20.4.2008 | 14:07
Aumingjakakan
Í gærmorgun fór ég út í bakarí og keypti ýmis konar gúmmelaði með morgunverðinum/brunchinum fyrir fjölskylduna. Meðal þess sem ég kom heim með var kaka sem ekki teldist til sérlegra tíðinda nema af því að hún var græn að ofan. Lokahnykkur á verki bakarans var sem sé að setja grænt marsípan ofan á kökuna og baka hana svo. Marsípanið bráðnaði niður og sumsstaðar stóðu uppi litlar brúnar eyjar af kökudeigi. Hvernig í ósköpunum datt þér í hug að kaupa græna tertu? Spurði maðurinn minn. Þetta er einstaklega óaðlaðandi á að líta. Ég vorkenndi henni, svaraði ég. Einmitt af því að hún var svona græn og viðbjóðsleg var ég alveg viss um að enginn myndi kaupa hana. Minn ektamaki horfði á mig litla stund og sagði svo: Það er versta er að ég er sannfærður um að þessi skýring þín á kaupunum er rétt. Aumingjakakan situr nú niður á eldhúsborði og þeir einu sem hafa snert á henni eru ég og hundurinn.
Athugasemdir
Nú ligg ég í hláturskasti, af því að ég þekki þetta element. Takk fyrir að ættleiða þessa ljótu köku. Litla krúttið.
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.4.2008 kl. 14:09
Bakarinn hefur greinilega bakað þessa köku alveg spes fyrir þig, Steingerður mín.
Þorsteinn Briem, 20.4.2008 kl. 16:02
Nú hló ég upphátt, þetta er mögnuð ástæða til að kaupa köku!
Lára Hanna Einarsdóttir, 20.4.2008 kl. 17:44
Hrönn Sigurðardóttir, 20.4.2008 kl. 21:19
Frábær!

Marta B Helgadóttir, 20.4.2008 kl. 21:54
Ég vona sannarlega að þið hafið á endanum borðað aumingja kökuna, annars yrði hún svo leið yfir óendanlegu tilgangsleysi tilveru sinnar allrar.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 20.4.2008 kl. 22:08
Góð. En hvernig smakkaðist kakan samt? Því er þannig varið með mig að mér er illa við matarlit af þeirri ástæðu þá ber ég fram grænan en ekki rauðan rabbabara graut þegar ég myndast til að sjóða hann, sumum fannst þetta ógeðslegt í fyrstu en viti menn hann var alveg eins á bragðið og sá rauði
Aðalheiður Magnúsdóttir, 21.4.2008 kl. 07:53
Þú ert klók Steingerður, situr ein að grænu kökunni sem eflaust er bragðgóð, það á alla vega við um ávexti, að því ljótari, því betri á bragðið.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 21.4.2008 kl. 09:03
Já, græna kakan var bara reglulega góð og Þorsteinn sér í gegnum mig. Að sjálfsögðu sá ég mér leik á borði að fá að sitja ein að kræsingunum.
Steingerður Steinarsdóttir, 21.4.2008 kl. 10:18
Þú mannst eftir hænutertunni sem mamma býr til, með bleika glassúrnum ? Einu sinni bar hún hana á borð heiðgræna. Í ljós kom að rauði matarliturinn var búinn og sú gamla greip bara þann næsta. Hún var alveg jafn góð á bragðið, en var samt ekki alveg eins lokkandi.
Svava S. Steinars, 22.4.2008 kl. 10:36
Steingerður mín á ég ekki bara að skreppa í kaffi til þín og hjálpa þér með kökuna? það er orðið svo langt síðan ég kom til þín síðast
María E (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 12:27
Aumingjakökukaupin er auðvitað enn ein birtingarmynd hjartagæsku þinnar; þú sem ekkert aumt mátt sjá. Og kemur ávallt til bjargar - grænum kökum, dýrum, börnum og konum í nauð.
Gumma hefur örugglega fundist sú græna vera lostæti.
Hrund H (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 09:25
Mín reynsla af kökum er sú að oft eru þær sem eru hvað ljótastar, bestar á bragðið. Systir mín bakar alltaf eina dýrðlega köku sem er allgjört lostæti og heitir "Ljóta kakan". Hún ber nafn með rentu því ekki er fyrir fegurðinni að fara. Hvernig smakkaðist svo græna kakan?
Sigurlaug B. Gröndal, 24.4.2008 kl. 11:06
Gleðilegt sumar Steingerður og takk fyrir skrifin þín í vetur
Marta B Helgadóttir, 24.4.2008 kl. 13:25
Allt er vænt sem vel er grænt!!! Hér á heimilinu eru stundum snæddar grænar og/eða bleikar pönnukökur
Hvort sem það eru nú kökur, pakkar eða bara við mannfólkið er það ekki útlitið sem skiptir mestu máli heldur innihaldið
Gleðilegt sumar kæra Steingerður og takk fyrir skemmtileg skrif og heimsóknir í vetur.
Gúnna, 24.4.2008 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.