Malbik, kettir og smáfuglar

Allt frá því ég las Hægara pælt en kýlt og download hef ég dáðst að hæfni Magneu J. Matthíasdóttur til að tefla saman tveimur fyrirbærum, sem alla jafna teldust andstæð, og vinna þannig með þau að þau skapa heildstæða og lifandi mynd af aðstæðum. Þessi hæfileiki nýtur sín einstaklega vel í nýju ljóðabókinni hennar, Þar sem malbikið endar.  Ríkuleg kímnigáfan er þar líka í burðarhlutverki og Magnea er eins og Þórarinn Eldjárn meistari „útslagsetningarinnar“ eða „the punchline.“ Ljóð sem hafa á sér alvarleikablæ missa hann skyndilega þegar sérlega meinfyndin og snjöll setning kemur lesandanum gersamlega á óvart í endann, nánast slær hann út og eina rétta viðbragðið er hlátur. Svona eins og þegar maður fylgist með sérlega virðulegum manni með hatt koma inn á sjónarsviðið en skella svo á rassinn á eina hálkublettinum við húsið. En þarna er líka boðskapur um fegurð í mannlífi borga, malbiki, gráum húsum og gluggum sem opnast út í bakgarða. Kettir og smáfuglar birtast og hverfa og í húsunum er líf, samvera, tengsl, söknuður, einmanakennd og svo ótalmargar aðrar tilfinningar. Mér fannst malbikið alls ekki þurfa að taka enda þegar ég var komin að síðasta ljóðinu en minnti sjálfa mig á þá staðreynd að ljóð er hægt að lesa aftur og aftur. Þau eru eins og góð kjötsúpa, batna við hverja upphitun eða í þessu tilfelli upprifjun.


Bloggfærslur 24. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband