29.1.2008 | 15:15
Hundum og hröfnum að leik
Í hverfinu mínu býr töluvert af eldri borgurum og það er auðfundið að þeim er vel við hrafninn. Raðhúsin sem ég geng framhjá með tíkina á hverjum morgni eru stundum þakin þessum svörtu tígullegu fuglum og ég hafði ákaflega gaman af þessu þangað til ég uppgötvaði að þarna var hængur á. Fólkið setur nefnilega út mat handa vinunum sínum svörtu og tíkin mín er ekki lengi að finna birgðirnar. Ég hef ekki tölu yfir þá morgna sem ég stend í versta basli við draga hana burtu frá eplum, brauðmolum og ýmsu sem henni finnst sér bera skylda til að smakka líklega af tómri illkvittni því hún leggur sér venjulega ekki slíkt ómeti til munns. Í morgun var hún hins vegar svo heppin að finna stórt bein með þónokkrum kjöttægjum á. Mér fannst það ekki kræsilegt en tíkin bar þetta hróðug í munninum heim. Nokkrum sinnum reyndi ég að ná því af henni en uppskar ekki annað en urr og flótta.
Athugasemdir
Úff, það er eitthvað við krumma sem setur að mér ugg.
Takk annars fyrir gott pepp á síðunni minni, Steingerður.
Hugarfluga, 29.1.2008 kl. 16:47
Æi mér hefur alltaf þótt vænt um "kjánann" hann krumma.
KNús á ykkur Freyju, auðvitað er það þannig í hennar hundaheimi eins og Hebu, ef hún fann það þá Á hún það.
Alma Lilja (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 18:08
Krummi er minn uppáhaldsfugl! Er ekki frá því að Stubbalingur hafi gaman af honum líka.... allavega er hann hættur að láta hann plata sig! En kannski er það bara ákveðinn þroski sem hann hefur náð?
Hrönn Sigurðardóttir, 29.1.2008 kl. 18:50
Hrafninn finnst mér óskaplega skemmtilegur fugl. Hann er eftirherma og meinstríðinn. Þegar ég fer með Tinnu í göngu og til að sprett úr spori upp í gryju þá sveima hrafnarnir og stríða henni út í eitt. Hins vegar hef ég ekki lent í þessu með mat, en annað sem Tinnu minni finnst algjört æði og étur út í eitt það er tyggjó sem hún nagar upp af gangstéttinni og það er vita vonlaust fyrir mig að ná því út úr henni og stoppa þetta af. HUGSAÐUR ÞÉR, TYGGJÓ AF ÖLLU! Henn hefur ekki orðið meint af enn. En svona matarleyfar út um allt er ekki nógu gott.
Sigurlaug B. Gröndal, 29.1.2008 kl. 21:17
Skemmtileg dulúð við þennan fugl.
Marta B Helgadóttir, 31.1.2008 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.