Alls staðar eru dýr

Við hjónin skreiddumst heim klukkan tíu mínútur fyrir fjögur í gærdag en höfðum þá verið á fótum frá hálffimm um morguninn. Við vorum því heldur framlág þegar heim kom en ferðin var frábær í alla staði. Það hefur löngum loðað við okkur hjónin að alls staðar þar sem við förum laðast að okkur dýr af öllum stærðum og gerðum og þessi ferð var engin undantekning. Við hittum kakadúa sem kolféll fyrir Guðmundi, dúfur sem átu hnetur af svölunum hjá okkur og furðfugl sem vildi endilega að ég klóraði sér í hausnum. Kakadúinn var í eigu hjóna sem við hittum í dýragarðinum Jungle Park. Þau stóðu við innganginn og tóku myndir af gestum með hann í fanginu. Mér gekk ekki vel að fá fuglinn til að kúra hjá mér en um leið og hann kom í fangið á Gumma byrjaði hann að kumra og nudda hausnum við hann. Hann greip líka með klónum og fingurna á Gumma sem eigandinn sagði að væri óbrigðult merki um að honum líkaði við viðkomandi. Auðvitað varð þetta til þess að við keyptum 800 kr. mynd af þeim félögum. Furðufuglinn sem klæjaði í hausnum var einnig í búri í garðinum og ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar hann teygði gogginn út um rimlana og beit mig í puttann. Þegar hann svo lagði hausinn að rimlunum þóttist ég vita hvað klukkan sló og hóf að klóra honum af miklum móð hvar sem ég náði til. Þessi nýi vinur minn sýndi svo ánægju sína með klórið með því að kvaka og þrýsta sér eins nálægt og hann gat. Dúfurnar heimsóttu okkur á þriðja degi ferðar og gerðust svo heimakomnar á svölunum að ég lá ekki einu sinni armslengd frá þeim. Þær kunnu vel að meta þá gestrisni mína að dreifa hnetum á svalagólfið og tíndu þær upp af miklum móð. Myndir af þessum vinum mínum má svo finna hér á síðunni undir Dýrin mín stór og smá en mér hefur enn ekki tekist að finna leið til að setja myndir inn í færslur hjá mér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Velkomin heim í snjóinn! (Var sjálf að skreiðast heim frá Berlín - og meiningin var að koma með vorið en ekki þetta...) 

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 17.3.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband