14.2.2007 | 22:45
Ljóminn er ljómandi góður
Ég er á hugleiðslunámskeiði og í gærkvöldi hélt Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fyrirlestur um gjörhygli/íhugun og sálfræðileg áhrif hennar á manneskjuna. Fyrirlesturinn var óskaplega áhugaverður en af því að mannshugurinn hleypur sífellt út og suður týndi ég mér oft og iðulega í tungutaki Önnu og hlustaði þá ekki lengur á inntak orða hennar heldur orðin sjálf. Ég veit að þetta þarf ég að útskýra betur. Anna talar afskaplega fallega íslensku en stundum er tungutak hennar dálítið fornt. Einu hjó ég sérstaklega eftir og það var að hún notar oft lýsingarorðið ljómandi bæði til áherslu og eitt og sér. Þetta orð man ég ekki eftir að hafa heyrt nokkurn mann nota síðan í sveitinni hjá ömmu. Það var fyrir fjörutíu árum. En Anna talaði um að þetta væri ljómandi gott, ljómandi þægilegt eða bara ljómandi. Allt í einu rann upp fyrir mér þar sem ég sat á mínum púða í hugleiðslusalnum að þetta er bara alveg ljómandi orð og sjálfsagt að nota það. Alltaf leggst manni nú eitthvað til og nú er ég einu orði ríkari. Ljómandi!
Athugasemdir
Já, það er satt, þetta lýsingaorð er lítið notað. Nú er allt geegt og í besta falli frábært. Anna talar fallegt mál fallega.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 14.2.2007 kl. 23:07
Ljómandi góður pistill hjá þér. Takk fyrir hann.
Guðrún Eggertsdóttir, 15.2.2007 kl. 12:44
Já, ég sá að þú ljómaðir þegar þú hlustaðir á Önnu
Svava S. Steinars, 15.2.2007 kl. 19:32
Alveg ljómandi skemmtilegur pistill hjá þér. Ég ætla að fara að nota þetta orð!!! Knús af Skaga og TAKKKK fyrir síðast, elsku ljómastelpan mín!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.2.2007 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.