Nú er frost á Fróni

Í morgun fór ég með Freyju út að Gróttu. Við gengum út í eyju og skoðuðum okkur um í fjörunni og ég fann lítinn fallegan hörpudisk og fjóra gula kuðunga. Það var svo einstaklega gott veður. Snæfellsjökull út við sjóndeildarhring, snjór og sól. Reyndar var skítkalt en ég var vel búin svo það gerði ekkert til. Vetrarfegurð eins og hún gerist best. Við gengum úr fjörunni niður að fiskhjalli sem þarna er. Þar fyrir neðan er manngerður bolli í stein og í honum heitt vatn. Ég veit ekki hvort þetta er hugsað fyrir göngufólk til að hlýja kaldar hendur eða hvað en þetta er skemmtileg viðbót við annað þarna. Um það bil tuttugu endur voru á sundi á litlum polli þarna fyrir neðan og þeim brá illa við þegar friðarspillirinn Freyja birtist með glæfralegt glott á vör og skottið titrandi af veiðihug. Þær syntu gargandi út að ystu brún pollsins en þegar þær áttuðu sig á því að ógnvaldurinn var í bandi róuðust þær. Allt í kring var fólk á gangi með börn, hunda, á gönguskíðum eða í stórum hópum. Loftið var svo hreint og hressandi að við snerum heim endurnærðar og fullar orku.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða  Þórðar

Þú ert aldeilis huguð að fara út í þennan kulda Steingerður!

Heiða Þórðar, 20.1.2008 kl. 18:42

2 Smámynd: Heidi Strand

Það er svo falleg birta þessa dagana og Grótta er algjör paradís. Ég nýt þess að horfa þarna yfir frá Seljavegi þegar ég fer glöð á vinnustofuna. Ég er ekki eins dugleg að fara í göngutúra og þú og enn erum við ekki með hund.

Heidi Strand, 20.1.2008 kl. 21:26

3 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Svona dagar, eins og dagurinn í dag, bæta upp margan gráan hvassviðrisdaginn. Dásemdin ein.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 20.1.2008 kl. 23:26

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hér var skafrenningur og ófært með öllu þegar við paufuðumst okkar hring í gegnum skaflana og ég lét mér helst detta í hug að hægt yrði að miða út hvar ég væri stödd af því að ég var með faaaaarsíma ;) Veit hinsvegar ekki hvort nokkur hefði áttað sig á því að mig vantaði!!

Og þó

Hrönn Sigurðardóttir, 21.1.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband