Erfiður biti að kyngja

Ég var ein af þeim sem át kertavax þegar ég var krakki. Bestu vinkonu minni þótti þetta ógeðslegur siður en öllu má venjast þannig að gott þyki og það kom að því að hún reyndi sjálf að smakka á þessu „fæði" sem mér líkaði svo vel. Hún komst að því að þetta var ekki slæmt og það mátti tyggja þetta líkt og tyggigúmmí meðan vaxið hélst mjúkt og fyrr en varði var hún farin að taka mjúkt vax og stinga upp í sig hugsunarlaust og fleygja síðan þegar vaxið var orðið hart. 

Einhverju sinni sat hún í efnafræðitíma í menntaskóla og verið var að gera tilraun með vökva. Tveimur tegundum vökva var blandað saman í tilraunaglasi og það hitað yfir kertaloga þar til efnahvarf varð í glasinu. Kertisstubburinn hennar var lítill og brann fljótlega niður og eftir var mjúk klessa í bakkanum. Hún taldi tilraunina búna svo hún tók klessuna og stakk henni upp í sig. Þá tilkynnti kennarinn að nú hæfist seinni hluti tilraunarinnar og nemendur voru beðnir að bæta einum vökva enn í samsullið og hita. Vesalings stúlkunni varð svo mikið um að hún gleypti vaxbitann sem hún var með uppi í sér og sat sótrauð í framan og aðgerðalaus meðan hinir unnu af kappi við að ljúka verkefninu.

Kennarinn kallaði að lokum til hennar og skipaði henni að fara að vinna. Hún bætti þá vökvanum í glasið en gat auðvitað ekki gert meira og hún þorði ekki, blessunin, fyrir sitt litla líf að biðja um annað kerti. Hann sá fljótlega að hún hafðist lítið að svo hann gekk yfir að borðinu til hennar og sá eins og skot að hana vantaði kerti til hitunarinnar. „Hvar er kertið þitt?" spurði hann hvass.

Þegar þarna var komið sögu leið stúlkuræflinum svo illa að henni datt engin sennileg lygi í hug svo hún stundi eindaldlega: „Ég át það." Bekkurinn sprakk úr hlátri og kennarinn horfði á hana gapandi af undrun. Þegar hann var búinn að jafna sig örlítið sagði hann: „Vina mín, verðir þú aftur svona svöng biddu þá einfaldlega um leyfi til að bregða þér frá og borða." Hann rétti henni síðan þegjandi annað kerti en það sem eftir var af tímanum sat hún rjóð og skjálfhent og hefur sjaldan orðið jafnfegin um ævina og þegar bjallan hringdi út í frímínútur. Ég hló auðvitað miklum hrossahlátri þegar hún sagði mér söguna í frímínutunum en það sem eftir var vetrar voru bekkjarfélagar hennar jafnan brosleitir þegar þeir sáu hana og hún mátti þola ýmsar glósur tengdar kertum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Skammastín Steingerður að koma vinkonunni upp á þennan ósið.  En hefurðu fengið æði í sígarettuösku.  Namminamminamm.  Á endanum var ég færð til læknis (þar sem ég hékk 10 ára gömul yfir öskubökkunum og slafraði í mig öskunni) og sá sagði mig vanta steinefni.  Ég fékk pillur og síðan ekki söguna meir.  En mikið djö.... sem þar var gott.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.1.2008 kl. 21:10

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Buahahahaahhah, þetta er alveg frábært. Ég sé hana vinkonu þína í anda. En þetta með sígarettuöskuna Jenný, þá var það víst þannig að ég át hana af bestu lyst þegar ég var um 3ja ára gömul og át brennisteininn af eldspýtum. Þegar mamma fór í 11 kaffið til vinkonu sinnar hérna í den, átti ég að hafa beðið um "kaffimola og hmók í glasi heima" sem þýddi blöndu af mjólk með lit af kaffi í litlu glerglasi sem var eins og ég átti heima og hmók var að sleikja puttann og setja ofan í öskubakkann og sleikja hana síðan af fingrunum. Snemma beygist krókurinn eða þannig, en ég náði þó að hætta að reykja fyrir 11 árum! (reyndar eftir margar tilraunir).

Sigurlaug B. Gröndal, 9.1.2008 kl. 22:31

3 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Börn sækja í svonalagað ef þau vantar einhver efni held ég. Ég var í löngu fríi í hitabeltislandi með son minn lítinn þegar ég stóð barnið að því að borða salt af bestu lyst upp úr saltstauk á veitingastað. Krakkananum hefði fundist þetta ógeðslegt heima á Íslandi en þurfti einfaldlega salt því vökvatap var meira í öllum hitanum. 

Mér þótti gott sem krakki að sleikja brennistein á eldspýtum, líklega hefur mann vantað einhver steinefni, fór ekki í vaxið eða sígarettuöskuna reyndar... en hef oft um ævina fengið áráttu í appelsínubörk.

Marta B Helgadóttir, 10.1.2008 kl. 01:23

4 Smámynd: Linda Lea Bogadóttir

Hahaha....
Strokleður og Atrix handáburður voru eitt sinn í uppáhaldi hjá mér...

Linda Lea Bogadóttir, 10.1.2008 kl. 21:38

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ojbara, það sem þið látið ofan í ykkur, stelpur! Það eina sem ég játa er brennisteinn af eldspýtum, hann fannst mér alltaf gómsætur - og finnst reyndar ennþá. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.1.2008 kl. 22:08

6 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Nú sprakk ég ein besta vinkona mín í æsku borðaði pappír með bestu list þegar við vorum börn en Linda Lea toppaði þetta með srokleðri og ATRIX Linda ég vil ekki Atrix þegar þú kemur norður fáum okkur bara eitthvað hjá mér. Hvað um það sagan þín var virkilega skemmtileg Steingerður.

Aðalheiður Magnúsdóttir, 10.1.2008 kl. 22:10

7 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Æskuvinkona mín át ánamaðka með áfergju og eyddi ég oft löngum tíma í að finna með henni maðka, sat svo og dáðist af þessari matarlist hennar, fékk jafnvel stundum að mata hana.

Örugglega skortur á steinefnum eða eitthvað slíkt, man ekki til þess að hafa þótt þetta einkennilegt þá, bara eitthvað sem hún vildi endilega borða.

Fordómalaus þessi börn.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 11.1.2008 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband