Alveg hreint frábær dagur

Dagurinn í dag hefur verið sérstakur lukkudagur og á skilið að vera skráður í annála sem slíkur. Þetta byrjaði klukkan tíu í morgun þegar hringt var frá LaserSjón og mér boðið að taka tíma sem hafði losnað. Sjálf átti ég tíma þar 18. október svo ég sló til og fór. Eftir að augun á mér höfðu verið skoðuð og mynduð í bak og fyrir var mér tilkynnt að ég væri mjög góður kandídat í sjónlagsaðgerð á augum einkum og sérílagi vegna þess að ég er með svo mikla sjónskekkju að Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaðum við aðgerðina og ég þarf að borga skít á priki. Sparnaðurinn nemur meira að segja Mallorca-ferð fyrir tvo eins og læknirinn minn sagði. „Nú ætlar þú að koma með mér?“ spurði ég. Aumingja blessuðum manninum brá og hann þorði ekkert að segja. Þetta var myndarmaður svo mér hefði ekkert þótt að því að hann þæði boðið jafnvel þó það væri bara að nafninu til. En sumir menn kunna enga mannasiði eða þekkja ekki sinn vitjunartíma. Þetta var sem sagt fyrsta happið. Á sunnudag hlustaði ég á upplestur í Iðnó eins og komið hefur fram hér áður og keypti mér eftir að honum lauk nýjustu bók J.M. Coetzee A Diary of a Bad Year. Mér fannst hins vegar svo frekt og ókurteist að vinda mér að manninum og biðja hann að árita bókina að ég fór bara heim. Í gær las ég það svo á bloggsíðu hér að sumir höfðu ekki verið svo hógværir og hann hafði áritað bækur þeirra. Ég ákvað því að fara á fyrirlesturinn hans í dag og freista gæfunnar að honum loknum. Fullt var út úr dyrum og ég varð að standa frammi á gangi. Þegar fyrirlesturinn var byrjaður kom dökkklæddur maður hlaupandi upp stigann og stillti sér upp við hliðina á mér. Ég leit til hliðar og sá að þetta var hið bráðfallega ítalska ljóðskáld sem einnig er minnst á í færslunni hér á undan. Ég fékk svo að njóta þeirrar ánægju að standa við hliðina á honum allan fyrirlesturinn og þegar honum lauk að þakka honum fyrir upplesturinn sem ég sagði honum að ég hefði haft mikla gleði af. Coetzee var næstur og maðurinn sá tók mér með mestu hlýju og sagði það sjálfsagt að árita bókina. Ég á því bók áritaða af Nóbelsverðlaunahafa. Í kvöld kenndi ég svo fyrri tímann minn í Leiðsöguskólanum á þessu ári og gekk bara nokkuð vel þrátt fyrir taugatitring og spennu í maganum. Já, þvílíkur happadagur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Frábært!!! Skemmtilegur happadagur!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.9.2007 kl. 23:15

2 Smámynd: Kjartan Pálmarsson

Sjón er sögu ríkari  Til hamingju með þinn happadag

Kjartan Pálmarsson, 12.9.2007 kl. 23:25

3 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Frábær dagur! Er reyndar "doldið" forvitin að vita hvort þeir verði allir verið jafn myndarlegir eftir aðgerðina á augunum á þér

Valgerður Halldórsdóttir, 13.9.2007 kl. 00:03

4 Smámynd: Svava S. Steinars

Frábært !  En þú áttir auðvitað að rota sæta ítalska ljóðskáldið og færa hann einhleypri systur þinni.  Klikkaðir aðeins þarna !

Svava S. Steinars, 13.9.2007 kl. 00:53

5 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Til lukku með þetta. Vonandi tekst þín aðgerð jafn vel og mín því mér finnst einmitt mesti munurinn að vera laus við sjónskekkjuna.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 13.9.2007 kl. 11:00

6 Smámynd: Heiða  Þórðar

Frábært og hamingjuóskir frá mér til þín með lukkudaginn þinn Steingerður Dreymdi þig nokkuð skessa.blog.is (Heiðu....)

Heiða Þórðar, 13.9.2007 kl. 15:11

7 Smámynd: Heiða  Þórðar

....og smá viðbót; Þú ert í draumastarfinu mínu

Heiða Þórðar, 13.9.2007 kl. 17:42

8 identicon

Ég vona sannarlega Heiða mín að þú fáir draumastarfið þitt og það fyrr en síðar.

Steingerður Steinarsdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 20:25

9 identicon

Það er svo gaman að þú hafir fengið svona góðan dag, þú átt það svo sannarlega skilið miðað við hvað er búið að vera mikið að gera hjá þér þú hefur ekki haft neinn tíma fyrir sjálfan þig.... kv. Áhyggjufulla dóttirin ;)

Eva Halldóra (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband