10.2.2023 | 00:25
Maðurinn í baráttu við sjálfan sig
Systraklukkurnar eftir Lars Mytting er um vel unnin og áhugaverð skáldsaga. Gamla starfkirkjan er nánast eins og persóna í bókinni sem lesandinn hrífst af og er umhugað um. Vegna þess að þessi saga hefur svo oft verið borin saman við bækur Roy Jacobsen verð ég að segja að á meðan þar er fjallað um mannkærleika sem blómstrar óháð þeim aðstæðum sem fólk býr við er hér mun meira af gráum skuggum. Samfélagið er um margt miskunnarlaust og dómhart. Að verða umfjöllunaefni sveitaslúðursins er eitthvað sem ber að forðast.
Þegar ungur prestur Kai Schweigaard kemur er hann staðráðinn í að draga þessa gömlu sveit inn í nútímann og það fyrsta sem þarf að fara er gamla kirkjan. Hann virðist hins vegar ekki skilja að enginn kærir sig um hans nýju hefðir og menn sjá ekki í þeim neina bót. Sú sem reynist honum best og leiðsögumaður inn í þennan nýja heim er Astrid Hekne, bóndadóttir frá fyrrum stórbýli. Hún er sterk kvenpersóna, greind, skilningsrík og ákveðin en presturinn virðist lengst af líta niður á þessa konu sem hann þó elskar. Hann dregst að henni en hún er honum fremur eins og einhvers konar eign en kona og félagi til að verja lífinu með og þegar ungur þýskur arkitekt kemur í dalinn til að taka kirkjuna gömlu niður og flytja hana brott verður hann ástfanginn af Astrid og hún af honum. Þessi ástarþríhyrningur verður til þess að Kai þarf að takast á við eigin hroka og þröngsýni.
Öðrum þræði er ætlun höfundar að lýsa tíðarandanum og bændasamfélaginu í Guðbrandsdal eins og það var á öndverðri nítjándu öld. Hann kemur vel til skila og yfirlæti menntamannanna sem í líta niður á alþýðuna, sjá hana jafnvel ekki sem mennska. Þarna er hjátrúin einnig allsráðandi, gömul minni og þemu sem aldrei hafa horfið fyllilega þrátt fyrir aldalanga kristni. Bændurnir eru þögulir, harðskeyttir og kunna að takast á við óblíða náttúruna en fleira leynist undir yfirborðinu, eins og í tilfelli föður Astridar, afa hennar og þess forföður sem lét steypa Systraklukkurnar með öllu silfri ættarinnar í bræðslunni.
Það er margt áleitið og áhrífaríkt í sögunni. Átök mannsins við sinn innri mann. Það hvernig hann þarf að horfast í augu við sjálfan sig, skilja að hið nýja er ekki endilega betra en hið gamla og kristið hugarfar er ekki litað af strangleika. Það þarf sterkan mann til að viðurkenna að hann hafi gert rangt. Sagan af klukkunum er einnig heillandi, lýsingar á kirkjunni, listinni og þau áhrif sem hún hefur á manneskjurnar eru líka einstaklega vel framsettar. Þarna er líka frábærlega skrifaður kafli um stangveiði, fallegar lýsingar á nývaknaðri ást og áhrifamiklar sameiginlegar upplifanir. Kuldinn er lengi nánast áþreifanlegur í bókinni og líka draumar ungrar konu um ævintýri og líf utan dalsins. Þráin eftir þekkingu og einhverju meira sem er svo rík í brjósti fólks sem á framtíðina fyrir sér. Jón St. Kristjánsson þýðir á einstaklega fallegt íslenskt mál og í sjálfu sér þess virði að lesa bara til að njóta þess.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.