14.2.2023 | 11:13
Stórskemmtilegar sænskar löggur
Dauðinn á opnu húsi eftir Anders de la Motte og Måns Nilsson er flott sakamálasaga í anda Agöthu Christie og annarra höfunda sem leggja áherslu á flókna gátu og samspil persóna fremur en sálfræði morðingja og yfirgengilegt blóðbað. Sagan gerist í smábæ á Skáni í héraðinum Österlen en Peter Vinston rannsóknarlögreglumaður frá Stokkhólmi er skikkaður í frí vegna síendurtekinna svimakasta. Hann ákveður að hvíla sig í sumarhúsi á landareign eiginmanns fyrrverandi konu sinnar, mæta í sautján ára afmælisveislu dóttur sinnar og njóta lífsins. Peter er mikill smekkmaður og gætir þess vel að vera óaðfinnanlega klæddur við hvaða aðstæður sem er og þolir ekki dýr. Honum er því sannarlega ekki að skapi að þurfa að eiga í nánum samskiptum við kött og hest.
Tove Esping er metnaðarfull og dugleg lögreglukona og henni er ekki skemmt þegar yfirmaður hennar biður Peter að ráða henni heilt í fyrsta morðmálinu sem hún fær til rannsóknar eftir að fasteignasali og áhrifavaldur finnst myrt í húsi sem verið er að sýna og selja. Inn í málið flækjast svo ýmsir íbúar á svæðinu sem flestir eiga það sameiginlegt að tilheyra sænskri yfirstétt. Bókin er skemmtilega skrifuð, fyndin og með nægilega mörgum hnútum og slaufum á fléttunni til að ýmislegt komi á óvart í lokin.
Anders de la Motte er fyrrverandi lögreglumaður og hefru skrifað sakamálasögur síðan 2010. Hann hefur vakið athygli langt út fyrir Svíþjóð fyrir flottar spennusögur en hér tekur hann höndum saman við Måns Nilsson handritshöfund og sjónvarpsmann. Måns er einnig þekktur barnabókahöfundur en Österlen-morðserían hefur slegið rækilega í gegn og nú þegar er komin út önnur bók. Vonandi kemur hún sem allra fyrst á íslensku því þetta er frábær afþreying og ekki væri verra ef sjónvarpsþáttaröð fylgdi í kjölfarið. Þessar persónur eru alveg kjörnar til að taka við af Wallander sem uppáhaldssænsku löggur heimsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.