3.4.2008 | 10:44
Er þögnin er gull?
Silence is Golden sungu Herman Hermits eða einhver önnur álíka hljómsveit í útvarpinu þegar ég var barn. Mér datt þessi laglína í hug um daginn þegar ég frétti af ofbeldismáli í fjölskyldu. Þolandinn sagði loks frá og fékk hjálp frá yfirvöldum en þótt allir trúi orðum hans og hafi samúð með honum eru sumir fjölskyldumeðlimir að reyna að halda þessu leyndu. Þeir segja aðeins hálfa söguna þegar þeir hitta fólk eins og mig. Vona sennilega að ég viti ekki sannleikann allan. Þetta fólk sem um ræðir er sjálft alsaklaust. Ég skil þetta ekki. Hvers vegna bregðumst við ávallt þannig við að reyna að þegja í hel einhver hneykslismál í fjölskyldum okkar? Við hvað erum við hrædd? Að okkar alkóhólisti sé eitthvað verri en aðrir? Að ofbeldismaðurinn sem leikur lausum hala í fjölskyldu okkar muni á einhvern hátt gjaldfella okkur í augum vina, samstarfsmanna og almennings? Staðreyndin er sú að í skjóli leyndarinnar þrífast ofbeldismennnirnir og alkóhólisminn heldur áfram að þróast. Treystum öðru fólki til að skilja að við berum ekki ábyrgð á öðrum jafnvel þótt þeir séu í ætt við okkur og berum höfuðið hátt þótt fjölskyldur okkar séu ekki fullkomnar. Það er leiðin til að uppræta ofbeldi.
Athugasemdir
Er ekki þetta sem kallast meðvirkni?

Það var Tremeloes Steingerður.
Heidi Strand, 3.4.2008 kl. 11:02
Kom eimitt hér til að segja þér að það væru Tremloes. Sá þá í Austurbæjar- eða Háskólabíói, þessi krútt.
Annars hef ég mikið bælt í þögguninni í ofbeldisfjölskyldum. Ég tel það afleiðingu af sjúku ástandi, að mestu leyti. Meðvirkni? Já kannski, skömm, örugglega.
Takk fyrir þetta.
Jenný Anna Baldursdóttir, 3.4.2008 kl. 11:30
Eru þetta ekki leifar úreltra viðhorfa um velgengni og stolt hinnar fullkomnu fjölskyldu, sem hvergi er til, né verður.
Eitt sinn grétu ekki karlmenn né prumpuðu konur, og allir voru hamingjusamir í sveitinni.
Gamli feluleikurinn er sumstaðar enn við líði og allir að leika hlutverk ímyndaðrar persónu.
Þetta kemur Steingerður, virðist samt fylgja auknum aldri, þessi kjarkur til að vera þú sjálfur eða sjálf.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.4.2008 kl. 13:31
Hollt umhugsunarefni
og Þorsteinn Valur góður þarna líka
Takk fyrir mig.
Marta B Helgadóttir, 4.4.2008 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.