Ósýnilega barnið

í dag fór ég á leiksýninguna Hvíta tígrisdýrið í Borgarleikhúsinu með dóttur minni og barnabörnum. Þetta er sérlega vel skrifað verk, söguþráðurinn frumlegur og skemmtilegur en um leið með alvarlegan og þarfan boðskap. Þrjú börn búa á háalofti í gömlum herragarði ásamt konu sem vakir yfir þeim. Það væri synd að spilla fyrir væntanlegum áhorfendum með því að rekja of mikið en af þemum verksins hafði eitt mest áhrif á mig. Þarna var sýndur svo skýrt og greinilega samskiptamáti sem einkennist af ofbeldi þótt á yfirborðinu virtist eingöngu hvitatigrisdyrid11-leifurwilbergorrason_minniumhhyggja ráða för. Ofbeldið átti sér fjölbreyttar birtingarmyndir eftir því að hverjum það beindist. Systkinin, ef börnin voru systkini, eru mismunandi persónuleikar og eru meðhöndluð eftir því. Ósýnilega barnið skar mig í hjartað en það var barnið sem beitti dómgreind sinni, skynjaði að ekki var allt sem sýndist og sagði það upphátt. Það spurði spurninga, krafðist svara og skildi að ekki var allt rökrétt sem frá konunni kom. Svarið var hunsun, útilokun og þagnarbindindi allt þar til barnið varð ósýnilegt og hvarf. Að baki þessu er svo mikill sársauki og sannleikur. Með því að hlusta ekki á manneskju, hunsa tilfinningar hennar og vaða yfir hana á þennan hátt er hægt að þurrka út persónuleikann, bæla hann svo að ekkert verður eftir. Það er svo þarft að vekja athygli á tilfinningalegri kúgun og óttanum sem oft ræður för þegar fólk beitir ofbeldi í samskiptum. Allt þetta er sett fram á svo hugvitsamlegan og myndrænan hátt að maður er djúpt snortin og glaður í senn yfir að einhver kunni að vekja máls á þessum málum á svo glæsilegan hátt. Já, svo verð ég að nefna einstaklega fallega leikmynd og skemmtilega lýsingu. Sem sé frábær og eftirminnileg sýning í Borgarleikhúsinu. 


Bloggfærslur 12. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband