1.6.2007 | 16:27
Glæstur ferill á leiksviðinu
Oft er sagt um fólk og því lagt það út á versta veg að það eigi að baki skrautlegan feril. Ég var að hugsa um þetta orðatiltæki um daginn, sérstaklega í ljósi þess að dóttir mín ætlar að reyna sig við leiklistina og hyggst taka inntökupróf í leiklistardeild Listaháskólans. Það rann upp fyrir mér við þessar vangaveltur að ég á að baki mjög skrautlegan feril á leiksviði. Á menntaskóla árunum vildi ég verða leikkona og lagði hart að mér til að svo mætti verða. Ég lék nefnilega í tveimur leiksýningum og í annarri lék ég asna en hinni hóru. Eiginlega má segja að ég hafi átt jafn skrautlegan leikferil og maðurinn sem hafði einu sinni stigið á svið og lék þá lík. Sjálfur sagði hann að haft hefði verið á orði í sveitinni að aldrei hefði sést dauðara lík í nokkru leikverki. Já, svona er okkur misjafnlega skammtað flotið að þessu leytinu líka. Eva hefur reyndar leikið ansi fjölbreytt hlutverk eða fullan prest, viðbjóðslega stjórnsama ömmu, hóru (ætli þetta sé einhver ættarsvipur sem leikstjórar falla fyrir), leynilögreglumann og heilalausa leiðindapíu.
Athugasemdir
Það verður gaman að fylgjast með henni
kannski hún eigi eftir að flytja til Ak. og leika hér það er að verða ansi vinsælt
Aðalheiður Magnúsdóttir, 1.6.2007 kl. 19:34
Hehe það er ekki ónýtt að hafa leikið hóru. Er hóruhlutverkið bara ekki nokkuð algengt? Ímynda mér að þannig sé það þar sem kvennatýpur í mörgum leikverkum eru ansi einfaldaðar. Hórur og mömmur. Ansi oft. Óska stelpunni þinni "skrautlegs" ferils á listabrautinni.
Jenný Anna Baldursdóttir, 1.6.2007 kl. 21:40
Vona að hún komist inn, dóttlan. Það er ekki alveg hlaupið að því, eins og dæmin sanna. - Það ku vera ansi erfitt að leika lík, einkum þegar þau eiga að sjást lengi!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 1.6.2007 kl. 22:58
Mikið vona ég að hún Eva komist inn í skólann. Lékstu hóru, stelpa? Ja, hérna. Ég er svo siðprúð að stærsta hlutverk mitt var leikriti þar sem allar konurnar voru kanamellur nema ég. (Hlaupvídd sex). Í hinu var ég kennslukona (Lína langsokkur).
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 2.6.2007 kl. 13:40
Já Steingerður, við lékum saman í Túskildingsóperunni sælla minninga:
Ég lék líka asna í Kardimomubænum í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma. Við Árni bloggvinur minn Guðmundsson skiptumst á að vera fram og afturendinn:
Ásgeir Rúnar Helgason, 2.6.2007 kl. 14:30
Já, Steinka mín. Leiksklistin er margslungin og skemmtileg. Ég gekk með leikarabakteríu á unglingsárunum. Hérna í den í Hlíðaskóla, nánar tiltekið í 10 ára bekk var verið að kenna okkur dönsku sem tilraunaverkefni og mæt kona, Ása Jónsdóttir sem kenndi okkur, setti upp leikrit á dönsku, akkúrat, við lékum á dönsku úr danski barnabók sem hét "Apen og den lille tiger". Ég fékk að leika apann. Þar hófst og lauk jafnframt mínum leiklistarferli. Ég vona að Eva komist inn. Um að gera að láta draumana rætast.
Sigurlaug B. Gröndal, 2.6.2007 kl. 20:59
Ég lék nú í nokkuð mörgum skólaleikritum..Anda Branda var eitt hlutverkið og svo lék ég englaflugfreyju á uppákomu í skólanum hérna úti og einu sinni var ég partur af drekahala. Svo skrifaði ég eitt sinn skólaleikrít sem hét Útvarp Öldutúdnsskóli sem var þannig úr garði gert að allir nemendur j bekkjarins gætu verið með. Það var fínt og skemmtilegt leikrit og kannski forboði að útvarpsferli mæínum síðar á ævinni???
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.6.2007 kl. 13:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.