6.5.2007 | 19:41
Kræsilegar kynningar
Ég eyddi helginni á sýningunni Veiði 2007, ekki vegna þess að ég sé svo mikill veiðimaður heldur af því að ég hef í tíu ár kynnt fyrirlestra á fundi hjá manninum sem skipulagði sýninguna. Hann heldur nokkrar sýningar ár hvert og í fyrsta skipti sem ég tók þátt í þessu hjá honum var ég sannfærð um að hann bæði mig aldrei aftur og að koma nálægt nokkrum hlut sem hann gerði. Þannig var nefnilega mál með vexti að ég hafði tekið eitt útrásarkastið og uppgötvaði daginn áður en sýningin átti að fara fram að ég passaði ekki neitt af frambærilegustu fötunum mínum. Ég reif mig því í Kringluna og keypti mér reglulega fínt pils og bol í Noa Noa. Helvíti fín og bara reglulega ánægð með mig mætti ég galvösk um morguninn og stýrði fyrirlestrum af mikilli röggsemi. Í hádegishlénu fór ég á klósettið og uppgötvaði að pilsið mitt fína var svaðalega gegnsætt. Eftir það var ég hin vandræðalegasta og kynnti fyrirlesarana sitjandi. Þetta virtist ekki hafa mikil áhrif á sýningarhaldarann því að ári hringdi hann í mig aftur og bað mig að koma og kynna fyrirlestra. Þegar ég sagði manninum mínum frá þessu himinglöð spurði hann: Hvort ætlarðu að vera botnlaus eða topplaus í þetta sinn? Stundum er fyllilega réttlætanlegt að beita maka sinn ofbeldi.
En allt gekk sem sagt vel þessa helgi þótt ég væri fullklædd. Reyndar var ég rám sem hrafn því ég hef verið með svæsna hálsbólgu undanfarna daga og gengið fyrir sólhatti, C-vítamíni og lýsi. Þess á milli sýg ég hálstöflur og drekk berjate. Þrátt fyrir allt þetta er röddin eins og í Mae West og sumir myndu kannski kalla þetta sannkallaða svefnherbergisrödd. Ég er þá trú hefðinni þegar ég kynni fyrirlestra.
Athugasemdir
Þakka þér fyrir það. En annað ég ætla að bjóða þig sérstaklega velkomna í frænkugerið hér því allur kvennkosturinn i bloggurunum hér hjá mér á rætur að rekja í sömu ættina. Það getur verið að þú hafir verið búin að uppgötva það en samt sem áður velkomin. Bið svo að heilsa Guðmundi mínum gamla skólabróður, æskuvini og nágranna
Aðalheiður Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 20:37
Hahaha, góð frásögn!
Hugarfluga, 6.5.2007 kl. 21:03
Ég er ekki frá því að röddin sé jafnvel að gera meira fyrir sexappílið en gegnsær kvennleiki.
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.5.2007 kl. 21:16
Æ, þú hefur bara verið ferlega krúttleg í gegnsæa pilsinu þínu. Og röddin; ég er viss um að svona Viskí-raust klæðir þig ágætlega.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 6.5.2007 kl. 22:41
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 6.5.2007 kl. 22:45
Ekki veit ég hvernig þetta kemur út klippti þetta úr íslendingabók. Á bloggvinalistanum mínum eru systurnar Olga og Kristbjörg þær kæmu þar sem mamma er og móðir þeirra heitir Guðrún Einarsdottir og var systir Eyjólfs afa míns þannig að þær eru fjórði liður á móti pabba þínum svo er það hún Sara hún er dóttir Olgu svo hún kemur sem fimmti á móti þér.
Ég reyndar er búin að vita af þessum tengslum okkar eiginlega frá því að þú og Gummi fóruð að vera saman þvi mamma mín og pabbi þinn þekktust. En ég held að við höfum bara einu sinni hist það var við útförina hans Bárðar.
Vonandi skilurðu eitthvað í þessu rausi:)
Kveðja Aðalheiður
Aðalheiður Magnúsdóttir, 7.5.2007 kl. 18:53
þetta virkar greinilega ekki svona
allt í rugli
Aðalheiður Magnúsdóttir, 7.5.2007 kl. 18:55
kom þessu í töflu formi inn á blogg síðuna hjá mér
Aðalheiður Magnúsdóttir, 7.5.2007 kl. 18:59
Hahhaahha, frábær frásögn. Voða sakna ég þín, elskið mitt!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.5.2007 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.