20.3.2023 | 22:02
Skáldkona norsks hversdagslífs
Norska skáldkonan Anne B. Ragde er ólík flestum Norðurlandabúum að því leyti að hún þolir ekki sól og sumar. Hún segir að haustin séu sinn árstími, þá fyllist hún orku og taki til við að tína, taka upp, sulta og sjóða niður uppskeruna. Auk þess er hún oftar en ekki á fullu við að kynna og fylgja eftir nýrri bók.
Anne vakti fyrst heimsathygli þegar sagan Berlínaraspirnar kom út. Hún var fyrsta bók í áhrifamikilli fjölskyldusögu en bækurnar urðu á endanum sex. Þetta er fjölskyldusaga og gamla óðalssetrið Neshov verður að eins og persóna í bókinni. Torunn hefur alist upp hjá einstaæðri móður og í fyrstu bókinni Berlínaröspunum kemur hún til Neshov til að fylgja móður sinni til grafar og hitti þá föður sinn í fyrsta sinn frá því hún var lítið barn. Ákveðið fjölskylduleyndarmál hvílir eins og mara yfir eftirlifendum og litla hamingju að finna á þessum gamla bóndabæ. En eftir því sem sögunni vindur fram kviknar meiri von um að að þau nái að tengjast og styðja hvert annnað til betra lífs. Þrátt fyrir einangrun og einmanaleika þeirra hvers um sig er eitthvað við heillandi við þessar bækur og persónurnar sem laðar lesendur stöðugt að til að heyra meira.
Í raun má segja það sama um bækur Anne sem fjalla um hennar eigin fjölskyldusögu, Arsenikturninn og Ég á teppi í þúsund litum. Birte, móðir hennar, dó árið 2012 en Anne segir í viðtali við Dagsavisen að enn heyri hún rödd hennar hljóma í höfði sér og eigi í löngum samtölum við hana. Samband þeirra mæðgna var erfitt og litaðist mjög af því að móðirin bar djúp sár á sálinni vegna eigin uppvaxtar. Anne dáist þó að móður sinni og segir hana hafa verið nægjusemin og útsjónarsemin uppmáluð. Hún tók að sér að hekla, sauma og prjóna fyrir aðra auk vinnu sinnar í plastpokaverksmiðjunni. Iðulega sat hún heilu næturnar og vann til að ná að láta enda mæta saman í heimilisbókhaldinu.
Veisla úr engu
Hún gat einnig gert ótrúlega mikið úr litlu og í Ég á teppi í þúsund litum lýsir Anne því hvernig móður hennar tókst að gera veislumat úr engu aftur og aftur. Nýlega bað forleggjari Anne í Frakklandi hana að taka saman uppskriftir Birte á bók og hún hefur ákveðið að verða við því. Það verður spennandi að vita hvernig norskar fiskibollur og steikt síld falla í smekk Frakka en vonandi kemur sú bók einnig fyrir augu Íslendinga.
Þetta er einnig skemmtilega rökrétt framhald af skáldskap þessa höfundar. Hún er þekkt fyrir að lýsa hversdagslífi norsks alþýðufólks af mikilli næmni og hún hefur einstakt lag á að skrifa þannig að meira að segja það að hella upp á te í eldhúsi Neshov-býlisins verður áhugaverð athöfn.
Anne Birkefeldt Ragde fæddist í Odda í 3. desember árið 1957. Foreldrar hennar skildu og hún var alin upp af einstæðri móður í Þrándheimi í mikilli fátækt. Á sumrin dvaldi hún oft í sveitinni í Hordaland hjá föðurafa sínum og ömmu og þar lærði hún að nýta berin, jurtirnar og önnur landsins gæði. Hún hefur einnig gaman af að búa til lambarúllu og frysta til jólanna og baka enska jólaköku tímanlega. Hún er líka mjög heitfeng og þolir illa sumarhitann. Þess vegna eru haustin hennar árstíð. Anne sótti sér menntun og lauk cand. phil. prófi frá háskólanum í Þrándheimi. Fyrsta bókin hennar kom út árið 1986. Það var barnabókin, Hallo! Her er Jo. Hún hefur mikið skrifað fyrir börn og unglinga en einnig sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tuttugu og tvö tungumál m.a. suðurkóresku en vinsælust er hún á Norðurlöndunum, Frakklandi og Þýskalandi. Hún á eina systur, einn uppkominn son, tengdadóttur og barnabarn, Sverre, fjögurra ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2023 | 12:25
Vanmat á bókmenntum kvenna
Hlutur kvenna innan bókmenntaheimsins hefur ætíð verið rýrari en karla. Lengi þótti það ekki sæmandi konum að skrifa og þær sem gerðu það fengu iðulega ómaklega gagnrýni. Gert var lítið úr sögum þeirra, einkum þegar þær skrifuðu um reynsluheim sinn. Eitt skýrasta dæmi um þetta er án efa Guðrún frá Lundi en bækur hennar voru kallaðar kerlingabækur og sagðar snúast meira um kaffidrykkju en einhver þýðingarmikil viðfangsenfi.
Hið sama gilti þegar Þóru-bækur Ragnheiðar Jónsdóttur komu út. Gagnrýnendur blaðanna töluðu þær niður með föðurlegum umvöndunartóni. Algengt var þegar þeir skrifuðu um bækur kvenna að í öðru orðinu hrósuðu þeir, svona eins og menn gera þegar verið er að hvetja börn til dáða, og svo var bætt en ... í kjölfarið fylgdi svo vöntun á einhverju sem gerði þá bók sem var til umfjöllunar markverða. Hið sama má raunar segja um bækur Ingibjargar Jónsdóttur, Magneu frá Kleifum og Jakobínu Sigurðardóttur og fleiri. Meðan þær skrifuðu fyrir börn voru dómarnir lofsamlegir en ef þær sendu frá sér bækur fyrir fullorðna mættu þær almennt skilningsleysi og harðari dómum en karlarnir.
Af þessum ástæðum hefur oft verið litið framhjá framlagi mjög færra höfunda og þegar kemur að verðlaunaveitingum eru karlarnir mun oftar á palli en konur.
Víða hefur kveðið svo rammt að þessu að konur hafa stofnað til eigin verðlauna. Í þeim hópi eru íslensku Fjöruverðlaunin, BAYLAYS-verðlaunin í Bretlandi, Barbara Jefferies-verðlaunin í Ástralíu, Stella-verðlaunin í Ástralíu, Chommanard Book Prize í Tælandi, Janet Heidinger Kafka-verðlaunin í Bandaríkjunum, Rapallo Carige-verðlaunin á Ítalíu og Pat Lowther-verðlaunin í Kanada. Mismunandi er hvort þessi verðlaun bjóðast eingöngu innlendum höfundum eða hvort þau eru alþjóðleg.
Umdeilt hefur verið hvort virkilega sé nauðsynlegt að stofna til sérstakra verðlauna fyrir konur og sumir halda þvi fram að þær eigi jafnan aðgang að Nóbelsverðlaunum, Pulitzer og fleiri virtum listaverðlaunum. Ástæða þess að þær fái þau ekki sé einfaldlega sú að karlkynshöfundar eigi einfaldlega betri verk. Á móti hafa meðmælendur slíkra sérstakra verðlauna lagt fram rannsóknir máli sínu til stuðnings. Bent hefur verið á að bækur eftir konur nái metsölu, oft mun meiri sölu en bækur karlkyns kollega þeirra en samt séu þær mun sjaldnar á listum yfir tilnefnda til verðlauna og mun færri konur meðal verðlaunahafa.
Stundum skipti meira máli um hvað er skrifað en hvernig listræn hæfni manna sé. Karlar einbeiti sér oft að hetjusögum, stórum viðburðum, stundum sannsögulegum meðan konur skrifa um náin sambönd, stöðu kvenna í samfélaginu, barnauppeldi og önnur samskipti. Hvað sem veldur þá er víst að verðlaun fyrir listir breyta miklu fyrir þá sem hljóta þau. Verk þeirra fá meiri athygli og ýmsir möguleikar opnast sem áður voru lokaðir. Þetta á sannarlega einnig við um sérstök bókmenntaverðlaun kvenna.
Vanmetnar skáldkonur
Konur átti lengi ekki upp á pallborðið hjá bókaþjóðinni. Samt búum við að merkilegum bókmenntaarfi frá formæðrum okkar. Auk ofannefndar kvenna má nefna til viðbótar þessar þrjár.
Hulda eða Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist 1881 og dó1946. Hún var afkastamikil og fjölhæf. Sendi fá sér tuttugu skáldrit, nokkur smásagnasöfn, ævintýri og sjö ljóðabækur. Hulda giftist Sigurði Sigfússyni og eignaðist fjögur börn. Eitt þeirra fæddist andvana. Heimilið var stórt og annir margar yfir daginn. Líklega er Hulda þekktust fyrir þulur sínar og ljóð en hún tók sér skáldanafn vegna þess að verja sig, enda einkenndist fyrsta gagnrýni um verk hennar af yfirlæti og hroka. Meðal annars kallar Þorsteinn Erlingsson hana gáfað, góðlátlegt og óframfærið barn.
Guðfinna Þorsteinsdóttir fæddist árið 1891 og lést árið 1972. Hún tók sér skáldanafnið Erla. Áreiðanlega af sömu ástæðum og Hulda. Það var þægilegra fyrir konur að skapa sér fjarlægð frá harðneskjulegum dómum á þennan hátt. Árið 1917 giftist Guðfinna Pétri Valdimari Jóhannessyni. Þau hófu búskap á heiðarbýlinu Brunahvammi í Fossdal í Vopnafirði. Varla hefur verið auðvelt að skapa sér lífsviðurværi á slíkum stað og þau fluttu nokkrum sinnum. Lengst af bjuggu þau á Teigi í Vopnafiðri. Guðfinna og Valdimar áttu níu börn og í ljósi þess er eiginlega ótrúlegt að hún gaf út þrjár ljóðabækur, tvær bækur sem innihéldu þjóðlega sagnaþætti og þýddi skáldsöguna Slagur vindhörpunnar eftir William Heinesen. Nýlega tóku aðdáendur Erlu sig til og gáfu út ljóðasafn hennar.
Theodóra Thoroddsen fæddist á Kvennabrekku í Dölum árið 1863 og lést árið 1954. Hún náði mikilli leikni með þuluformið og fyrsta bók hennar var gefin út árið 1916 með myndum eftir Mugg, systurson hennar. Smásögur eftir hana, Eins og gengur, kom út árið 1920. Ritsafn hennar koom svo árið 1960. Kvæði, stökur og sagnir eftir hana birtust víða, meðal annars í Mánaðarriti Lestrarfélags kvenna. Theodóra þýddi einnig sögur og ljóð og safnaði þjóðsögum. Theodóra var gift Skúla Thoroddsen lögfræðingi og þau áttu þrettán börn.
Bloggar | Breytt 29.3.2023 kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)