8.5.2023 | 09:02
Bók er best vina
Oft talar fólk um að góð bók sé eins vinur, hana sé hægt að heimsækja aftur og aftur og líða alltaf jafnvel að loknum lestri. Það er vissulega margt til í þessu en stundum veldur vinurinn reyndar vonbrigðum og er bragðdaufari í seinna skiptið en hann var í það fyrra. Auðvitað segir það meira um lesandann en bókina, hann hefur breyst og horfir öðrum augum á lífið. En margar snilldarbækur hafa verið skrifaðar um vináttu og hvernig hún breytir lífi fólks.
Líklega kannast flestir við The Fault in Our Stars. Mjög margir lásu bókina og enn fleiri sáu myndina. John Green tókst að skapa eftirminnilega og áhrifaríka sögu af vináttu tveggja unglinga á nöturlegasta stað sem hugsast getur, krabbameinsdeild á barnaspítala. Þetta er ein af þeim bókum sem taka má upp þegar menn þurfa að skæla svolítið en finna líka hlýjuna streyma um hjartað.
Hvað eru Harry Potter-bækurnar annað en óður til vináttu? Svarið er einfalt ekkert annað. J.K. Rowling færir börnum heim sanninn um að með því að læra að elska vini sína af heilum hug og vera tilbúinn að leggja ýmislegt á sig fyrir þá kemur hamingjan. Hún er ekki fólgin í vinsældum og aðdáun margra heldur miklu frekar tryggð og ást fárra. Harry Potter er töfrabarnið, móðurástin bjargaði honum ungum og vináttan þegar hann eldri og þroskaðri þarf að takast á við höfuðóvininn, Voldemort.
Flugdrekahlaupinn eftir Kahled Hosseini segir sögu af vináttu þvert á stéttir samfélagsins en einnig hvernig ill öfl ná að sundra vinum og eyðileggja það sem fagurt er.
Hungurleikaþríleikurinn eftir Suzanne Collins er ekki bara saga af vináttu og ást heldur einnig frásögn af því hvernig miskunnsemi, góðgirni og traust getur veikt stoðir valdastéttarinnar, já, beinlínis umbylt heilu þjóðfélagi. Fyrir svo utan hversu spennandi og skemmtilegar þessar bækur eru.
Annar þríleikur sem vert er að lesa og njóta hafi menn áhuga á að eignast vini fyrir lífstíð er His Dark Materials, Gyllti áttavitinn og Lúmski hnífurinn og Skuggasjónaukinn hafa allar verið þýddar á íslensku. En þetta eru óviðjafnanlegar bækur um pólitískar flækjur, kúgun og hvernig frelsisþráin og sönn vinátta munu alltaf standa í vegi fyrir illu öflunum. Heimur Lýru í Jórdanarháskóla er öruggur og hlýr að því er hún heldur en undir niðri eru ill öfl að verki. Vinur hennar hverfur og hún leggur upp í hættuför til að bjarga honum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.