30.12.2007 | 18:24
Lítill pönkari
Ég vaknaði klukkan sjö í morgun við skaðræðisvein sem bárust af þakinu hjá mér. Ég staulaðist fram og sá óhrjálegan svarthvítan kött væla við kvistgluggann. Matti kann nefnilega að opna alla glugga í húsinu innanfrá en gengur verr að opna þá að utan þegar hann þarf að komast inn aftur. Hann var því fastur úti í vonda veðrinu og ekki alveg sáttur. Hann hafði greinilega verið nokkra stund á glugganum því þegar ég hleypti honum inn líktist hann mest óvenjulega smáum svörtum og hvítum pönkara. Feldurinn rennandi blautur og stóð beint upp í loftið víða en var klesstur niður á öðrum stöðum. Ef einhver hefur séð broddgölt með broddana úti þá veit hann hvernig ræfilstuskan mín leit út í morgun. Hann var einstaklega móðgaður vegna meðferðarinnar og fékkst ekki til að tala við mig fyrr en hann var búinn að borða og orðinn þurr. Meira að segja tíkin þorði ekki að abbast upp á hann.
Athugasemdir
Vil bara óska þér gleðilegs árs og þakka fyrir frábæra viðkynningu og bloggsamskipti á árinu.
Marta B Helgadóttir, 31.12.2007 kl. 12:44
Bestu nýársóskir með þökk fyrir stutt en góð bloggkynni.
Lára Hanna Einarsdóttir, 31.12.2007 kl. 18:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.