28.10.2007 | 22:30
Í fjögurra stjörnu lúxus
Við í vinnunni minni skruppum austur á Hótel Rangá um helgina og gistum eina nótt. Þetta var hreint út sagt einstaklega notalegt kvöld í góðum félagsskap. Vinnufélagar mínir eru frábært fólk og makar þeirra ekki síðri. Það eru hjón sem eiga fyrirtækið og þau eru bæði einstaklega indæl og skemmtileg. Umbrotsmaðurinn á kærustu sem heitir Sól og sú er snilldarsöngkona, falleg eins og postulínsdúkka og mikill húmoristi. Það er ekki hægt að biðja um meira. Ragna sölufulltrúi er gift bráðhuggulegum manni sem er líka mjög indæll. Það var því mikið hlegið og margt sér til gamans gert. Hótel Rangá er æðislegt 4 stjörnu hótel. Ég var ein í herbergi með stóru hornbaði með nuddtúðum, risaflatskjá og rúmi sem ég gat legið endilöng í á alla vegu án þess að standa út úr því. Og það þarf þónokkra lengd til að það sé mögulegt. Á náttborðinu voru litlir súkkulaðimolar og baðsloppar inni í skáp. Ég fór í bað, setti baðolíu og baðsalt út í úr birgðum í lítilli körfu á baðbrúninni. Ég gerði nuddtúðurnar virkar og lá svo og naut hitans og vantshreyfinganna með kertaljós á barminum. Fyrir utan herbergin er reyndar heitur pottur en ég nennti ekki að fara í hann. Það er hægt að ganga beint úr herberginu út á pall og í gær var tunglsljós og stjörnubjart og meira að segja svolítil norðurljós. Útsýnið var því ekki ónotalegt, Hekla í allri sinni dýrð og fullt tungl uppi yfir snæviþakinni jörð. Maturinn var gourmet-ævintýri, fyrst var okkur borin villisveppasúpa með kryddaðri brauðstöng, svo kom lax sem var eins og hálfreyktur og alveg ofboðslega gómsætur. Með honum var einhvers konar smjör og frískandi límónukurl. Næst var grafinn lundi, gæsalifrarkæfa og kryddað hreindýr. Kjötið var hrátt en hanterað þannig að það var ofboðslega gott. Þá kom aðalrétturinn sem var gæsabringubiti og hreindýravöðvi með kartöflumús. Þetta var slíkt og þvílíkt sælgæti að mér lá við yfirliði. Eftirrétturinn var einhvers konar sítrónubúðingur sem ég var ekki hrifin af en skítt með það. Eftir matinn fengum við okkur kaffi uppi á barnum og síðan var mikið fjör og mikið gaman frameftir öllu. Ég fór í rúmið 1.20 og hafði þá vakað miklu lengur en ég ætlaði mér og skemmt mér konunglega. Þau hin fóru í pottinn og voru þar til fimm. Þjónar komu með drykki út til þeirra og kertaljós sem sett voru á pottbarminn. Ég vaknaði svo klukkan átta í morgun og byrjaði auðvitað á að fara í bað. Morgunmaturinn var æðislegur líka. Alls konar brauð og álegg, soðin egg, morgunkorn, jógúrt, skyr og vöfflur. Ég bakaði mér þrjár vöfflur og borðaði með hlynsírópi og ferskum ávöxtum. Þetta var ævintýralega gott. Svona eiga vinnuferðir að vera.
Athugasemdir
Alveg hefur þetta verið einstakt. Matarlýsingarnar er uppá nokkra slefumetra. Ég fór með vinnunni minni þarna austur í hitteðfyrra og við vorum hæstánægð og fengum fyrirmyndarþjónustu í alla staði. Maturinn var líka afskaplega góður, en ekki alveg svona fjölbreyttur og nýstárlegum eins og þú lýsir. Það er einstaklega nærandi að fara svona út úr bænum í góðum félagsskap. Til hamingju með að vera í svona góðum vinnuhóp !
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 28.10.2007 kl. 22:52
Vinnustaðurinn þinn ætti að vera öðrum til eftirbreytni. Ánægjulegt að lesa svo skemmtilegan pistil fyrir svefnin. Eigðu góða viku kæra Steingerður.
Heiða Þórðar, 28.10.2007 kl. 23:20
Úlala, þetta væri gaman að prófa. Greinilega ekki sparað í neinu við það að láta fólki líða vel. Svona á þetta að vera og svona eru líka mörg falin leyndarmál rétt fyrir utan höfuðborgina. Kemurðu ekki endurnærð til byggða?
Sigurlaug B. Gröndal, 29.10.2007 kl. 14:54
Vá, ég ætla að fara einhvern daginn á þennan stað! Argggg, hvað baðið er girnilegt, já, og maturinnnnnnn! Nammmmm! Ég fíla sítrónubúðinga á meðan það eru ekki hnetur í þeim. KNús og sakn!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 29.10.2007 kl. 19:54
vantar ekki starfskraft þarna haha
alva (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 10:17
Þetta hljómar vel .....maður verður að prufa að fara þangað.........
Einar Bragi Bragason., 30.10.2007 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.