Dýr morgunblundur

í morgun var ég venju fremur syfjuð og stuggaði því hastarlega við tíkinni þegar hún reyndi að vekja mig klukkan hálfsjö. Ég hafði þó grun um að dýrið þyrfti að láta frá sér eitthvað svo ég skreiddist niður og opnaði útidyrnar. Drattaðist því næst hálfblind upp aftur og hélt áfram að sofa. Þegar ég vaknaði nærri þremur klukkustundum síðar blöstu fyrst af öllu við mér brúnir moldarblettir um allt rúmið mitt. Ég æpti upp yfir mig og flaug auðvitað fyrst í hug að viðbjóðslegur uppvakningur sendur af Svövu systur hefði spígsporað yfir rúmið mitt með þessum afleiðingum. Næst sá ég að rúmteppið mitt, sem lá snyrtilega samanbrotið á gólfinu, var allt út í svipuðum blettum, svefnherbergisgólfið sömuleiðis, teppið á stigapallinum og stiginn niður. Holið á neðri hæðinni var þakið í mold og forstofan eins og einhver hefði staðið þar í skurðgreftri. Í einu horni forstofunnar svaf engilfríður gulur hundur og ekki bar á mold á honum að ráði. Ég skyldi ekkert í þessu þar til ég fann upp í sófa í sjónvarpshorninu viðbjóðslega spýtu þakta mold, sniglum og sandi. Tíkin hafði sem sé sótt þetta einstaklega, aðlaðandi leikfang út í port þegar ég opnaði og afleiðingarnar voru þessi skemmtilegheit. Það tók mig þrjá og hálfan tíma að þrífa húsið eftir ævintýrið. Tíkinni reyndust sem sagt drjúg morgunverkin en morgunblundurinn var mér dýr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Já, mold er fín bara ef hún er á sínum stað. Rúmið manns er ekki sá staður. Samúð, samúð.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.3.2007 kl. 21:27

2 identicon

Hahahahaha, þetta er bara fyndið og þú átt alla mína samúð, minnir mig á þegar heimilishundurinn hér náði að stela sér hráum kjötbita (nánar tiltekið kindaþind)og faldi hann rækileg undir koddanum mínum, það var ekkert spes að leggjast í rúmið, pota höndum undir koddann og frjósa um stund !!!

Kv. Alma

Alma Lilja (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband