Hvernig meta á meyju?

Ég er nýkomin af ráðstefnu Kvenréttindafélagsins um Vændi, virðingu og jafnrétti í nútímasamfélagi. Það voru sannarlega áhugaverð sjónarmið sem þarna komu fram og vissulega margt sem er umhugsunarvert. Svanhildur systir steig í pontu og talaði um að konur gætu hugsanlega keypt sig inn á þann þankagang sem ríkir í klámiðnaðinum og vændisheiminum vegna þess að þær eru svo vanar því að samfélagið horfi á þær með augum karla. Vegi þær og meti eftir því hvort þær teljist fallegar, ljótar eða kynþokkfullar og allar viljum við vera fallegar og kynþokkafullar. Þegar ég hlustaði á hana rifjaðist upp fyrir mér atvik sem gerðist þegar ég var í unglingadeild grunnskóla. Tvær vinkvenna minna voru að tala um skólasystur okkar og önnur þeirra sagði: „Ooo! Hún er svooo falleg.“ Og hin tók undir. Ég var þessu ekki sammála svo ég sagði: „Finnst ykkur hún falleg. Mér finnst það ekki.“ Ég vissi ekki hvert þær ætluðu svo hneykslaðar voru þær á viðhorfi mínu og að lokum sagði önnur: „Þú ert nú bara eitthvað rugluð, Steinka. Það eru þrír strákar vitlausir á eftir henni svo víst er hún falleg.“ Ég man enn í dag hvað ég varð reið. Mín dómgreind og smekkur mátti sín sem sagt einskis gegn þremur strákum sem eltust við einhverja stelpu. Ég var líka öskuþreifandi ill yfir því valdi sem mér fannst þær með þessu framselja í hendur karlmanna. Þeirra var að meta okkur og annað hvort leggja blessun yfir útlitið eða dæma það afleitt.

Um þetta leyti var ég líka oft spurð að því hvort ég vildi ekki reyna að komast í Módelsamtökin sem þá störfuðu aðallega við að sýna föt. Ástæðan var sú að ég var óheyrilega löng og mjó. Ég svaraði þessu venjulega á þann veg að ég hefði engan áhuga á að gerast herðatré en að mínu mati var það hlutverk sýningarstúlkna. Fólk leit venjulega á mig með vorkunnarsvip þegar ég sagði þetta og auðséð var að enginn trúði mér. Menn töldu frekar að ég væri of uppburðarlaus til að þora að reyna að komast inn í samtökin vegna þess að hvaða konu með fullu viti gat dottið í hug að neita þeim gæðastimpli sem fólst í því að vera starfandi sýningarstúlka. Löngu seinna gafst mér tækifæri til reyna þetta þegar ég var beðin að fara í fyrir og eftir þátt hjá Vikunni. Þá komst ég að því að það er ekkert gaman að vera herðatré og mikið skelfing var ég guði þakklát eftir tíu tíma í hárgreiðslu, förðun, mátun og myndatöku að hann hafði gefið mér aðra hæfileika sem nýttust í lífsbaráttunni en þann að geta setið fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Vildi að ég hefði verið svona meðvituð eins og þú. Ég fór ekki að arga yfir þessu fyrr en ég var orðin fertug og þá hlustaði enginn á svona eldgamla kerlingu. Hehehhe

Guðríður Haraldsdóttir, 8.6.2007 kl. 18:30

2 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Þetta hefur örugglega verið mjög áhugaverður fundur! Verst að komast ekki á hann.

En er alveg sammmála þér að fyrirsætustarfið er hundleiðinlegt og algerlega overrated, svo að kona sletti smá. Sat einu sinni fyrir í prjónaþætti í Vikunni, sem var OK af því að það var bara tekið úti og smellt af, en einu sinni var ég í einhverju myndbandi sem þýddi förðun, hárgreiðslu, heit ljós og allan pakkann og OMG hvað það var LEIÐINLEGT.

Skil ekki að fólk skuli sækjast eftir þessu.

Svala Jónsdóttir, 9.6.2007 kl. 00:18

3 Smámynd: Svava S. Steinars

Einu sinni á djammárunum var ein vinkona mín að metast við mig og sagði þá: ég hef amk sofið hjá fleiri strákum !  Sumar konur skilgreina sig í gegnum aðdáun karlmanna og halda að þær séu einskis virði nema einhver karlmaður fari með þeim í rúmið.  Ég svaraði henni: Já, takk, það er hárrétt.  Og ætla að halda því þannig. 

Svava S. Steinars, 9.6.2007 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband