Frægir af endemum

jon-tyson-GcO4XGT5zSI-unsplash„Í framtíðinni verða allir heimsfrægir í fimmtán mínútur,“ sagði Andy Warhol í viðtali árið 1968. Á meðal okkar eru og verða einstaklingar sem eiga erfitt með að bíða eftir að korterið þeirra renni upp og gera nánast hvað sem er til að tryggja að það lengist nokkuð í annan endann. Ísland er lítið land og þeir sem vilja slá um sig með gífuryrðum eða ganga þvert gegn viðteknum viðhorfum á hverjum tíma geta auðveldlega tryggt sér ekki bara fimmtán mínútna fjölmiðlaathygli heldur hvern hálftímann af öðrum. Gallinn á slíkri frægð er hins vegar sá að hvenær sem er getur hún komið í bakið á manni og bitið illa. 

Yfirlýsingar litaðar öfgum og óvenjulegum skoðunum eru oftar en ekki settar fram í þeim tilgangi að ögra og vekja viðbrögð en endurspegla ekki endilega raunverulegar tilfinningar þess sem setur þær fram. Fólk slengir einnig iðulega fram einhverjum staðhæfingum í þeim tilgangi einum að ganga fram af öðrum en hugsa ekki út í að þeir sem á hlýða eiga erfitt með greina hvort hér á ferð bláköld alvara eða yfirdrifin gamanmál.

Í heilræðakafla Hávamála er mönnum ráðlagt að gæta orða sinna. Leggja lítið til málanna ef vitneskja þeirra er takmörkuð um efnið en tjá sig ef þekking þeirra er næg. Þetta eru góð ráð. Þótt mannsævin sé ekki löng breytast aðstæður stundum skjótt og að sama skapi lífsviðhorf, draumar og langanir. Orð og gerðir í hita augnabliksins geta þá orðið að myllusteini um háls manna, steini sem ekki er létt að losna við.

Nektarmyndir, bjórdrykkja og grófyrði

Ungfrú Ameríka mátti til að mynda afsala sér titlinum þegar í ljós kom að hún hafði setið fyrir á nektarmyndum og Herra Ísland var sviptur sínum titli fyrir að hafa í frammi í sjónvarpsþætti hegðun sem ekki þótti til fyrirmyndar. Og þótt himinn og haf séu milli orða og athafna fer ekki hjá því að flestir trúi fremur illu upp á þann sem grófyrtur er og yfirlýsingaglaður en hinn sem fer sér hægar. Allmargir Íslendingar hafa haslað sér völl í fjölmiðlum út á það eitt að skella fram yfirlýsingum. Sumir komast aldrei undan þeirri ímynd jafnvel þótt þeir skipti fullkomlega um gír.

Hugmyndafræðin að baki hegðun af þessu tagi er amerísk að uppruna og er best lýst í slagorði smiðanna sem byggðu hana eða að ekkert umtal sé illt  umtal og öll athygli af hinu góða sama að hverju hún beinist. Vandséð hvort Lindsey Lohan, Britney Spears eða Hugh Grant taki undir þá staðhæfingu eftir að hafa reynt hvoru tveggja að vera hampað í fjölmiðlum og vera skotspónar hæðni, vorkunnar og hneykslunar þeirra sömu blaðamanna.

download-1En hvað með þá sem ekki virðast hafa sér neitt annað til ágætis en að vera stórir í kjaftinum og kunna að koma því á framfæri? Það er næsta víst að slæm hegðun fær athygli, þeir félagar í Jackass lifðu á henni en nutu sennilega lítillar virðingar þótt frægir væru. Hið sama má segja um Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Hann sló gjarnan um sig með yfirdrifnum yfirlýsingum, hrósaði sjálfum sér í hástert en fordæmdi gjarnan þá sem ekki voru á sömu skoðun og hann. Þótt Trump hafi haft fylgi meðal eigin þjóðar naut hann lítillar virðingar þar fyrir utan. Hann var oft borinn saman vð fyrirrennara sinn, Obama, en fágun hans, kurteisi og yfirvegun var viðbrugðið. Það var sama hversu hart var gengið að Obama, hversu óprúttnum meðölum andstæðingar hans beittu, (þar á meðal Trump) hann svaraði ævinlega virðulega en ákveðið. Orð hans höfðu því meira vægi fyrir vikið og það má alveg velta fyrir sér í hvorn muni oftar og lengur vera vitnað og hvor komi betur út þegar mannkynssaga 21 aldar verður rituð.

Barack ObamaÞað er auðvelt að baða sig í kastljósi fjölmiðlanna um stund ef mönnum er sama hvort þeir klæðist þar dökkum litum eða ljósum. Er athyglin þess virði? Hver og einn einstaklingur verður sennilega að svara því fyrir sig en dæmin sanna að vopnin geta auðveldlega snúist í höndum manna. Ef við víkjum aftur að fornri lífspeki Hávamála þá erum við þar minnt á að orðstír lifir lengur en meðalmaður. Guðinn hái sem þar mælir talar reyndar eingöngu um góðan orðstír en nefnir ekki þann alræmda. Hugsanlega hafa menn ekki verið búnir að uppgötva þá speki bandarísku auglýsingamannanna og þess vegna ekki talið eftirsóknarvert að vera umtalaður fyrir lítið annað en heimsku og oflæti. En þótt ekki sé beinlínis rætt um hið lakara orðspor í þessu gamla kvæði er líklegt að slíkt umtal eigi sér ekki styttri líftíma. Einhvern veginn hefur lesandinn á tilfinningunni við lestur Hávamála að það taki ævina alla að vinna sér inn þann orðstír sem lifa mun manninn. Þeir sem ekki hafa þolinmæði til að byggja hægt og hægt geta farið hina leiðina en þá er líka gott að hafa í huga að það að vera frægur af endemum á sér skuggahlið og enginn veit sína ævi fyrr en öll er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband