14.3.2023 | 11:20
,,Þetta liggur svo djúpt
Þetta liggur svo djúpt, segir Klara, besta vinkona Bergljótar og orðin eiga svo vel við. Í raun eru þau kjarninn í því sem bókin, Arfur og umhverfi, eftir Vigdisi Hjorth fjallar um. Fjögur systkini rífast um arf. Ekki óalgengt en ef einhver heldur að það snúist um peninga er það misskilningur. Undir niðri kraumar alltaf eitthvað annað, í þessu tilfelli ofbeldi og hunsun. Eldri systkinin tvö upplifðu annað en yngri systurnar tvær. Foreldrar þeirra voru annað fólk, í annarri stöðu, að berjast við annars konar tilfinningar þegar Bergljót og Bárður lifðu sín viðkvæmustu ár. Þær yngri geta ekki skilið það. Önnur ákveður að hafna alfarið eldri systkinum sínum en hin reynir að taka sér stöðu á miðlínunni, taka ekki afstöðu, skilja bæði sjónarmið. Er það hægt? Að mati Bergljótar felst í raun í því afstaða með foreldrunum á móti henni.
Líklega munu flestir þekkja sig eða eitthvert mynstur úr eigin fjölskyldu við lestur þessarar bókar. Einhver segir óþægilegan sannleika og aðrir fjölskyldumeðlimir vilja ekki heyra hann. Finnst að sá særði eigi að þegja, ekki draga þá inn í átökin, neyða þá til að taka afstöðu og hlusta á eitthvað sem þeir vilja ekki heyra. Og þarna erum við komin að akkúrat þeirri umræðu sem hefur átt sér stað undanfarin ár eða frá því að Metoo-byltingin fór af stað. Verðum við að hlusta á þessar konur? Taka afstöðu í málum þeirra og jafnvel hunsa eða hafna uppáhaldslistamanninum okkar? Hvað ef litlar eða engar sannanir eru til staðar megum við þá, eigum við þá að dæma brotamanninn? Þegar þetta er innan fjölskyldu þá er spurningin líka hversu lengi umræðan á að standa og hvenær á að hefja hana og hvar? Bergljót vill að á hana sé hlustað, Bárður vill að á hann sé hlustað og bæði að mark sé tekið á orðum þeirra. Þau upplifa mikla höfnun þegar hinir í fjölskyldunni víkja sér undan, hlaupa í það skjól að þarna sé hvorki staður né stund, að þetta skipti ekki máli, að ekki sé verið að ræða þetta núna og það skipti ekki máli í þessu samhengi.
En Bergljót er í tuttugu og þrjú ár búin að reyna að slíta sig frá fjölskyldunni. Standa utan hennar og lifa með sínum sársauka og það gengur ágætlega þangað til móðir hennar eða Astrid hringja enn og aftur með tilboð um samband, löngun til að laga fjölskylduna en skilyrðin eru þau að Bergljót ruggi ekki bátnum, ræði ekki það sem kom fyrir hana og gangi inn á æskuheimilið á Bråteveien eins og ekkert hafi ískorist. Hún getur það ekki. Í hvert sinn sem þetta gerist rennur hún í gamla farið, kemst í uppnám, hættir að geta sofið og finnur sársaukann hellast yfir sig á ný.
Arfur og umhverfi er erfið lesning en ákaflega vel unnin bók. Þráin eftir ást og viðurkenningu foreldra sinna hverfur aldrei og sársauki úr æsku hann liggur djúpt, svo djúpt að aldrei er hægt að rífa ræturnar fullkomlega burtu sama hversu lengi og ákaft er reynt. Sagan er að einhverju leyti sjálfsævisöguleg og vakti mikla athygli í Noregi þegar hún kom út, enda fjölskylda Vigdisar þekkt þar í landi. Ein systra hennar, Helga Hjorth mannréttindalögfræðingur, var reið og taldi að röng mynd væri dregin upp af foreldrum þeirra. Hún skrifaði eigin bók, Fri vilje, sem varð líka metsölusölbók. Mér fannst ég finna það við lesturinn að Vigdis nauðaþekkir tilfinningarnar. Textinn var svo næmur og magnaður, togstreitan og sársaukinn svo raunsönn. Hér eru endurtekningar, stuttir kaflar og ákveðinn taktur í tungumálinu notuð til að koma þessu til skila. Bergljót drekkur mikið og textinn endurspeglar það líka. Sömuleiðis fer frásögnin stundum í hringi en þannig er það líka þegar fólk er fast í tilfinningalegum vítahring. Spólar í hjólförunum og finnur enga leið til að losa sig. Allar góðar bækur auka manni skilning á sjálfum sér og þessi opnaði augu mín fyrir ýmsu sem mér finnst gott að hafa áttað mig á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.