11.3.2023 | 21:25
Síkvik sál
Margir vinir mínir höfðu talað um þessa bók við mig og bent mér á hana en einhvern veginn hafði alltaf farist fyrir að ná í hana og lesa. Þegar Gullveig, dóttir Sigurveigar, minnti mig á hana hitti svo undarlega á að hún poppaði upp til sölu í auglýsingu frá Bókinni á facebook síðunni minni. Ég leit á það sem tákn og keypti bókina. Þegar sálin fer á kreik eru minningar Sigurveigar Guðmundsdóttur, kennara, trúkonu, heimspekings, kvenréttindakonu og bókmenntaunnanda í skrásetningu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Í einu orði sagt er þessi bók ævintýri. Hugarheimur Sigurveigar er svo áhugaverður og hún talar af svo aðdáunarverðri hreinskiptni um alla hluti. Hún fegrar ekki nokkra manneskju, talar engan heldur niður en lýsir öllum á raunsannan hátt. Þetta er eins og ferskur andblær því nú á dögum hættir okkur ansi mikið til að ýmist að upphefja fólk eða fordæma það. Sigurveig gerir hvorugt. Í hennar frásögnum spretta einfaldlega fram manneskjur, breyskar en með sínar góðu hliðar. Lífshlaup þessarar konu eru líka einstakt. Fimmtán ára gömul fær hún berkla og þarf að leggjast inn á Vífilstaði. Seinna taka þeir sig upp aftur, í það sinn í bakinu, og í tvö ár liggur hún í gifsi á Kópavogshælinu og getur sig lítið sem ekkert hreyft. Þá fer sálin á kreik, að hennar sögn, hjá rúmliggjandi unglingstúlku með einn handspegil sem gerir henni kleift að horfa út um lítinn glugga á Kópavoginn og fjöruna. Það, herbergisfélaginn, sárafáir gestir og bækur eru eina afþreyingin þennan tíma. Að lokum gengst Sigurveig undir uppskurð og liggur lengi á Landakoti að jafna sig. Þar kynnist hún kaþólskri trú og skírist til hennar. Hún eignast sjö börn þótt henni hafi verið sagt að ekki væri æskilegt heilsu hennar vegna að ganga með barn og allt blessast þetta þrátt fyrir berklarnir hafi sannarlega veikt líkama hennar. Hún verður sömuleiðis fyrir þeirri sorg að missa tvö barnabörn og son sinn, ungan mann, sem fellur frá konu og börnum og einnig dóttur sína þá enn á besta aldri. Sigurveig varð háöldruð og bjó síðustu ár sín á Hrafnistu í Hafnarfirði. Hún var stálminnug og fylgdist ævinlega vel með. Mér finnst hollt að lesa bækur eins og þessa. Þær segja okkur að hún er mörg mannsævin og hugarfarið skiptir öllu hvað varðar úrvinnslu erfiðleika. Svo verð ég að nefna hversu einstaklega fallegt mál er á þessari bók. Hún er svo vel skrifuð og Sigurveig hefur gríðarlegan orðaforða. Uppáhaldsskáld hennar var Einar Benediktsson. Í kvæði sem hann orti um móður sína, Katrínu Einarsdóttur, kemst hann þannig að orði: Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu. Mér finnst þetta eiga eins vel við um Sigurveigu og Katrínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.