Hvað ertu að gera?

Ég hef oft velt fyrir mér hvaða erindi ýmsir eigi á vissa staði og fékk tilefni til þess enn og aftur á föstudaginn var. En hverja sögu verður að byrja á byrjuninni og þessi byrjar í Öskjuhlíð. Meðan ég var þrisvar í viku í Kraftgöngu í hlíðinni gengu við reglulega fram á bíla sem lagt var hér og þar í skóginum. Í þessum bílum voru menn en sjaldnar konur einir og án nokkurs félaga. Sumir reyktu, aðrir sátu bara í bílum sínum með ljósin slökkt. Þetta var okkur göngfélögum uppspretta vangaveltna um hvað menn væru að gera þarna og skýringarnar voru allt frá því að verið væri að hugleiða í kyrrð skógarins upp í eiturlyfjasölu og framhjáhald svona eftir því á hvaða stigi siðferðisþroski hins getspaka var. Þegar ég eignaðist hund og hætti að geta gengið með siðuðu fólki fór ég að ganga út í Kópavogshöfn. Ég undraðist ævinlega þann mikla straum bíla sem var inn í höfnina eldsnemma á morgnana jafnt um helgar sem á virkum dögum. Ökumenn voru jafnan karlmenn einir í sínum bíl nema á sunnudagsmorgnum sást glitta í barnsandlit með geigvænlegan þjáningarsvip í aftursætinu. Á föstudaginn þurfti ég svo að aka út í Örfirisey og bíða þess að skipið mannsins míns legðist að olíubryggjunni. Hann hafði gleymt gleraugunum sínum og ég fór af stað til móts við hann með þau þarfaþing. Meðan ég sat þarna (Nota bene klukkan tíu að kvöldi og öll fyrirtæki lokuð) keyrðu áttatíu og sjö bílar inn á stæðið sem ég beið á. 0kumenn voru oftast einir í bílunum en stundum par. Hvað í ósköpunum er fólk að gera út í Örfirisey að olíutönkunum klukkan tíu á föstudagskvöldi? Mætti ég þá frekar biðja um Gróttu eða Heiðmörk. Hvað er svona aðlaðandi við hafnir og iðnaðarhverfi? Mér er gersamlega fyrirmunað að skilja þetta rétt eins og ég skil ekki hvað menn gera einir í bílum sínum í klukkutíma í Öskuhlíðinni um kvöldmatarleytið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Það segi ég með þér......

....hvað er þetta fólk að gera?

Hef stundum velt því fyrir mér að banka í rúðuna hjá viðkomandi og spyrja..... kem mér samt einhvern veginn ekki að því

Hrönn Sigurðardóttir, 5.5.2008 kl. 16:28

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það vita auðvitað allir sem vilja hvað menn gera einir í Öskjuhlíð.  Vinsæll samkomustaður homma hafa sumir þeirra sagt mér.

En varðandi höfnina þá held ég að Íslendingar dragist að sjónum.  Afi minn fór alltaf með okkur niður að höfn í bíltúr, pabbi líka.  Ég var ekki yfir mig happí en setti ekki spurningarmerki við þetta, sjórinn var lífið.

Takk fyrir mig og nú veistu amk. erindi sumra í Öskjuhlíðina

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.5.2008 kl. 17:14

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Kannski vilja konur og menn vera í friði smá stund frá áreiti borgarinnar, það gleymist stundum að íbúar höfuðborgarinnar eru að mestu brottflutt landsbyggðarfólk, sem man flest eftir friði og ró.

Vilji fólk með spennu og sýniþörf stunda kynlíf í bílum eins og Jenný virðist þekkja, þá er það varla annarra mál en þátttakenda, hlýtur samt að vera óþægilegt fyrir aðra en yngra fólk.

Sjálfur rúnta ég niður á bryggju ef færi gefst, sennilega af gömlum vana frá dögum trillukarlana og uppskipunar aflans, þá keypti maður fiskin glænýjan beint af sjómanninum, ef maður veiddi ekki sjálfur í soðið.

Eitthvað sem ekki má, né sést í dag.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.5.2008 kl. 18:15

4 identicon

amm, það er örugglega jafn misjafnt og fólkið er margt...en það var margt sem maður varð var við í löggunni hérna áður fyrr, það get ég sagt þér...fer ekkert nánar út í það en það var oft meira en bara það að horfa á hafið eða njóta kyrrðarinnar...þótt margir hafi jú verið að gera það inn á milli.

Takk fyrir að gerast bloggvinkona mín :)

alva (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 21:54

5 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ég kannast við þetta sem þú lýsir. Ég get því miður ekki neitað því að hafa eitt sinn verið í lögreglunni í Reykjavík og þá var oft farið í eftirlitsferðir í Öskjuhlíðina. Það sem þú skrifar hér að ofan er ekkert á við það sem lögreglan sá og varð vitni að þarna á sínum tíma. Ég fer ekki nánar út í þá sálma - enda er bloggið aðgengilegt öllum aldurshópum!

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 5.5.2008 kl. 22:55

6 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Kannast við að hafa séð til svona einmana ja hvað skal kalla það..., sálarflakks í bílum á fáförnum stöðum. Held að í flestum tilvikum sé fólkið að leita athvarfs frá einhverju, vill eiga stund með sjálfu sér. Ekkert gruggugt við það. Allsstaðar eru jú einhver skemmd epli sem geta verið í öðrum erindagjörðum, held eða vona öllu heldur að það séu undantekningarnar.

Marta B Helgadóttir, 5.5.2008 kl. 23:30

7 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ég skil vel hvað fólk er að gera, niður á höfn eitt í bílum að kvöldlagi. -  Þó að ég  mundi núorðið, ekki þora ein, niður að höfn, að kvöldi til. - Eins og mér fannst og finnst gaman að fara niður að sjó,  og ef mér líður illa, þá er ekkert betra en að fara niður að sjó og öskra á móti öldunum. -   Og  lyktin af sjónum er svo góð.  -  Maður kemur eitthvað svo endurnærður heim eftir að hafa öskrað á hafið.  - Og niður að höfn fer ég, það er svo róandi, m.a.s. er ég búin að venja ömmubörnin mín,  við bæði hafið og höfnina, og þeim finnst það rosalega gaman. -  En bara á daginn nú orðið. -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 6.5.2008 kl. 00:57

8 identicon

 Ég veit ekkert eins gott eins og að fara út á Álftanes þegar ég er búin að fá nóg af lífinu (háfaða og fólki) þar er ég ein með sjálfri mér og með útsýnið í allar áttir Reykjanesið, Snæfellsjökull, Esjan, þarna er algjör friður, ég kem endurnærð heim eftir þessar ferðir, mér hefur fundist þessar ferðir ósköp sakleysislegar fram að þessu, hef að vísu tekið eftir að fólk horfir inn í bílinn ef það kemur þarna framhjá, ég þarf kannski að endurskoða þetta

Sigurveig (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 01:36

9 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Elsku stelpurnar mínar, ég skil vel að fólk leiti út fyrir borgarysinn eftir kyrrð og útrás. Ég geri það sjálf. Það var staðarvalið sem ég velti fyrir mér. Mér finnst undarlegt að keyra út í Örfirisey þar sem ekki sést í haf nema fara út úr bílnum en olíutankar eru þess meira áberandi til að njóta hafsins þegar Grótta væri svo miklu heppilegri nú eða Álftanes. Öskjuhlíðin er líka notalegur staður en mér finnst eðlilegra að fara þar út úr bílnum til að ganga um og njóta. En auðvitað hefur hver sinn háttinn á þessu. Að fara í bíltúr með börnin sín er líka frábært en að bjóða greyjunum upp á bryggjurúnt finnst mér hámark hugmyndaleysisins. Börn njóta þess ekki að horfa á báta, sjó og bíla.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.5.2008 kl. 10:52

10 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfan dag Elskuleg

Brynja skordal, 6.5.2008 kl. 11:08

11 identicon

Það sem mér finnst svo sérstakt er það að margir fara ekki út úr bílunum til að njóta kyrrðarinnar eða náttúrunnar. Sitja inni í bílnum sínum og horfa á hafið t.d. niðri á Gróttu, af hverju ekki að skella sér í smá göngutúr.  En það eru kannski milljón ástæður fyrir því...já og ekki finnst manni nú beysið að fara með krakka til að skoða olíutankana..en kannski sumir bátana og sjóinn en frekar fyndist manni að þeim langaði til að sulla i fjörunni og fara nállægt bátunum, heldur en að horfa á þetta úr fjarlægð...eða kannski bara að fara á bryggjuna og veiða nokkra marhnúta, þeim finnst það algert æði.

alva (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 11:27

12 Smámynd: Gúnna

Ekki veit ég hvað menn eru að gera einir á svona stöðum. Aftur á móti verð ég nú að viðurkenna að stundum höfum við farið í bíltúr úr í Örfirsey - ó, já,  með börnin. Það finnst, held ég, alla vega sumum krökkum gaman að skoða skip og báta. Sérstaklega þeim sem ekki hafa þessi farartæki fyrir augunum alla daga. Auðvitað er miklu meira gaman að fara í göngu í Öskjuhlíðinni eða Heiðmörkina og þar að auki heilsusamlegra - en gamli góði sunnudagsrúnturinn með ís í hönd er enn farinn öðru hvoru.

Gúnna, 6.5.2008 kl. 21:22

13 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Kæra bloggvina ég held að ég keyri aldrei svo niðrí bæ að ég fari ekki niðrá höfn hring vestur á granda og svona skoða báta,þetta hef ég gert bara síðan ég man eftir mér fyrst með pabba og síðan ég fékk ökupróf,ég seigi ekki að konan mín og dætur hafi alltaf verið ánægðar að þurfa að fara þennan hring en samt.

Guðjón H Finnbogason, 6.5.2008 kl. 21:34

14 identicon

Sæl Steingerður mín. Ég verð nú að taka undir orð Gúnnu, um að gamli góði sunnudagsrúnturinn með ís í hönd, sé enn farinn öðru hvoru. Og bryggjurúntur með mín börn sem eru á aldrinum 4 til 15 ára er sko aldeilis ekki hámark hugmyndaleysisins, heldur bíltúr með mömmu og pabba að sjá eitthvað sem við sjáum ekki alla daga og fáum spjall og yndislega samveru útúr, öll sömul. Þó reyndar, að við skellum okkur yfirleitt öll saman út að týna steina eða eitthvað álíka skemmtilegt. Samt... góðar kveðjur til þín.

Auður fyrrv. samstarfsfélagi 

audur (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband