Leitin að Caleb

51peIsQwN7LNýlega rak á fjörur mínar bókin Searching for Caleb eftir Anne Tyler. Ég var satt að segja alveg búin að gleyma þessum frábæra höfundi en The Accidental Tourist, Dinner at the Homesick Restaurant og Breathing Lessons vöktu mikla hrifningu hjá mér á níunda áratug síðustu aldar. Ji minn eini hvað þetta hljómar rosalega langt aftur. En þessar bækur eldast vel.

Það er svolítið erfitt að flokka Anne Tyler því bækur hennar hafa svo sérstakt andrúmsloft. Í aðra röndina minnir hún mig á suður-amerísku höfundana, þessa sem gjarnan eru kenndir við töfraraunsæi. Persónur hennar eru nefnilega allar óvenjulegar, nánast sérvitringar, og svo hverfist sagan ævinlega um tengsl. Sambönd persónanna innbyrðis, um fjölskyldur og ættir og einmanaleika. En margt í persónulýsingum hennar og hvernig hún byggir upp karaktera er ekki ólíkt Charles Dickens. Stuttar grípandi lýsingar hér og þar sem byggja upp heildstæða og einstaklega lifandi mynd af persónu. Hann líkti fólkinu sínu gjarnan við dýr en var líka snillingur í að draga upp myndir af hreyfingum sem sögðu ótrúlega margt um karakterinn. Það gerir Anne Tyler líka. Hvað segir þetta til að mynda um Justine: „She was always late for everything, though she started out the earliest and the fastest and the most impatient. She was always leaving places in the same way, calling scraps og goodbyes and then running, flying bearing some shaking plant or parcel or covered dish ...“ Kvenpersónur Anne Tyler eru sterkar, mun sterkari en karlarnir í lífi þeirra en engu að síður gangast þær viljugar undir hið hefðbundna kvenhlutverk í flestum tilfellum.

Bækurnar hennar eru skemmtilega tímalausar. Oft finnst manni maður staddur á öðrum, þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar en svo koma senur sem allt eins gætu átt við daginn í dag. Í Searching for Caleb skapar hún ákaflega sérstæða fjölskyldu. Elstur er Daniel Peck, afinn, hann virkar ótrúlega gamall á lesandann næstum forn en er samt ótrúlega ern og lifandi. Justine er spákona, lífleg og hlý og laðar að sér fólk hvar sem hún fer. Duncan, eiginmaður hennar, er drifinn áfram af eirðarleysi. Hann þarf stöðugt eitthvað nýtt að fást við og skiptir ört um vinnu með tilheyrandi flutningum og óþægindum fyrir fjölskylduna. Justine og Duncan eru frændsystkin (cousins) en Peck-fjölskyldan almennt er virðuleg, velefnuð og fastheldin. Þau eru ásamt Caleb einu uppreisnarseggirnir. Meg, dóttir þeirra, þráir ekkert heitar en að setjast að á einum stað, klára nám og lifa hefðbundnu lífi að því loknu. Hún er sannur Peck.

Að halda og sleppa 

Daniel lætur í ljós löngun til að finna bróður sinn, Caleb, sellóleikara sem hvarf þegar þeir voru ungir og ekkert hefur spurst til í sextíu ár. Hann og Justine halda af stað til að finna hann og áður en yfir lýkur finnur Justine fleira en þennan frænda sinn. Þemu þessarar bókar eru flókin og spennandi. Leitin að einhverju sem hefur verið týnt árum saman og finna að lokum sjálfan sig að nýju í gegnum það er svo sem ekki nýtt viðfangsefni en hér er þetta sett fram á frumlegan og skemmtilegan hátt. Hver og ein persóna svo spennandi og þessi skarpa mótsögn milli þröngsýnna sjálfumglaðra ættingja þeirra Duncans og Justine og persónuleika þeirra tveggja er einstaklega áhugaverð og vel útfærð. Sjálfstæðisþörf Duncans og í raun sjálfselska hans, honum er alveg sama hvaða áhrif þörf hans fyrir nýjar áskoranir, kemur við aðra og eilíft umburðarlyndi Justine eru gerólík viðhorfum annarra í fjölskyldunni. Þeirra eigin dóttir meðtalin.

Daniel er lýsandi fyrir fjölskylduna, fullkomlega ófrumlegur og virðulegur eldri maður. Hann eldist vel en virðist ekki hafa haft mikla ánægju af lífinu eða horfa til baka yfir farinn veg með vellíðan yfir unnum afrekum. Hann lýsir þessu best sjálfur: „In my childhood I was trained to hold things in, you see. But I thought I was holding them in until a certain time. I assumed that someday, somewhere, I would again be given the opportunity to spend all that save-up feeling. When will that be?“ Alla ævi hefur hann haldið fast í hlutina, engu sleppt og aldrei leyft sér að njóta ávaxtanna af neinu. Leitin að bróðurnum horfna verður skiljanleg í þessu ljósi.

Justine á hinn bóginn heldur engu. Hún leyfir öllu að flæða frá sér, fylgir fólki og elskar skilyrðislaust. Hún hefur líka einhvers staðar sleppt sjálfri sér. Umfram allt er sagan kannski um hið fíngerða jafnvægi milli þessa að halda of fast og sleppa öllu lausu. En hvernig sem menn upplifa þemað og boðskap sögunnar er hún listalega vel spunnin og skrifuð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband