Stundum er gott að villast

Í dag ákváðum við systur að fara út á Reykjanes að labba. Við ætluðum niður að Kálfastrandarkirkju og ganga þaðan einhverja af nokkrum merktum gönguleiðum sem þar eru í grennd. Einhvern veginn tókst okkur að keyra framhjá afleggjaranum niður að Kálfaströnd og enduðu því á Vatnsleysuströnd nánar tiltekið í Flekkuvík. Þarna var ævintýralegt um að litast. Fjaran er grýtt og hrauntungurnar teygja sig í sjó fram en inn á milli er skeljasandur því ógrynni af skeljum og kuðungum skolar þarna á land. Stórir móbergshnullungar sem sjórinn hefur mótað og sorfið alls konar myndir í eru á víð og dreif um fjöruna. Enginn þeirra nægilega lítill til að hægt sé að flytja hann án hjálpar stórvirkra vinnuvéla. Því miður liggur mér við að segja því við systur vorum fljótar að sjá að listasmíð af þessu tagi væri gaman að eiga í garðinum sínum eða inni í stofu. Þarna eru ótal tóftir sem minna á forna útgerð á þessum slóðum en einnig eyðibýli sem er ákaflega sérstætt. Gamall kofi stendur við hlið yngra og reisulegra húss sem ráðist hefur verið í af miklum metnaði. Það virðist alls ekki gamalt og þakjárnið er mjög fallegt. Við hlið húsins er grunnur og undir því heilmikið pláss sem og á stétt fyrir framan. Allt ber hér vott um stórhug og brotna drauma því aldrei var lokið við þessa metnaðarfullu byggingu. Einhvern veginn finnst manni að þarna hafi átt sér stað mannlegur harmleikur og einhver orðið að lúta í duft og gefast upp. Örlög alltof margra. Á veggnum neðan við húsið eru áhugaverðar myndir sem steyptar hafa verið inn í vegginn, m.a. mannsmyndir og rúnaletur sem við Svava gátum ekki lesið. Veðrið var yndislega gott og við blasti snæviþakið Snæfellsnesið og jökullinn með skýjahettu í toppinn. Sjórinn var sléttur og fallegur og til að byrja með tók á móti okkur hressandi og svöl gola af hafi en síðan datt allt í dúnalogn í bókstaflegri merkingu þess orðs og við vorum hreinlega að kafna úr hita. Hilda og Freyja léku sér í feluleik um hraunið og það var frábært að sjá tíkina stökkva á eftir vinkonu sinni til að leita. Þvílíkur sprettur. Ótal smátjarnir í öllum bollum og klettaskorum voru henni líka ómæld uppspretta ánægju og gleði því hún óð út í og sportaði sig fram og aftur um vatnið. Ég var á hinn bóginn ekki jafnglöð því mér varð hugsað til þess að baðið sem Gummi gaf henni áður en hann fór út á sjó færi þarna fyrir lítið. Við hittum tvær konur sem þarna voru á gangi og þær sögðu okkur að staðurinn væri kenndur við Flekku. Landnámskonu og frænku Ingólfs Arnarsonar en hann hafði komið henni þarna fyrir til að losna við hana úr Brynjudalnum þar sem grösugra var og búsældarlegra. Leiði hennar er að finna einhvers staðar í túnfætinum en konunni hafði ekki tekist að finna það að þessu sinni. Við Svava reyndum ekki að leita því við bjuggumst ekki við að heppnin yrði með okkur fyrst kona sem kunnug er staðháttum fann ekkert. En þetta var mikið og skemmtilegt ævintýri og nú langar mig mest að vita hver stóð fyrir húsbyggingunni sem þarna er og hvers vegna hún var yfirgefin. Mér hefur ekki tekist að hafa upp á neinum upplýsingum þar að lútandi enn. Ef einhver veit eitthvað um Flekkuvík þá væri sannarlega gaman að fá að heyra það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Það er skemmtilegt og fróðlegt að heyra svona um staði sem eru í nágrenninu og maður getur auðveldlega heimsótt einn góðan veðurdag. Takk fyrir þetta!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 7.4.2007 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband