Hin óborganlega Precious Ramotswe

download-1Hugmyndin að Precious Ramotswe og kvenspæjarastofu hennar í Botswana varð til þegar Alexander McCall Smith horfði á Botswana-konu með hefðbundið vaxtarlag elta hænu. Konan ætlaði hænuna í kvöldmatinn og sennilega hefur hún enga hugmynd um að tilburðir hennar hafi kveikt neistann að einni vinsælustu bókaseríu í heiminum í dag.

Alexander McCall Smith eða Sandy eins og hann er gjarnan kallaður fæddist í Ródesíu sem nú heitir Zimbabwe árið 1948. Hann ólst upp í Bulawayo og lauk þaðan framhaldsskólaprófi. Eftir það hélt hann til Skotlands og lauk lagaprófi frá Edinborgarháskóla en Afríka togaði í hann og því sneri hann aftur og kenndi við lagadeild háskólans í Botswana.

Allt frá því hann hóf laganám vöktu helst áhuga hjá honum þau lög og reglugerðir sem sneru að læknisfræði og siðfræðilegum álitamálum í lífræði og lífrænni efnafræði. Fljótlega varð hann einn fremsti sérfræðingur Breta á því sviði og hann hefur skrifað nokkrar fræðibækur um þetta efni. Hann var gerður að formanni the British Medical Journal Ethics Committee og sat í þeirri nefnd allt til ársins 2002. Eftir að hann sneri aftur til Skotlands kenndi við laga- og læknisfræðideildir háskólans í Edinborg eða þar til hann hætti til að helga sig alfarið ritstörfum.

Afkastamikill og fjölhæfur

Þessi einstaki rithöfundur er mjög fjölhæfur því hann hefur skrifaði fræðibækur, barnabækur, ferðabækur og skáldsögur. Hann er einnig mjög afkastamikill. Auk bókanna um Precious Ramotswe hefur hann þegar gefið út bókaröð um Isabel Dalhousie sem er kvenspæjari ekki ólíkur Ms. Marple, Agöthu Christie. Fyrsta bókin í þeim flokki Sunnudagsklúbbur heimspekinganna hefur komið út í íslenskri þýðingu. Höfundurinn segir þessar tvær bókaseríur allsendis óskyldar þótt ákveðið andrúmsloft notalegheita einkenni báðar. Það má vissulega til sanns vegar færa og bæði Isabel og Precious eiga stóran aðdáendahóp um allan heim.

cb9e30cc517a18ab96ca4789dee3dbb5adfaf3d0Hann var einnig dálkahöfundur fyrir The Scotsman og hafa þrjú greinasöfn undir samheitinu 44 Scotland Street verið gefin út með þeim skrifum hans en seinni tvær bækurnar bera undirtitlana Espresso Tales og Love Over Scotland. Kvikmyndafyrirtækið Moving Title Films réttinn til að gera kvikmynd byggða á þessari bókaseríu en enn hefur myndin ekki litið dagsins ljós en BBC gerði skemmtilegar sjónvarpsþáttaseríur eftir bókunum um Precious Ramotswe.

Sennilega þætti öllum nóg að skrifa jafnmikið og Alexander McCall Smith gerir en hann lætur sér það ekki nægja. Meðfram ritstörfunum leikur hann á básúnu í The Really Terrible Orchestra, hljómsveit sem nýtur sívaxandi vinsælda. Alexander hefru verið veitt CBE orðan fyrir ritstörf sín en hann er enn við góða heilsu og hvergi nærri hættur. Þó nokkrar bækur um kvenspæjarann í Botswana hafa komið út á íslensku og einnig um Isabel Dalhousie. Þetta er áhugaverður rithöfundur og sjálfsagt að hafa augun opin og grípa bók eftir hann á bókasafninu eða næst þegar leitað er að einhverju að lesa í bókbúð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband