Ættarfylgjur

Okkur systrum hefur stundum verið legið á hálsi fyrir það að vera ekki nægilega myndarlegar húsmæður. Það var nú reyndar aðallega hér áður fyrr að þetta kom fyrir og helst var það gömul frænka okkar sem hafði áhyggjur af bóklestri okkar sem var á kostnað handmennta sem hún taldi að við stunduðum alltof lítið af. Helen systir fyrtist við einhverju sinni þegar kvartað var undan lítilli leikni hennar með heklunálina og hvæsti á gömlu konuna að aðrar konur mættu kaupa sér stálull og prjóna sér ísskáp hún ætlaði að láta það vera. En okkur systrum er nokkur vorkunn því það lítur út fyrir að þetta sé ættgengur andskoti. Langamma okkar Guðlaug Pálsdóttir á Svínabökkum í Vopnafirði var þekkt fyrir að vera félagslynd og skemmtileg en fremur lítil húsmóðir. Svínabakkar voru í þjóðbraut á þeim tíma er hún var uppi þannig að jafnan var gestkvæmt á bænum. Langamma hafði sérlega gaman af að spila og var það venja hennar að draga þá sem duttu inn úr dyrunum í félagsvist og síðan var spilað þar til menn ultu út af sofandi. Bærinn á Svínabökkum var orðin nokkuð gamall og lélegur þegar þessi saga gerðist en þá fylltist allt af gangnamönnum sem orðið höfðu veðurtepptir á leið yfir Smjörvatnsheiði. Amma dreif alla í spilamennsku eins og venjulega en þegar minnst vonum varði hrundi baðstofuloftið niður á næstu hæð. Þeirri gömlu brá ekki meira en svo að hún stóð upp úr brakinu, hristi af sér versta gromsið og sagði svo: Hver á að gefa? Við systur myndum sennilega allar frekar spila vist en prjóna og sauma en scrabble er hins vegar uppáhaldsspilið og við spilum hver með aðra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava S. Steinars

Ojá, ég myndi líka rísa upp úr rústunum og spyrja hver ætti að gera næst í Scrabble.  Sem minnir mig á það, við ættum að drífa í Scrabble kveldi þegarég er búin með helv. flutningana

Svava S. Steinars, 3.3.2007 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband