19.10.2007 | 18:48
Sé gegnum holt og hæðir
Jæja, ég fór í laseraðgerð á augunum í gær hjá LaserSjón og sé nú gegnum holt og hæðir. Á einum sólarhring hefur sjónin batnað ótrúlega. Í stað þess að nota gleraugu +3,5 nota ég +1 til að hvíla augun. Vinstra augað sem ég sá mjög óskýrt með er nú næstum jafngott og það hægra og augun munu enn batna. Mér var sagt að fara varlega í tvo sólarhringa því ákveðin sýkingarhætta er fyrir hendi. Ég á því að ganga með sólgleraugu til að verja augun og það gerði ég samviskusamlega í dag. Ég fór með Helen systur í Bónus og sennilega hefur fólk haldið að ég væri með stórmennskubrjálæði þar sem ég gekk um með sólgleraugu innandyra eins og Hollywood-stjarna sem ekki vill þekkjast. Að auki var rigning og grámygla fyrir utan þannig að ekki varð ég gáfulegri þegar ég kom út. Mér finnst það töfrum líkast að hægt sé að gera svona hluti. Ég fann nánast ekkert fyrir aðgerðinni sjálfri og í gærkvöldi fann ég svolítinn sviða í augunum í þrjá klukkutíma og þar með var það búið. Núna er eins ekkert hafi gerst. Þetta er frábært.
Athugasemdir
Til lukku með þetta mundu svo bara að vera dugleg að ausa gervitárum í augun og nota sýkladropana líka
Aðalheiður Magnúsdóttir, 19.10.2007 kl. 18:52
Til hamingju með bætta sjón! Skarpskyggni hefur alltaf talist til mannkosta á Íslandi....(OMG, hvað maður getur nú verið huggulega hnyttinn á föstudagskveldi...)
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 19.10.2007 kl. 22:52
Ég sagði líka skilið við gleraugu og linsur fyrir þremur árum og er óskaplega glöð með það. Mér brá mest við brunalyktina í aðgerðinni. Ég þjáist ekki af augnþurrki og alls ekki af birtufælni en Marín (mig minnir að hún hafi verið með þér í ritlistinni hjá Nirði) fór í aðgerð í júní og notar enn sólgleraugu frekar mikið. Svona erum við misjöfn. Til lukku með nýja sýn.
Berglind Steinsdóttir, 19.10.2007 kl. 23:53
Innilega til hamingju með þetta Steinka mín. Þetta er víst bara nýtt líf er mér sagt af þeim sem hafa farið í slíka aðgerð. Að vera laus við þung gleraugu og háð þeim daginn út og daginn inn getur verið þreytandi. Gangi þér vel með framhaldið.
Sigurlaug B. Gröndal, 21.10.2007 kl. 17:54
Til hamingju með þetta. Dóttir mín var einnig að koma úr svona aðgerð og sama dag fóru gleraugun ofan í skúffu og verða líklega þar það sem eftir er.
Þetta er ótrúleg tækni.
Kolbrún Baldursdóttir, 21.10.2007 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.