27.11.2007 | 13:22
Undarlegar draumfarir
Ég hef talað um það áður að draumfarir í minni fjölskyldu eru iðulega með undarlegra móti. Ég held þó að nýlegur draumur minn sé með því furðulegra í því safni. Pabbi minn dó fyrir tveimur árum og mig hefur sjaldan dreymt hann síðan. Um daginn dreymdi mig þó að ég væri stödd í gamla húsinu sem föðurafi minn bjó í sem nú er búið að rífa og þar var í gangi miðisfundur. Pabbi var með mér og afi talaði í gegnum miðilinn og vildi koma mikilvægum skilaboðum á framfæri. Skyndilega barst draugaleg rödd afa úr öllum hornum stofunnar: „Gefðu honum vespuna.“ „Gefðu honum vespuna.“ Mér fannst ég skilja að þarna væri um að ræða litla vespu sem pabba hefði langað að eignast þegar hann var unglingur og ekki fengið. Afi var sem sagt að segja mér að láta draum pabba rætast. Ég sagði að sjálfsögðu: „Já.“ og kyssti pabba á kinnina og þar með var draumurinn búinn. En úr hvaða undirdjúpum undirmeðvitundar minnar þessi vespa og draugagangur kom er mér gersamlega fyrirmunað að ímynda mér í vöku.
Athugasemdir
Getur það verið að það sé einkver ósk sem pabbi þinn átti og það sé undir þér komið að láta hana rætast "gefðu honum ........" þitt að fylla í eyðuna
kveðja gua
gua (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 19:38
Þú átt örugglega eftir að finna út hvað draumurinn táknar. En annað sem ég vildi segja þér að ég spurðist fyrir um hvort Guðrún Jóna hefði farið í ferðalög til útlanda á undanförnum árum og fékk að vita að svo væri. Hún hefur fengið einhverja styrki til þess en þetta kostar mikið þar sem hún þarf fylgdarmanneskju með sér. Ég þekki móður systur hennar og spurði hana um þetta, reyndar í framhaldi af öðru en samt. Ég fékk líka að vita að hún er að læra í HÍ tungumál að ég held því hún vonast til að geta unnið eitthvað við þýðingar.
Aðalheiður Magnúsdóttir, 28.11.2007 kl. 07:47
Takk fyrir þetta Heiða mín. Það var gott og gaman að fá fréttir af henni og þá sérstaklega svona góðar fréttir.
Steingerður Steinarsdóttir, 28.11.2007 kl. 11:12
Ég er ekki góð í því að ráða drauma, en draumur sem endar á koss á kinnina á honum pabba sínum, hlýtur að vera fyrir einhverju góðu
Marta B Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 00:53
Frábært að fregna svona góðar fréttir af þessari stúlku.
Marta B Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 00:54
tek undir með gua (gúu?)
Jóna Á. Gísladóttir, 29.11.2007 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.