Systrakærleikur

Margrét, systir mín, fékk í dag jafnréttisviðkenningu Stígamóta. Samtökin ákváðu að halda sitt eigið jafnréttisþing fyrst stjórnvöld höfðu blásið af það opinbera sem átti að vera og verðlauna þá sem þeim þóttu eiga verðlaun skilið. Stjórnvöld höfðu nefnilega veitt Alcoa á Reyðarfirði jafnréttisviðurkenningu fyrir að ráða svo margar konur en þeim láðist að taka fram í viðurkenningunni að þessar konur eru á lægri launum en karlar í sambærilegum stöðum. Systir mín var vel að viðurkenningunni komin en yfirvöld þessa lands hefðu hins vegar aldrei látið sér detta í hug einu sinni að nikka til hennar. Ástæðan er sú að sitt starf hefur hún unnið að mestu í hljóði innan grasrótarsamtaka kvenna. Vakin og sofin hefur hún varið mannréttindi allra kvenna, íslenskra og erlendra og þær eru ótaldar konurnar sem sótt hafa til hennar ókeypis lögfræðiaðstoð, stuðning og hlýju á erfiðum tímum. Þetta þykir yfirvöldum þessa lands ekki starf sem vert er að viðurkenna. Miklu nær að verðlauna einhverja andlitslausa álrisa. Ég sat því niðri í Iðnó í dag og horfði á hana koma upp og sækja viðurkenningarskjalið og steininn góða sem þær Stígamótakonur afhentu henni og skyndilega tóku tárin að renna. Það er svo alltof sjaldgæft í þessum heimi að sanngirni og réttlæti nái fram að ganga. Með Möggu stóðu fimm aðrar konur sem allar voru jafnmaklegar og hún en því miður man ég ekki nöfn þeirra allra svo ég ætla bara að nefna hana. Í skjali Möggu stóð að hún fengi þetta fyrir óþreytandi starf fyrir samtökin hvort sem væri á sviði lögfræðilegrar ráðgjafar, fjármála eða annars sem þyrfti með. Einnig fyrir að vera ávallt boðin og búin þegar á þyrfti að halda og að lokum fyrir greind og fyndni. Eftir á stóðum við systur á tali við eina Stígamótakonuna og ég vék mér að henni og sagði: Ég skil ekki af hverju þið voruð að verðlauna hana fyrir fyndni. Eruð þið vissar um að það hafi farið á blað hjá réttri konu? Nýverðlaunuð systir mín leit á konuna og sagði með uppgjafartóni í röddinni: Þetta er húmorslaust kvikindi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Til hamingju með systur þína. Greinilega kjarnakona á ferð þarna

Aðalheiður Magnúsdóttir, 21.11.2008 kl. 17:59

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Innilega til hamingju með systur þína - hún er greinilega alvörukona! Og ég táraðist við að lesa þetta.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.11.2008 kl. 18:24

3 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Til hamingju með þetta, maður þarf ekki að vera lengi í návist Möggu til að vita, að þar er kona á ferð með stórt hjarta, til hamingju Magga

Sigurveig Eysteins, 21.11.2008 kl. 18:40

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Innilegar hamingjuóskir með systur þína. Frábær árangur, frábær húmor ;)

Hrönn Sigurðardóttir, 21.11.2008 kl. 18:40

5 identicon

Til lukku með Möggu , veit að hún er vel að þessu komin og á þau svo sannarlega skilið . Þið systur eruð nú ekkert eðlilegar stundum með skot og meiningar á hvor aðra .

Rebbar eru bara bestir

Hildur Þöll (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 20:17

6 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Æ, yndislegt! Til hamingju með systurina, hún er greinilega mikill og heill Víkingur í bestu merkingu þess orðs... :)

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.11.2008 kl. 21:59

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég táraðist líka.  Innilega til hamingju með hana.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.11.2008 kl. 18:21

8 Smámynd: Heidi Strand

Til hamingju með systur þína.

Heidi Strand, 23.11.2008 kl. 01:01

9 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Til hamingju með systur þína

Valgerður Halldórsdóttir, 24.11.2008 kl. 01:31

10 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Til hamingju Steinka mín með Möggu systur þína. Hún er sannkölluð kjarnakona og hefur gefið af sjálfri sér kraft og þor og styrk til kynsystra sinna sem þurft hafa þess með.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.11.2008 kl. 10:06

11 identicon

Æðislegt, til hamingju með systur þína, hún er örugglega kjarnakona með gott hjarta!!!!!!!

alva (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband