4.10.2007 | 16:11
Stöðumælar, verkfæri djöfulsins
Ég er á því að stöðumælar séu úrelt fyrirbæri sem ekki eigi að líða í nútímasamfélagi og hvet fólk til að motmæla þessum skelfilegu ógnarverkfærum. Það vill svo til að gjaldmiðill flestra nú á dögum er plastkort, ekki litlir gylltir peningar. Í morgun átti ég að mæta á ráðstefnu niðri í miðbæ og var komin tímalega til að finna ábyggilega stæði. Það gekk greiðlega og vel en við stæðið mitt stóð stöðumælir og krafðist þess að vera fylltur. Við geymum í bílnum smápeningasjóð til að nota í einmitt svona tilfellum en hann reyndist tómur að þessu sinni. Ég mátti því hlaupa af stað í grenjandi rigningu í leit að hraðbanka. Hann fannst á Lækjartorgi en síðan tóku við hlaup í þrjár sjoppur áður en ég fann starfsmann nægilega mannúðlegan til að skipta fyrir mig fimmhundruðkalli. Þá var hlaupið að bílnum aftur og stöðumælirinn fylltur. Ég mætti á ráðstefnuna svo forarrennandi blaut að það lak af mér. Ég fór úr jakkanum og hengdi hann á stól og eftir nokkrar mínútur höfðu myndast pollar undir honum. Hárið á mér var klesst við höfuðið og reglulega runnu dropar niður andlitið á mér og niður á borðið. Axlirnar voru rennandi eftir hárið og úr buxunum mínum dropaði á gólfið. Taskan mín var svo blaut að ég var beðin að færa hana af borðinu. Allt í kringum mig sátu kollegar frá Eystrasaltsríkjum og Norðurlöndum skraufaþurrir og rosalega penir. Þeir höfðu nefnilega verið keyrðir með rútum í bæinn. Stöðumælar eru verkfæri djöfulsins og ég skora á Vilhjálm að rífa þá upp með rótum og kasta þeim út fyrir borgarlandið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)