26.1.2023 | 16:59
Að eiga sig sjálfa
Þegar sjónvarpsþættirnir um þernuna, June Osborne eða Offred voru fyrst sýndir árið 2017 datt fáum í hug að þeir myndu slá í gegn en það gerðist. Þáttaraðirnar eru orðnar fimm og höfundur bókarinnar sem byggt er á, Margaret Atwood sendi frá sér árið 2019 nýja bók, The Testaments sem gerist fimmtán árum eftir að fyrri bókinni lauk og örlög þernunnar eru rakin frekar.
Árið 1986 barst íslensk þýðing Sögu þernunnar í hendurnar á mér. Ég heillaðist af sögunni en lokaði bókinni með feginsandvarpi og hugsaði, til allrar lukku gæti þetta aldrei gerst, heimurinn væri kominn of langt í jafnréttisátt til þess að það yrði. Kvennalistinn hafði boðið fram á Íslandi og þrefaldað fjölda kvenna í borgarstjórn Reykjavíkur og á þingi. Kvennahreyfingar voru sterkar á Vesturlöndum og allt virtist þokast í sömu átt í öðrum heimshlutum. Ég horði hins vegar með allt öðrum augum á fyrstu þættina í The Handmaid s Tale og skyndilega varð Gilead ekki bara ímyndað framtíðarland heldur mögulegur, ógnvekjandi raunveruleiki.
Klerkastjórnin í Íran og Talíbanar í Afganistan hafa sýnt fram á að á einni nóttu er hægt að svipta konur öllum borgarlegum réttindum, banna menntuðum læknum, lögfræðingum, hjúkrunarfræðingum og kennurum að vinna við fag sitt, hárgreiðslukonum og snyrtifræðingum að eiga og reka fyrirtæki sín og líkt og allir vita tóku stjórnvöld í Íran sér það vald að setja klæðaburði kvenna skorður. Klerkastjórnin kom einnig á fót siðgæðislögreglu til að sjá um að konur beygðu sig undir þær reglur og klæddu sig eftir forskriftinni. Undanfarið hafa borgarar í Íran gert uppreisn gegn þessu og mótmælt og það hefur kostað suma lífið. Nú er útlit fyrir að siðgæðislögreglan verði lögð niður en reglunum um búrkur og slæður verður ekki breytt. Allt það versta úr sögu Margaret Atwood hefur ekki bara gerst heldur einngi haldist við um langt árabil.
Konur neyddar til að eiga börn
Margaret byrjaði að hugsa um og setja saman hugmyndina að bókinni árið 1981. Hún hefur sagt frá því viðtölum að kommúnistastjórn Nicolasar CeauÈ™escu í Rúmeníu hafi meðal annars verið kveikjan að bókinni. Þar í landi voru konur neyddar til að eignast börn vegna þess að samfélagið þarfnaðist fleiri þegna til að verða ríkara, eins CeauÈ™escu orðaði það í lögunum sem hann setti um þetta efni. Hverri konu var ætlað að eignast að minnsta kosti fjögur börn. Í hverjum mánuði urðu konur að taka þungunarpróf og ef það var neikvætt var þeim gert að skýra hvers vegna svo væri. Þessi stefna hans varð meðal annars til þess að munaðarleysingjahæli í Rúmeníu fylltust af börnum sem fátækt fólk hafði ekki möguleika á að sjá fyrir. Eftir fall stjórnar CeauÈ™escu árið 1989 vakti hræðilegur aðbúnaður þessar barna viðbjóð um allan heim. Á sama tíma bönnuðu stjórnvöld í Kína hjónum að eignast fleiri en eitt barn.
Á ritunartíma bókarinnar voru einnig fluttar sláandi fréttir af ástandinu í Íran undir Ayatollah Khomeini. Fangelsin voru full af pólitískum föngum, pyntingar algengar og konur voru verst settar. Það má líka minna á Lebensborn-hreyfinguna í Þýskalandi. Eftir að nasistaflokkurinn komst til valda var SS-mönnum gefið leyfi til að taka sér fleiri en eina konu til að geta fleiri lítil ofurmenni. Þau áttu að vera ljóshærð, bláeyg, hávaxin, heiðarleg og umfram allt trú flokknum.
Á áttunda áratug síðustu aldar unnu bandarískar kvenréttindakonur einnig að því að fá samþykktan viðauka við stjórnarskránna sem kvað sérstaklega á um að konur og karlar skyldu njóta jafnréttis á allan hátt. Upp risu heimavinnandi húsmæður og kristnar konur og hófu hatramma baráttu gegn viðaukanum. Meðal þess sem þær héldu fram í málflutningi sínum var að kvenréttindahreyfingin væri á móti barneignum og ætlaði sér að gera lítið úr móðurhlutverkinu. Á sama tíma spruttu upp ýmsir kristnir sértrúarsöfnuðir, m.a. People of Hope en þar voru konur beinlínis skilgreindar sem óæðri körlum og að þeirra hlutverk væri að þjónusta þá. Sjónvarpsþættir um leiðtoga þessarar hreyfingar, Phyllis Schlafly, frá árinu 2020 vörpuðu athyglisverðu ljósi á þau átök. Þættirnir heita Mrs. America og eru frábærlega vel unnir.
Gefnar, boðnar, fórnað
Upphaflegur titil skáldsögunnar var Offred. Það er nafnið sem Jane fær eftir að hún verður þerna en þetta er orðaleikur. Enska sögnin to offer sem í þátíð er offered getur þýtt bæði boðið og fórnað. Þernurnar eru í senn fórnarlömb og eitthvað sem boðið er hinum valdameiri, þeim gefið til að þeir geti gert við þær það sem þeir vilja. Þegar hún var næstum búin að skrifa söguna ákvað Margret að breyta titlinum í Handmaids Tale vegna þess að henni fannst hitt of augljóst.
Hún hafði á þessum tíma nýlega lesið bók eftir Doru Forster frá árinu 1905. Hún heitir Sex Radicalism: As Seen by an Emancipated Woman of the New Time, eða Kynlíf róttækni: Eins og frelsuð kona nýrra tíma sér það. Dora talar meðal annars um að samfélagið þurfi að virða móðurhlutverkið á sama hátt og hermennsku. Að það þurfi að ríkja skilningur á hvað konur leggja á sig fyrir börn sín til að eignast þau, aðeins þá verði það þess virði fyrir þær að sjá samfélaginu fyrir nægilega mörgum börnum, eins og Dora orðar það. Um svipað leyti rakst Margret á skrif Charles J. Lumsdens og Edwards O. Wilsons um samband líffræði og menningar. Þeir benda á að í mörgum frumstæðum samfélögum sé hversu mörg börn menn eigi ákveðinn mælikvarði á karlmennsku þeirra. Fjölkvæni sé eðlilegt meðal þeirra af þessum sökum.
Mormónar hafa alltaf verið hallir undir fjölkvæni og í trú þeirra er meira að segja sagt að konur komist eingöngu til himna fyrir tilstilli karla. Þrátt fyrir að fjölkvæni sé ólöglegt í Bandaríkjunum hefur ýmsum mormónahópum tekist að fara í kringum lögin og enn þekkist að þar séu mjög ungar stúlkur giftar gömlum körlum. Þó nokkrir sjónvarpsþættir um fjölskyldur sem lifa saman á þennan hátt hafa notið mikilla vinsælda víða um heim, nefna má, Big Love, Sister Wives, My Five Wives og Seeking Sister Wive. Í raunveruleikanum er ekki alltaf gott samkomulag í þessum fjölskyldum og margar konur verið neyddar í slík hjónabönd, heimildamyndin Escaping Polygamy segir sögu nokkurra þeirra.
Stjórnvöld ráða meiru en konur grunar
Í öllum samfélögum hefur alla tíð verið mikilvægt og samfélagslega verðmætt að hafa stjórn á barneignum kvenna og líkömum. Þeim hefur ekki verið treyst til að meta þetta sjálfar og ýmist verið hvattar eða lattar til að verða ófrískar. Ástarvika var einhverju sinni haldin á Bolungavík í því skyni að fjölga þar íbúum og eftir fyrri og seinni heimstyrjaldirnar voru konur hvattar til að fjölga sér sem mest til að bæta upp mannfallið á vígvöllunum. Eftir að getnaðarvarnarpillan kom til hefur fjöldi barna sem hver kona eignast um ævina í vestrænum samfélögum minnkað mjög. Af og til hafa stigið fram valdamenn og reynt að snúa þessari þróun við. Meðal annars Dave Nickerson í kanadíska þinginu einmitt þegar Margaret var að fullvinna og safna að sér áhrifum við úrvinnslu bókarinnar. Hann bar fyrir sig slagorðið: Make a Baby for Christmas eða búið til barn fyrir jól.
Víða um Vesturlönd eru getnaðarvarnir niðurgreiddar en víða ekki, til dæmis hér á Íslandi. Óhjákvæmilega leiðir þetta til þess að fátækar konur eru líklegri til að eignast fleiri börn en hinar sem hafa efni á skipuleggja hvort og hvenær þær verða þungaðar. Víða úti í heimi eru leikskólar svo einkareknir og það gerir konum erfiðara fyrir að fara út á vinnumarkaðinn eftir að barn fæðist. Í þessu felst ákveðin stjórnun á þátttöku kvenna á vinnumarkaði og afkomu fjölskyldna.
Þetta á einnig við um þungunarrof. Páfinn fordæmdi lengi getnaðarvarnir og þungunarrof sem leiddi til margvíslegra vandamála tengd ótímabærum þungunum í löndum þar sem þegnar voru í meirihluta kaþólskrar trúar. Glæpir framdir gegn konum og börnum í nunnuklaustrum á Írlandi hafa enn ekki verið fullrannsakaðir en ógiftar mæður voru neyddar til að þræla í þvottahúsum reknum af klaustrunum og börn þeirra tekin af þeim og seld. Ólöglegar fóstureyðingar kostuðu einnig margar konur lífið. Enn er í gangi öflug og óvægin barátta gegn fóstureyðingum víða í Bandaríkjunum og í Evrópu og viðsnúningur á dómi hæstaréttar frá árinu 1973 í máli Roe gegn Wade, sem snerist einmitt um rétta kvenna til að binda enda á meðgöngu, hafa mörg ríki Bandaríkjanna bannað fóstureyðingar að nýju. Full ástæða er til að huga að rétti kvenna til að ráða líkama sínum og lífi hér á landi líka því ekki er mjög langt síðan hatrömm umræða um nýtt þungunarofsfrumvarp fór fram á Alþingi og margir töldu að konur myndu nýta sér rýmri löggjöf til að losa sig við börn sín eiginlega fyrir duttlunga eða af léttvægum ástæðum. Þingmaður var meira að segja svo smekklegur að tala um morð í þessu samhengi þar sem sá hinn sami stóð og tárfelldi í ræðustól.
Konur ófrjóar, karlar ekki
Það þarf heldur ekki að líta langt aftur í tímann til að sjá að langt fram eftir þessari öld var ófrjósemi almennt talin kvennavandamál. Karlar gátu ekki verið ófrjóir, enda framleiddu þeir sæði. Ef hjónum gekk illa að geta af sér erfingja var ævinlega litið til konunnar. Nú vita menn betur og vitað er að ýmiss konar mengun í andrúmslofti og umhverfi okkar dregur úr frjósemi bæði karla og kvenna. Það varð meðal annars til þess að Margaret Atwood fór að velta fyrir sér hvers konar samfélag yrði til ef ófrjósemi væri algeng meðal kvenna og aðeins fáar færar um að geta og ganga með börn.
En það var fleira sem vakti ótta og tortryggni hjá rithöfundinum á þessum árum. Debit- og kreditkort voru að ryðja sér til rúms og hún sá í þeim ákveðna hættu. Vegna þess að þessum kortum er stjórnað stafrænt er bæði auðvelt að nota þau til að fylgjast með ferðum fólks, neyslu og einnig að loka fyrir þau ef yfirvöldum sýnist svo. Og þetta er einmitt það sem gerist í Gilead. Konur hætta skyndilega að geta sótt sér peninga í hraðbanka og greiða með kortum sínum. Í dag höfum við auðvitað enn fjölbreyttari leiðir til að fylgjast með fólki, tölvur, síma og GPS-tæki. Enginn efast lengur um að þessi tæki séu notuð einmitt í þeim tilgangi. Allir þekkja að hafa slegið inn eitthvert tiltekið orð í google-leit og örskömmu síðar taka að poppa upp auglýsingar á ýmsum varningi tengdri þessari leit á facebook-síðu þinni, Twitter og Instagram.
Það er ekki spurning að Saga þernunnar er tímamótaverk og boðskapur þess umfram allt, ekki fljóta sofandi að feigðarósi. Allt sem gerist annars staðar getur gerst hér líka. Nasisminn náði völdum í Þýskalandi, kommúnisminn í Austur-Evrópu og Kína, trúarofstækið í Afganistan og Íran. Í Hvíta-Rússlandi stóð hugrakkt fólk á götum úti og leitast við að fá ógiltar ólöglegar kosningar og í Úkraínu berjast menn við að halda í sjálfstæði sitt og fullveldi. Þegar foræðishyggja verður áberandi er mjög stutt í kúgun. Við vitum betur. Okkur ber að hafa vit fyrir þér vegna þess að þú hefur ekki nægilega góða dómgreind eða sterkt siðferði til að sjá fyrir þínum málum sjálf. Hvað ef sá hugsunarháttur fer að teygja sig lengra og lengra inn í daglegt líf okkar? Hvar eru mörkin milli eðlilegrar stjórnunar og kúgunar? Allir hafa einhverjar skoðanir á því hvað sé heillavænlegast fyrir heildina en það þýðir ekki að svo sé. Rithöfundar á borð við Margaret Atwood gegna mikilvægu hlutverki að opna huga lesenda og skapa aukna víðsýni og skilning. Ný íslensk skáldsaga, Þetta rauða, það er ástin, eftir Rögnu Sigurðardóttur vakti með mér svipaðar tilfinningar og hugrenningatengsl og Saga þernunnar. Hún minnti mig á hversu stutt er síðan konur fengu rétt til að stjórna sjálfar hvenær þær gengu með börn. Hún sýnir einnig skýrt hvernig aðstæður voru meðan þungunarrof voru framkvæmd í skúmaskotum af misjafnlega hæfu fólki. Og síðast en ekki síst minnti hún á að konur þurftu að velja milli drauma sinna, langana og stundum köllunar og móðurhlutverksins. Sumar þurfa þess enn í dag. Einhver sagði einhvern tíma að það þyrfti alltaf einhverju að fórna til að draumur yrði að veruleika. Kannski er það rétt og vissulega getur enginn öðlast allt sem hann vill í lífinu. En í sumum tilfellum er fórnin bara of ósanngjörn, of stór. En það er alltaf ómetanlegt að geta sett sig í spor annarra og fengið nýja sýn á heiminn í gegnum góðar bækur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.