Brosað út í annað og stundum bæði

download-1Kvíðastráið Hjalti er í leit að friði og huggun. Kærastan er farinn frá honum, hann nær engu sambandi við vini sína lengur og Covid hefur rænt hann lyktar- og bragðskyni. Þegar hann kynnist nágranna sínum Ingimar og í gegnum hann Kakófylkingunni fer loks að rofa til. Rjúkandi kakóbollinn færir Hjalta kærkomna slökun og loksins getur hann sofið. Það er svo mikill léttir að hann tekur skyndiákvörðun um að segja upp íbúðinni, losa sig við allt sitt dót og halda í ferðalag með þessum nýfundnu vinum.

Þetta er í stuttu máli sögurþráðurinn skáldsögurnnar Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur. Guðrún er góður höfundur, stíllinn er léttur og sagan virkilega fyndin á köflum. Henni er einnig lagið að skapa sérstæðar og skemmtilegar persónur og þær eru auðvitað driffjöðurin í atburðarásinni. Hin stjórnsama Hildigunnur, kakógúrúinn, sem veit hvað er lærisveinum sínum fyrir bestu. Ingimar fylgir henni trúfastur en er með eigin ásetning á hreinu. Hán Lára þarfnast þess að vera hluti af einhverju og Sigríður er eins og alfræðiorðabók og hefur þörf fyrir að kenna öðrum. Og svo er það Ragnheiður ofurlítið týnd unglingsstúlka sem þarf hjálp. Saman tjaldar þetta fólk í Skaftafelli í Öræfum og segja má að hver og einn finni sinn sannleika á óvæntan hátt í íslenskri náttúru.

Hér er kaldhæðnin vissulega ráðandi og þótt brugðið sé upp grátbroslegum myndum af ýmsu sem fram fer meðal andlega leitandi fólks í sjálfshjálparhópum er höfundur ekki að dæma. Hún gerir ekki lítið úr viðfangsefninu eða persónum sínum þótt hún vissulega hæðist ofurlítið að þeim á stundum. Enginn skyldi gera of lítið úr áhrifum heitra drykkja. Bretar eiga sinn tebolla, Íslendingar kaffið og hví skyldi hið Suður-Ameríska kakó ekki búa yfir þeim mætti að vísa mönnum veginn. 

Guðrún er áhugaverður höfundur og eiginlega aðdáunarvert að hún skuli hafa tíma til að skrifa. Hún er í meistaranámi í íslenskum fræðum, kennir forn-íslensku við Cornell-háskóla og er söngkona. Í Kiljunni nýlega sagðist hún sjálf hafa kynnt sér starfsemi kakóhópa svo hún þekkir bæði bragðið og óbragðið sem Hjalti finnur í bókinni. En ef þið eruð í leit að fyrirtaksafþreyingu og langar að brosa út í annað og stundum bæði er þetta fín bók.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband