16.10.2007 | 17:07
Dularfulli hnappurinn
Í morgun fór ég í fínar buxur sem væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að á leið út fann ég skyndilega að eitthvað hart stakkst í lærið á mér. Ég fór að þreifa niður eftir buxunum mínum og rakst á eitthvað hart. Ég tók til við að þreifa þetta með fingurgómunum og fann fljótt að þetta var einhvers konar hnappur. Ég var sein fyrir þannig að ég fór upp í vinnu og þegar þangað var komið lyfti ég upp buxnaskálminni og skoðaði aðskotahlutinn dularfulla. Þetta reyndist ermahnappur úr silfri með svörtum steini. Hann var fastur við sauminn á buxunum mínum. Þær voru nýkomnar úr hreinsun þannig að ég hringdi í hreinsunina og spurði konuna þar hvort einhver viðskiptavina hennar hefði saknað ermahnapps. Hún kvað nei við og varð eiginlega hálffúl og fullyrti að hnappurinn hefði ekki geta komist í buxurnar hjá þeim. Ég sé hins vegar ekki alveg fyrir mér að ermahnappur ókunnugs karlmanns skríði af skyrtunni hans og upp lærið á mér svona óforvandis úti á götu og ég sagði henni það. Hún féllst með semingi á að taka niður símanúmerið mitt ef einhver ermahnappalaus hefði samband. En í alvöru kæru bloggvinir er það ekki fullmikil kvensemi að senda ermahnappana sína í könnunarleiðrangra upp fótleggi kvenna? Kannski þetta hafi verið einhver daðrari sem kann tilberagaldur. (Fyrir þá sem ekki muna var tilberi púki í sauðarlegg sem konur létu sjúga sig fasta við lærið á sér innanvert og sendu síðan í ránsleiðangra á næstu bæi. Þeir drukku gjarnan mjólk sem þeir svo ældu upp úr sér fyrir húsmæður sínar).
Athugasemdir
Mér sýnist hann kunna til verka, þessi tilberadaðrari. Mættu fleiri herrar kunna að tala svona lipurt undir rós ...
Berglind Steinsdóttir, 16.10.2007 kl. 19:34
Er þetta ekki rannsóknarefni fyrir Guðmund? þ.e. hver reynir að komast í buxnaskálmarnar þínar.
Aðalheiður Magnúsdóttir, 17.10.2007 kl. 08:21
Þetta er afar dularfullt Steinka mín. Þetta er rannsóknarefni. Ef hnappurinn festist við buxurnar í hreinsuninni, hver gleymdi að taka hann af. Hvaðan komst hann í buxurnar í hreinsuninni, fór hann með í vélina með öllu taujinu? Er þetta fjarðstýrð örmyndavél að hætti CIA? Kalla þarf til Sérlák Hólms í þetta verkefni. Þetta er efni í nýja bók!
Sigurlaug B. Gröndal, 17.10.2007 kl. 10:10
Góð saga - það verður spennandi að fylgjast með framhaldi hennar. Sé fyrir mér efni í bíómynd, kannski nýja útgáfa af Öskubusku
Valgerður Halldórsdóttir, 17.10.2007 kl. 21:26
hehe kannski
Einar Bragi Bragason., 18.10.2007 kl. 00:20
já, tilberagaldur, alltaf gaman að læra eitthvað nýtt, en ég held að þetta sé ekki tilberadaður, bara eitthvað minnisleysi hjá þér haha..takk fyrir að gerast bloggvinur minn, bara svo þú vitir einhver deili á mér, þá er ég systir Ölmu á Húsavík.
Bestu kveðjur
Alva (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 21:16
Ermahnappur ! ... - betra en ef þetta hefði verið giftingarhringur... erfitt að útskýra það?
Linda Lea Bogadóttir, 19.10.2007 kl. 11:31
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 19.10.2007 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.