Með nefið ofan í bókum

Ég játaði það fúslega um daginn að vera orðhákur mikill. Ég er alltaf með einhverjar bækur í takinu og sílesandi blöð og bloggfærslur. Hér áður fyrr þótti það ekki sæmilegt að vera sífellt með nefið ofan í bókum. Málshátturinn: Ekki verður bókvitið í askana látið vitnar um það og sömuleiðis sagan af Gilitrutt. Sú saga var sögð bókhneigðum stúlkum til viðvörunar, svona rétt til að benda þeim á að iðjusemin væri dyggð en bóklestur ekki því eins og menn muna vildi húsfreyja ekki sinna ullarvinnu, matargerð og öðrum heimilisstörfum heldur liggja í bókum allan daginn. Gilitrutt kenndi henni þá lexíu að slíkt borgaði sig ekki með því að vera nærri búin að svipta hana fyrsta barninu sína. Þessi blessuð húsfreyja hefur verið fyrsta kvenréttindakona á Íslandi og það þurfti heila tröllskessu til að kenna henni að þjóðfélagið væri ekki búið undir breytingar. En hvað um það. Að undanförnu hef ég verið að lesa Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri og þess vegna er jafnréttið mér svona hugleikið. Ég var líka að ljúka við Úlfurinn rauði, Ahab's Wife og Óvinir ríkisins. Í kvöld ætla ég svo að byrja á Síðasta musterisriddaranum og segja Gurrí minni hvernig mér líkaði þegar sú bók verður upplesin.

Já, og fyrst minnst er á lestur fékk ég að heyra hér á blogginu að sonur minn þjáist af svipaðri lesblindu og ég. Hann sá auglýsingu í dagblaði þar sem verið var að bjóða ferðir til Bretlands og piltur las Breiðholt. Honum þótti dýrt drottins orðið að borga rúmar 20.000 fyrir viku í Breiðholtinu en tekið skal fram að þessi ungi maður getur helst ekki hugsað sér að fara nokkru sinni í hærra póstnúmer en 105. Honum hefur því þótt eðlilegra að menn fengju borgað fyrir að dvelja viku í Breiðholtinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Bóklestur er dygð. Bókvitið er samt ekkert alltaf til gagns hér og nú.  Til dæmis roðflettir maður varla ýsuflak með bók, eða notar bók til að hnýta ruslapoka áður en honum er smellt í rennuna. Aftur á móti held ég að bóklestur sé hollur fyrir þá sem vilja efla ímyndunaraflið og gagnrýna hugsun. (Ekki sama hvað maður les samt). Ímyndunarafl og gagnrýnin hugsun skila sér til lengri tíma. Að henda ruslinu er aftur á móti skammtímamarkmið. 

Annars held ég að þetta tilboð fyrir vikuferð í Breiðholtið sé nokkuð góð, sérstaklega ef með fylgir matur og sundlaugarmiðar í Breiðholtslaug.

Hrannar Baldursson, 3.5.2007 kl. 00:20

2 Smámynd: Svava S. Steinars

Held að ég myndi ekki borga 20.000 kr fyrir viku í Breiðholtinu.  Nema kannski ef Brad Pitt væri einhversstaðar í spilinu. 

Svava S. Steinars, 5.5.2007 kl. 00:02

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hnusss, ertu búin að þrífa húsið eða liggur þú bara í bókum, kona? hehhe, ætla einmitt að skella mér upp í rúm núna með bókina París ... samtímabók úr flokknum Íslendingar, 2. bindi.

Guðríður Haraldsdóttir, 5.5.2007 kl. 01:01

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Lesblindir allra landa sameinist!

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.5.2007 kl. 20:43

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Líf án bóka væri nú auma lífið. Það að bera saman roðflettingu á ýsu og lestur bóka er eins og að bera saman þyngdarleysi og hnetu. Meikar ekki sens! (Svona slettir maður náttúrulega ekki á bloggi minnar orðhögu og snilldarlegu Steingerðar, en ég geri það nú samt svona einusinni....and never again...).

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 6.5.2007 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband