1.3.2023 | 20:02
Þarf að gæta orða sinna?
Mér finnst orðræða í samfélaginu hafa breyst. Allir eru svo meðvitaðir um tjáningarfrelsið og rétt sinn til að hafa skoðanir að það gleymist að með þeim rétti fylgir sú ábyrgð að velja orð sín af kostgæfni og gæta þess að þau særi ekki eða ýti undir hatur og illsku í samfélaginu. Enskt orðtak segir að enginn geti fyllilega skilið annan fyrr en hann hefur gengið mílu í skónum hans. Þetta er góð speki vegna þess að í raun og veru er aldrei hægt að dæma nokkurt líf sé horft á það utan frá.
Þetta er líka svo skynsamlegt að allir finna að það er satt en samt gleymum við þessu reglulega og setjumst í dómarasæti yfir öðrum. Við þykjumst vita betur og skynja hinn eina stóra sannleika eða innstu rök tilverunnar. Auðvitað á þetta að vera svona og engan veginn öðruvísi. Það er sjálfsagt að fólk felli sig í það mót sem okkur finnst hentugast, enda passar það okkur og ætti því að vera fullgott fyrir alla aðra.
En einmitt þar liggur vandinn því þótt hjörtum mannanna svipi saman í Súdan og Grímsnesinu ber samt hvert hjarta einstaklingseinkenni. Þess vegna erum við öll jafnólík og fingraför okkar. Við getum því aldrei fullkomlega verið viss um að við höfum allar forsendur til að dæma aðra. Við getum dæmt en aðeins fyrir okkur sjálf, valið og hafnað eingöngu því sem snertir okkar líf. Þær tilfinningar sem bærast innra með hverjum einum eru einstakar og hver einasta manneskja á rétt á að velja sér stað í lífinu, gera upp við sig hvaða kyni hún, hann, kvár eða stálp tilheyrir. hvert hugur hennar hneigist í ástarmálum og hvernig hún kýs að nota líkama sinn og hugarafl. Hið sama gildir um val á lífsstíl, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum eða mataræði.
Hverju skiptir það hvort strákur kyssir strák, kvár eða stálp ef það veitir báðum hamingju? Er ekki nógu erfitt að höndla hamingjuna svona almennt til að við getum fagnað því innilega þegar einhverjum tekst það? Hvers vegna í ósköpunum látum við það ergja okkur að einhver kýs annars konar ástarsælu? Er ekki fjölbreytileikinn einmitt stærsta gæfa mannkynsins?
Umburðarlyndi verður að rækta. Það þarf að sá fræjum og vökva þau reglulega til að tryggja viðgang þessa þáttar í eðlinu. Helsti óvinur umburðarlyndisins er dramb. Sú tilfinning að þú hafir einhvers konar yfirburðastöðu og vitir því betur en samborgarnir. Þegar hrokinn nær yfirhöndinni er ekki von á góðu vegna þess að þá sest einstaklingurinn ekki bara í dómarasætið heldur telur sig þess umkominn að predika og neyða aðra inn á tiltekna braut. Ég hef aldrei getað skilið þá löngun. Frá barnæsku hefur efinn fylgt mér hvert fótspor. Efinn um að ég viti nákvæmlega hvað hentugast er hverju sinni, hafi rétt fyrir mér þegar ég fullyrði eitthvað, að ég sé að vinna verkin á besta mögulega hátt og oft efi um að ég sé að gera mitt besta. Vegna þessa hef ég aldrei verið fyllilega sannfærð um að mínar skoðanir séu þær einu réttu og að aðrir eigi að tileinka sér þær. Mér nægir að vita svona nokkurn veginn frá degi til dags að ég sé að gera það sem ég tel best fyrir sjálfa mig.
