Að spila með eða sitja hjá

Að undanförnu hafa þau Sigurður G. Guðjónsson og Agnes Bragadóttir verið reglulegir gestir í Íslandi í dag þar sem þau hafa fengið að kryfja fréttir vikunnar. Sigurður hefur aftur og aftur sagt upp í opið geðið á okkur, íslenskum almenningi, að við höfum spilað með í bruðli og rugli síðustu ára. Að við séum flatskjárfólkið sem gapti upp í útrásarvíkingana og eigi nú timburmennina eftir raftækjafylleríið skilda. Ég verð að mótmæla. Nú veit ég ekki hverja Sigurður G. umgengst dagsdaglega en ég veit að enginn af mínum vinum eða nánustu fjölskyldu horfði aðdáunaraugum á útrásarkóngana. Þvert á móti vorum við reið og hneyksluð yfir ofurlaunu, sóun og rugli í skjóli bankanna. Okkur fannst auðnum sóað í einskisnýtt rugl í stað þess að styrkja stoðir og innviði samfélagsins. Við vorum hins vegar afllaus að stöðva ruglið eða sáum að minnsta kosti engar leiðir til þess eftir að íslenskir kjósendur gáfu atkvæði sitt þeim mönnum sem studdu við þetta og hófu það. Ég var aldrei hreykin af útrás Íslendinga eða útrásarvíkingum. Þvert á móti, ég skammaðist mín soldið fyrir gírugheit þeirra, hroka og stórlæti. Ég kom til Kaupmannahafnar í fyrsta skipti í sumar og naut leiðsagnar systur minnar um borgina. Mér fannst dásamlegt að sjá litlu hafmeyjuna en þegar ég steig inn í Hviids vinstue eftir að hafa heimsótt Magazine du Nord fann ég ekki til neinnar sigurgleði. Hugsunin loksins er þín fullhefnt ástmögur þjóðarinnar var víðsfjarri mér, enda sá ég ekki að íslenskt eignarhald á einhverri verslanamiðstöð væri eitthvað sérstaklega til að hreykja sér af. Ég er ekki meðal flatskjárfólksins. Sjónvarpið mitt er níu ára gamalt og öll önnur rafmagnstæki mun eldri. Kæliskápurinn er yngsta tækið á heimilinu keypt þegar ég flutti vegna þess að sá gamli passaði ekki inn í eldhúsið. Í fyrsta sinn á ég uppþvottavél af því að hún fylgdi í kaupunum á nýju íbúðinni en í þrjátíu ár hef ég vaskað upp handvirkt. Sigurður G. Guðjónsson kannski eiga þú og þínir líkar skilið að sitja með hausverk allar helgar hér eftir en ég og mínir líkar erum að taka út refsingu sem samræmist ekki á glæpnum því það eina sem við erum sek um er að hafa ekki mótmælt bruðlinu, flottræfilshættinum og yfirgangi útrásarvíkinganna nægilega hátt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Já, ég hef horft á þau og Sigurður G. er greinilega ekki á sama "level" og við, þessir almennu borgarar. Ég er eins og þú með gamalt túpusjónvarp og fleiri eldri tæki og aldrei tekið þátt í þessari taumlausu neyslugleði. Við höfum eins og þú horft reið á ofurlaun þeirra sem stýrt hafa bönkunum (sökum mikillar ábyrgðar!) og skoðað það himinháa gap sem er á milli okkar og þeirra. Reiðin líka jókst þegar svo þessir "háu herra" sem fengu ábyrgðarofurlaunin sögðust ekki bera neina ábyrgð þegar á hólminn kom! Við erum að súpa seyðið af gjörðum annarra og það er ekki mikið réttlæti í því. Knús og kveðja á þig Steinka mín.

Sigurlaug B. Gröndal, 6.11.2008 kl. 16:20

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ég hef heyrt marga tala á þennan veg, að við getum sjálfum okkur um kennt. Bankarnir hafa verið örlátir á LÁNSfé og sumir kannski farið framúr sér í einhverri bjartsýni en alls ekki allir. Flestir gera skuldbindingar sínar í samræmi við innkomu og svo þegar kreppan skall á og atvinnuleysi jókst svona hrikalega mikið þá verður mjög hart í búi. Mikið er ég fegin að iðnaðarmaðurinn minn gleymdi mér og kláraði ekki fráganginn í kringum nýju svalirnar. Þótt blöndunartækin mín hafi verið dæmd ónýt þá virka þau enn og ég læt þau duga þar til betur árar. Ég segi líka eins og þú, ekki hef ég farið til útlanda, ekki síðan fyrirtækið fór í árshátíðarferð í hittiðfyrra. Fer ferða minna á strætó og bý í ódýrri íbúð ... þótt lánið hækki geigvænlega með hverjum mánuðnum, samt frá Íbúðalánasjóði með 4,15% vöxtum. Ég keypti mér ódýran flatskjá þegar sjónvarpið dó en það var líka ekkert til annað en flatskjáir í búðinni. Æ, ég veit ekki hvaða álit þetta er sem sumir hafa á alþýðunni. Ekki þekki ég kaupglatt fólk, vinir mínir sníða sér algjörlega stakk eftir vexti. Skynsamur sonur vinkonu minnar lagði hluta af sumarhýrunni sinni í algjörlega öruggan sjóð í Landsbankanum og rýrnaði sá sparnaður úr 115 þúsund (án vaxtanna) niður í 79.000 kr. Þetta er ömurlegt ástand og ég harðneita að taka á mig sökina. Ég vil verðtryggingu í burtu, hún er bara rán! Sendi svo risastórt ástar- og saknaðarknús til þín!!!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 6.11.2008 kl. 16:20

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

....eins og talað út úr mínu hjarta!!

Hrönn Sigurðardóttir, 6.11.2008 kl. 20:32

4 identicon

rosalega góð skrif hjá þér Steingerður, alveg sammála þér, ég fékk mér flatskjá í sumar, því að gamla sjónvarpið gaf upp öndina...annars engin klikkun hér, þetta er rosalegt hvernig sumir lifa í endalausu kaupæði...ég tók ekki þátt í því eins og margir aðrir en þarf að blæða , eins og venjulega þarf almúginn að líða fyrir þá ríku.

alva (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:27

5 identicon

Tek heilshugar undir með þér Steingerður, ég á eldgamalt túbusjónvarp og ekki tjaldvagn eða húsbíl eða nokkuð að þessu dóti sem nú er sífellt verið að núa okkur um nasir að hafi átt þátt sinn í falli Íslands, þetta er svo fáránlegt að það þyrfti einhver að koma á móti honum Sigurði eða þeim sem hamra á þessu og koma þeim í skilning um raunveruleikann, ég vildi að einhver myndi hafa þor og getu til þess að segja þeim til syndanna á ÍSLENSKU.

Sigurveig (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 07:46

6 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

heyr heyr þetta var góður pistill. Margir eru í sömu sporum bæði ungir sem aldnir en það eru líka margir sem hafa þurft að endurnýja sjónvörpin sín og fengið sér þá flatskjá (þó hann þurfi ekki að kosta mörg hundruð þúsund) því sjónvörp eru vart í boði í dag

Aðalheiður Magnúsdóttir, 7.11.2008 kl. 09:56

7 identicon

blessuð frænka , þetta er snilldarpistill hjá þér , Sigurð G get ég ekki horft á , því að mér finnst hann með alverstu hrokagikkjum sem fyrirfinnast . Við keyptum flatskjá vegna þess að hitt dó dramatískum dauðdaga. Við keyptum ekki hjólhýsi , fellihýsi , bjórdælu , vínkæli og hvað þetta nú allt heitir sem allir urðu að eiga . Við keyptum nýjann ísskáp þegar við fluttum inn í húsið okkar sem við börðumst við að byggja sjálf og nú er okkur refsað fyrir að reyna að vera skynsöm í okkar fjárfestingum. Ég dáðist ekki að þessum drengjum sem reyndu að kaupa heiminn og hegðuðu sér eins og þeir mættu allt . Mottóið þeirra var , ég á þetta , ég má þetta , ekkert var nóg fyrir þá , urðu alltaf að eignast meira og meira , ekki skrýtið að ein af höfuðsyndunum sé GRÆÐGI .

Hlakka til að kíkja til þín í nýja húsið , fer ekki að líða að doublemansclub ?

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 17:26

8 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Já Steina... Vöfflujárnið og hrærivélin eru síðan 1987 (brúðkaupsgjafir)

Og önnur rafmagnstæki eru yfir 10 ár. Uppvöskunarvélin mín er orðin 14.ára. 70% af húsgögnum í stofunni hjá mér eru úr Góða hirðinum. Þar af er sófasettið mitt 80.ár með upprunalega áklæðinu á. Og sjónvarpið mitt er ekki flatskjár, heldur gamalt sem ég fékk gefins. 'Áður en einhver í fjölskyldunni fer á haugana með húsgögn þá er haft samband við mig, því eitt af aðal áhugamálum mínum síðust 30. árin er að gera upp gömul húsgögn, veit ekkert skemmtilegra en að fá eitthvað hrúgald í hendurnar, og gera það eins og nýtt. Hér fyrir nokkrum árum var ég ein af fáum sem var fastagestur í góða hirðinum, ég fór þangað í dag, og ástandið þar er eins og á útsölu og allt væri á 1. kr. 

Sigurveig Eysteins, 8.11.2008 kl. 02:46

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sammála.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.11.2008 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband