktastur fyrir einkar skemmtilega skrifaða dagbók sem  hann hélt í áratug þegar hann var ungur maður. Hann fæddist árið 1633 og dagbókin byrjar árið 1660. Í henni er að finna skemmtilegt sambland af lýsingum á mikilvægum sögulegum atburðum sem Samuel varð vitni að og vangaveltum hans sjálfs um lífið. Bókin var fyrst gefin út á nítjándu öld en hefur æ síðan verið talin til klassískra breskra bókmenntaverka. Fleiri stjórnmálamenn hafa haldið dagbækur og nefna má sjötta forseta Bandaríkjanna John Quincy Adams sem hélt dagbók frá tólf ára aldri til æviloka og Winston Churchill forsætisráðherra Breta. Þær bækur sem hann skrifaði meðan á seinni heimstyrjöldinni stóð  sem ollu miklu uppnámi þegar sagnfræðingurinn David Irving ætlaði að skrifa bók um þær en samkvæmt leyndarákvæði breska ríkisins var hluti þeirra enn verndaður. Úr varð að David skilaði bókunum og ekki varð af bókaskrifum hans.

Virginia Woolf er annar þekktur dagbókarritari og sömuleiðis Jean-Paul Sartre og auðvitað ótal fleiri andans menn og höfðingjar. Ekki er hins vegar hægt að skilja við umfjöllun um dagbókarskrif án þess að nefna Önnu Frank. Hún er án efa einn alþekktasti dagbókarritari heimsins og þúsundir manna um allan heim lesa sögu hennar á hverjum degi. Margt  hefur verið rætt og ritað um dagbók Önnu meðal annars hefur því verið haldið fram að faðir hennar hafi falsað bókina í stríðslok, enda þykir ganga kraftaverki næst að hún hafi varðveist. En flestir eru þess þó fullvissir að þessi næma og gáfaða gyðingastúlka hafi sjálf skrifað bókina og færslur hennar séu ómetanlegt framlag til að minnka fordóma og auka friðarást í heiminum.

UntitledDagbókarformið er líka vinsælt skáldsagnaform og þeir sem hafa áhuga á kynna sér það ættu að byrja á bókum eins og Dracula, Dagbók Bridgetar Jones og The Secret Diary of Adrian Mole Aged 13 and 3/4. Margar fleiri mætti nefna til dæmis allar sögurnar af Sherlock Holmes, Flowers for Algernon eftir Daniel Keyes og The Colour Purple eftir Alice Walker. En hvort sem menn kjósa að lesa eða skrifa dagbækur er árið 2023 gott ár til að byrja á hvoru tveggja.

 


Bloggfærslur 2. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband