3.11.2007 | 19:00
Vaðandi í villu og svíma
Við systur, Svava og ég, fórum með Freyju í gönguferð uppi í Heiðmörk í dag. Við gengum gleiðgosalegar inn í skóginn og vorum ekki lítið sperrtar og ánægðar með okkur í góða veðrinu. Gleðin fór þó eitthvað heldur að súrna þegar við vöknuðum upp við vondan draum og áttuðum okkur á því að við höfðum ekki hugmynd um hvar bíllinn var. Við vorum búnar að ganga heillangan hring og komnar á veg aftur en bíllinn var hvergi nálægur. Við vissum að við höfðum lagt við Furulund og nú hófst leit að honum á korti. Jú, þarna var hann og við héldum af stað. Hvort við vorum að fara í rétta átt eður ei var hins vegar fullkomlega óljóst. Eftir langt labb og klór í höfðinu yfir þremur kortum römbuðum við á bílinn meira fyrir heppni en lagni. Ég vildi óska að mér hefði gengið betur í ferðamennskutímunum í Leiðsöguskólanum en ég skildi hvorki upp né niður í kortunum sem við vorum að reyna að lesa á þar.
Athugasemdir
get ekki annað en hlegið að þessu... ! Ótrúlegt - Þið hafið væntanlega fengið aðeins lengri göngutúr fyrir vikið. En er ekki Heiðmörkin æðisleg. Var að hugsa um göngu þar á morgun - ef veður leyfir - Eins gott að ég týni ekki bílnum.
Linda Lea Bogadóttir, 3.11.2007 kl. 21:22
Ég er nú eiginlega fegin að heyra að einhver annar en ég getur lent í þessu líka. Ein af mínum fötlunum er áttavilla mikil, þ.e.a.s. ef ég hef ekki Hólmatind fyrir framan mig, eða að ég get ekki horft beint af augum á Esjuna. Ég villtist einu sinni í 3 klukkutíma í Heiðmörk, í þoku og rigningu. Það var fyrir farsímadaga. Og ég var í kompaníi með yngri frænku minni, sem grét af heimþrá og eftirsjá eftir lífinu, sem hún hélt að hún væri um það bil að kveðja. Ó, hvað við vorum sorglegar.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.11.2007 kl. 23:57
Nú er bókaspjallið komið í gang á síðunni minni, um bókina Sendiherrann. Endilega leggðu orð í belg ef þú hefur tíma.
Marta B Helgadóttir, 4.11.2007 kl. 14:19
Heiðmörkin tók vel á móti mér í dag... smá haglél en þetta er algjör draumastaður... ótrúlegt að ég skyldi ekki hafa uppgötvað þetta fyrr..
Mæli með þessu frekar en smáranum eða kringlunni um helgar...
Linda Lea Bogadóttir, 4.11.2007 kl. 23:35
frábærar gellurnar, vona að þið hafið verið klæddar skv. veðri þar sem þið voruð ekki með ÁTTAVITA í óbyggðunum það er kannski svona endurmenntunarnámskeið í Leiðsögumannaskólanum, þetta er frábært, sé ykkur í anda rangla þarna um hahaha
alva (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 01:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.