Skáldkona norsks hversdagslífs

6037-175Norska skáldkonan Anne B. Ragde er ólík flestum Norðurlandabúum að því leyti að hún þolir ekki sól og sumar. Hún segir að haustin séu sinn árstími, þá fyllist hún orku og taki til við að tína, taka upp, sulta og sjóða niður uppskeruna. Auk þess er hún oftar en ekki á fullu við að kynna og fylgja eftir nýrri bók.

Anne vakti fyrst heimsathygli þegar sagan Berlínaraspirnar kom út. Hún var fyrsta bók í áhrifamikilli fjölskyldusögu en bækurnar urðu á endanum sex. Þetta er fjölskyldusaga og gamla óðalssetrið Neshov verður að eins og persóna í bókinni. Torunn hefur alist upp hjá einstaæðri móður og í fyrstu bókinni Berlínaröspunum kemur hún til Neshov til að fylgja móður sinni til grafar og hitti þá föður sinn í fyrsta sinn frá því hún var lítið barn. Ákveðið fjölskylduleyndarmál hvílir eins og mara yfir eftirlifendum og litla hamingju að finna á þessum gamla bóndabæ. En eftir því sem sögunni vindur fram kviknar meiri von um að að þau nái að tengjast og styðja hvert annnað til betra lífs. Þrátt fyrir einangrun og einmanaleika þeirra hvers um sig er eitthvað við heillandi við þessar bækur og persónurnar sem laðar lesendur stöðugt að til að heyra meira.

Í raun má segja það sama um bækur Anne sem fjalla um hennar eigin fjölskyldusögu, Arsenikturninn og Ég á teppi í þúsund litum. Birte, móðir hennar, dó árið 2012 en Anne segir í viðtali við Dagsavisen að enn heyri hún rödd hennar hljóma í höfði sér og eigi í löngum samtölum við hana. Samband þeirra mæðgna var erfitt og litaðist mjög af því að móðirin bar djúp sár á sálinni vegna eigin uppvaxtar. Anne dáist þó að móður sinni og segir hana hafa verið nægjusemin og útsjónarsemin uppmáluð. Hún tók að sér að hekla, sauma og prjóna fyrir aðra auk vinnu sinnar í plastpokaverksmiðjunni. Iðulega sat hún heilu næturnar og vann til að ná að láta enda mæta saman í heimilisbókhaldinu.

Veisla úr engu  

downloadHún gat einnig gert ótrúlega mikið úr litlu og í Ég á teppi í þúsund litum lýsir Anne því hvernig móður hennar tókst að gera veislumat úr engu aftur og aftur. Nýlega bað forleggjari Anne í Frakklandi hana að taka saman uppskriftir Birte á bók og hún hefur ákveðið að verða við því. Það verður spennandi að vita hvernig norskar fiskibollur og steikt síld falla í smekk Frakka en vonandi kemur sú bók einnig fyrir augu Íslendinga.

Þetta er einnig skemmtilega rökrétt framhald af skáldskap þessa höfundar. Hún er þekkt fyrir að lýsa hversdagslífi norsks alþýðufólks af mikilli næmni og hún hefur einstakt lag á að skrifa þannig að meira að segja það að hella upp á te í eldhúsi Neshov-býlisins verður áhugaverð athöfn.

Anne Birkefeldt Ragde fæddist í Odda í 3. desember árið 1957. Foreldrar hennar skildu og hún var alin upp af einstæðri móður í Þrándheimi í mikilli fátækt. Á sumrin dvaldi hún oft í sveitinni í Hordaland hjá föðurafa sínum og ömmu og þar lærði hún að nýta berin, jurtirnar og önnur landsins gæði. Hún hefur einnig gaman af að búa til lambarúllu og frysta til jólanna og baka enska jólaköku tímanlega. Hún er líka mjög heitfeng og þolir illa sumarhitann. Þess vegna eru haustin hennar árstíð. Anne sótti sér menntun og lauk cand. phil. prófi frá háskólanum í Þrándheimi. Fyrsta bókin hennar kom út árið 1986. Það var barnabókin, Hallo! Her er Jo. Hún hefur mikið skrifað fyrir börn og unglinga en einnig sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur. Bækur hennar hafa verið þýddar á tuttugu og tvö tungumál m.a. suðurkóresku en vinsælust er hún á Norðurlöndunum, Frakklandi og Þýskalandi. Hún á eina systur, einn uppkominn son, tengdadóttur og barnabarn, Sverre, fjögurra ára.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband