19.7.2023 | 17:44
Af kláðabókmenntum og annarri ertingu
Nýlega hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem var í viðtali karlmaður og hann viðhafði orðið kláðabókmenntir um tiltekna tegund ævisagna eða viðtalsbóka. Hann útskýrði hugtakið þannig að hárfín lína væri milli hins smekklega og ósmekklega þegar fjallað væri um erfiða hluti í ævi fólks og varlega yrði að stíga til jarðar til að fara ekki yfir hana. Þeir sem rynnu yfir þessa línu væru sem sé höfundar kláðabóka.
Ég taldi mig skilja nokkuð vel hvað þessi karlmaður átti við en hann er einn þriggja sem ég hef heyrt viðhafa þetta orð og líkja því við kláða þegar fólk tjáir tilfinningar sínar og rekur áföll af einlægni og hreinskiptni. Þessir þrír hafa allir verið karlar komnir af léttasta skeiði. Ég stend held ég á umferðareyju milli þeirrar kynslóðar sem taldi óþarfi að klóra hrúðrið af gömlum sárum og hinnar sem telur að meinið verði að viðra til að súrefnið lækni það. Ég var alin upp við að sumt talaði maður ekki um, einkum og sérílagi ef það kastaði rýrð á heimili manns eða fjölskyldu. Annað átti aðeins við bak við luktar dyr og þá hvíslað í eyru einhvers sem maður treysti vel. Öllum sárindum átti maður að kyngja og það bar vott um stolt og reisn að bera höfuðið hátt og láta engan bilbug á sér finna þótt erfið áföll dyndu yfir.
En svo fóru fræðimenn að rannsaka áhrif sálrænna áfalla og í ljós kom að ef þeim var kyngt ollu þau meinsemdum jafnt í huga sem líkama og fólk var hvatt til að tala, vinna úr áföllunum. Og hugsanlega hafa karlarnir sem þola kláðann rétt fyrir sér. Það kann vel að vera ef menn klóra, klæji þá enn meir og endi með að klóra þar til undan blæðir. En það er eitthvað hrokafullt og ógeðfellt við að líkja tilfinningum og sárum annarra við kláða. Eitthvað sem slær mig illa, sérstaklega vegna þess að stílbrögð í frásögnum er alltaf spurning um smekk. Á tólftu og þrettándu öld var úrdráttur vinsæll, eins Íslendingasögur bera með sér, og þar var ekki verið að velta sér upp úr eða útskýra tilfinningar helstu persóna. Menn bitu á jaxlinn og þögðu hvort sem höggnir voru af þeim útlimir eða þeir sviknir í tryggðum.
Nú er öldin önnur. Fólk telur sig hafa rétt á að segja sögu sína umbúðalaust og rekja að á þeim hafi verið brotið. Og já, þá dragast allajafna aðrir inn í og það getur valdið sárindum og vanlíðan. Enn stöndum við nefnilega á mörkum hins gamla og hins nýja viðhorfs. Ég hef starfað nægilega lengi í blaðamennsku til að þekkja að margt af því sem þykir sjálfsagt í dag hefði aldrei liðist þegar ég var að byrja minn feril. Ég man til að mynda vel að þegar ég skilaði einu af mínum fyrstu viðtölum hafði ég lýst umhverfi viðmælanda míns og sagt hversu vel mér þætti falleg stofan og postulínsbollarnir klæða þessa glæsilegu konu. Ritstjórinn strikaði þessar velorðuðu setningar sem ég hafði legið yfir út, leit upp og sagði við mig: Dont be cute! Hann meinti, ekki blanda sjálfri þér og þínum skoðunum í viðtalið og reyna þannig að öðlast velvild lesenda þinna, sem sé vera krúttleg.
Nú er öldin önnur. Blaðamenn lýsa hiklaust skoðunum sínum á viðmælendum og hvaða áhrif þeir hafa á þá, tala um kaffibollana, meðlætið, mjúka sófann og allt hvað er. Útvarpsmenn leyfa okkur að heyra þegar þeir hringja dyrabjöllunni hjá viðmælandanum, murrið í kaffikönnunni þegar hellt er upp á og hlátrasköllin í sjálfum sér ef eitthvað skemmtilegt er sagt. Þegar ég gerði minn fyrsta útvarpsþátt eyddi tæknimaðurinn löngum tíma í að klippa út hláturinn í mér eftir brandara viðmælandans og skammaði mig fyrir að hafa ekki stillt mig um að hlæja þar til til ég var búin að slökkva á bandinu.
Ég veit ekki hvort er réttara að vera tilbúinn að viðra óhreina þvottinn sinn í brakandi þerrinum eða laumast með hann í átt að snúrunni á kvöldin þegar enginn sér til. Hitt veit ég að við getum alltaf sleppt því að lesa, hlusta eða horfa á það sem okkur þykir óþægilegt. Það er rétt hjá yngri kynslóðinni og ég er með annan fótinn þar en hinn meðal karlanna sem fordæma kláðabókmenntirnar, að enginn annar getur borið ábyrgð á misgjörðum manns. Sá sem brýtur gegn öðrum á engan rétt á þögn eða tillitssemi. Bækur á borð við Manneskjusögu, Barnið í garðinum, Myndina af pabba; saga Thelmu, Elspu, Álfadal, Auðnu, Heimtur úr heljargreipum og fleiri gætu örugglega flokkast undir kláðabókmenntir en allar hafa þær varpað ljósi á ýmsar meinsemdir mannlegrar tilveru, opnað augu fólks fyrir margvíslegu óréttlæti og afleiðingum ofbeldis. Þær hafa hjálpað mörgum og skapað þarfa umræðu sem hefur skilað ýmsum áfram veginn. Er þá eitthvað athugavert að veita mönnum þá fró að klóra sér þar sem þá klæjar?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.