Ég leitast líka við að rækta með mér þolinmæði og skilning gagnvart mínum nánustu og vinna að því að styðja þá fremur en að kúga þá til að fara þær leiðir sem ég myndi kjósa þeim til handa. Vegna þess að þetta er heilmikið starf hef ég aldrei hafi tíma til að elta ólar við vandamál konunnar í næsta húsi eða hennar athafnir. Thomas Jefferson sagði að það skipti hann engu hvort nágranni hans héldi einn guð í heiðri eða tuttugu svo lengi sem enginn þeirri tæki upp á að stela frá honum eða fótbrjóta hann. Ég er eiginlega alveg sammála honum. En þótt ég myndi aldrei leggjast jafnlágt og þeir sem kjósa að dreifa hatursáróðri hvort sem það er undir yfirskini skoðana eða húmors verð ég að viðurkenna og senda það héðan út í kosmosið að mín skoðun er sú að gífuryrði skili aldrei árangri. Að forsmá kurteisi og virðingu í mannlegum samskiptum og kalla aðra öllum illum nöfnum sé ekki líklegt til að fá þá á þitt band eða skila þér því sem þú helst vilt ná fram. Þegar sturluðum vitfirringum og fávitum fer að fjölga í kringum þig er held ég komin ástæða til að líta í eigin barm. Who died and made you king? Er annað gott enskt máltæki. Hver skipaði þig í hlutverk siðgæðisvarðar, dómara eða hrópandans í eyðimörkinni sem einn sér hið rétta? Því er vandsvarað í öllum tilfellum. Nelson Mandela og Ghandhi sýndu heiminum fram á að ekki þarf að grípa til vopna eða þess að svívirða andstæðinginn til að ná sigri. Þeir eru að mínu mati fyrirmyndir sem fleiri mættu líta til.
Athugasemdir
Steingerður Steinarsdóttir þökk fyrir ágæta hugleiðingu um þá slæmu breytingu sem hefur orðið á talsmáta manna, um mál og málefni. Hvernig menn fjalla oft vægðarlaust um náungan, trú hans og verk. Orðræður manna eru öfgakenndar og oft tillitslausar og dómharkan er mikil.
En aðgát skal hafa í nærveru sálar, segir máltækið.
Ég fell sjálfur stundum í þetta far. Ef til vill vegna þess að ég flýt að einhverju leiti með straumnum, og þó ekki.
Ég hef einmitt tekið eftir því hjá þér, í bókaumfjöllunum þínum, að þú finnur ætíð eitthvað got til að segja um bækurnar og höfundana.
Þú nefnir að við getum aðeins fellt dóma og haft skoðanir fyrir okkur sjálf og þó ekki verið viss um að við höfum tekið rétta stefnu, valið réttan veg.
Sumir segja: Ég hef mína trú útaf fyrir mig, ég ber hana ekki á torg.
Ég er á því, að sá sem þetta segir fari villu vegar. Við sem trúum á Orð Guðs, trúum því sem í 11. kafla Hebreabréfsins stendur:
1 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.
Jesús hefur einnig gefið okkur, lærisveinum sínum, skipun um að fara út um allan heim og gjöra allar þjóðir að lærisveinum, og kenna þeim að halda allt það sem Hann hefur boðað okkur.
Er ekki hugsanlegt að einhverjir, flokki orð Jesú Krists undir hatursorðræðu, þar sem Hann segir í Jóhannesarguðspjalli kafla 8, versunum 40 – 45:
Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á Orð mitt. Þér eigið Djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í Sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.
Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 2.3.2023 kl. 18:03
Sæll Guðmundur Örn og þakka þér kærlega fyrir þessa hugleiðingu.
Mér finnst þetta mjög athyglisvert. En efinn hefur alltaf fylgt mér og ég hef ekki þína fullvissu. Ég er þó sannfærð um að umburðarlyndi og virðing í mannlegum samskiptum fer alltaf best. Ég treysti mér ekki ttil að dæma þess orð Krists sem þú vitnar í en þau kalla á ígrundun.
Steingerður Steinarsdóttir, 3.3.2023 kl. 08:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.