Útsýnið úr augum annarra

downloadÁn efa höfum við öll velt því fyrir okkur hvernig það væri að geta séð heiminn með augum annarra. Sett okkur svo gersamlega í spor þeirra að við gætum skilið hugsanir, tilfinningar og viðbrögð. Einmitt þetta getur aðalsöguhetjan í bók Guðrúnar Evu Mínervudóttur Sigurlilja. Hún að vísu valdi sér ekki þetta hlutskipti og ræður litlu um hvernig og hvenær þetta gerist, né ræður hún hvaða manneskja verður fyrir valinu. Hún upplifir hins vegar alltaf óþægilegar stundir eða erfið augnablik. Sigurlilja öðlaðist þennan hæfileika eftir að hafa séð geimskip svífa yfir Hafnarfirði og hnigið niður í götuna.

Henni hefur lærst að tala ekki um þennan hæfileika en vegna hans er hún líka svolítið á floti í lífinu, stefnulaus og ofurlítið tætt og þykir engum mikið. Áhorfandi að lífinu fremur en þátttakandi. Þegar ömmusystir hennar deyr býður hún móður sinni að fara austur á Bakkafjörð og ganga frá dánarbúinu. Þar hittir hún margt litríkt og skemmtilegt fólk og kemst að ýmsu um sjálfa sig og frænku sína.

Guðrún Eva skrifar einstaklega fallegan texta og henni er sérlega lagið að skapa sterka og flotta karaktera. Það er hins vegar eitthvað sérstaklega heillandi við framvinduna í þessari bók. Hún líður einhvern veginn áfram í tímaleysi og þægilegu frelsi þeirra sem ekki eru bundnir við tímann og stressið í höfuðborginni. En um leið eru þetta margar sögur í einni. Við fáum að sjá atvik úr lífi fólksins sem Sigurlilja heimsækir í svefni en heyrum einnig af ævi og atvikum samferðamanna hennar. Augu hennar horfa djúpt inn í sál fólks og það trúir henni fyrir ýmsu sem það hefur ekki talað um áður. Útsýnið í þessari sögu er svo margvíslegt og athyglisvert, úr glugganum í Steinholti sjö, úr augum Sigurlilju, fólksins sem hún heimsækir og fólksins sem hún hittir. Er ekki sagt að það auki skilning okkar á veröldinni og okkur sjálfum ef við reynum að setja okkur í spor annarra og sýna þeim skilning og umburðarlyndi. Í þessari sögu er mikill kærleikur og vilji til að leyfi hverjum fugli að fljúga eins og hann er fiðraður. Vísindin hafa ekki alltaf skýringar á öllu og það gerir lífið forvitnilegra og meira spennandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Ég er svo gjörsamlega sammála því að það er mikilvægt að geta sett sig í spor annarra. Að vera opinn fyrir því sem Óðinn í ásatrúnni er það er ein aðferðin til þess. Ég hef ekki lesið þessa bók en þetta vekur áhuga minn. 

Ingólfur Sigurðsson, 16.12.2022 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband