Stöðumælar, verkfæri djöfulsins

Ég er á því að stöðumælar séu úrelt fyrirbæri sem ekki eigi að líða í nútímasamfélagi og hvet fólk til að motmæla þessum skelfilegu ógnarverkfærum. Það vill svo til að gjaldmiðill flestra nú á dögum er plastkort, ekki litlir gylltir peningar. Í morgun átti ég að mæta á ráðstefnu niðri í miðbæ og var komin tímalega til að finna ábyggilega stæði. Það gekk greiðlega og vel en við stæðið mitt stóð stöðumælir og krafðist þess að vera fylltur. Við geymum í bílnum smápeningasjóð til að nota í einmitt svona tilfellum en hann reyndist tómur að þessu sinni. Ég mátti því hlaupa af stað í grenjandi rigningu í leit að hraðbanka. Hann fannst á Lækjartorgi en síðan tóku við hlaup í þrjár sjoppur áður en ég fann starfsmann nægilega mannúðlegan til að skipta fyrir mig fimmhundruðkalli. Þá var hlaupið að bílnum aftur og stöðumælirinn fylltur. Ég mætti á ráðstefnuna svo forarrennandi blaut að það lak af mér. Ég fór úr jakkanum og hengdi hann á stól og eftir nokkrar mínútur höfðu myndast pollar undir honum. Hárið á mér var klesst við höfuðið og reglulega runnu dropar niður andlitið á mér og niður á borðið. Axlirnar voru rennandi eftir hárið og úr buxunum mínum dropaði á gólfið. Taskan mín var svo blaut að ég var beðin að færa hana af borðinu. Allt í kringum mig sátu kollegar frá Eystrasaltsríkjum og Norðurlöndum skraufaþurrir og rosalega penir. Þeir höfðu nefnilega verið keyrðir með rútum í bæinn. Stöðumælar eru verkfæri djöfulsins og ég skora á Vilhjálm að rífa þá upp með rótum og kasta þeim út fyrir borgarlandið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Sammála!
Sígarettur og stöðumælar voru fundnir upp af þeim gamla.

Júlíus Valsson, 4.10.2007 kl. 16:44

2 Smámynd: Heidi Strand

Sammála, það mætti vera sama kerfi og víðar í Danmörku bilastæðaskífur sem maður stillir við komu og leyfilegt er að vera ákveðinn tíma.

Djöfullinn fann lika upp vespurnar þegar hann gerði  tilraun til að skapa hunangsflugur 

Heidi Strand, 4.10.2007 kl. 18:20

3 Smámynd: Aðalheiður Magnúsdóttir

Já borgin er á eftir með þetta. Hér á Akureyri notum við bílastæða klukkur sem eru þvílík snilld. Þ.e.a.s. ef þú mannst eftir að stilla hana

Aðalheiður Magnúsdóttir, 4.10.2007 kl. 19:41

4 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Það er ferlegt að lenda í þessu. Sama er með mælana, hlaupa að næsta götuhorni kaupa einhvern x tíma, vera búin að snúa öllum vösum við, hanskahólfinu í bílnum, róta niður á botn í veskinu að leita að smápeningum. Af hverju má ekki nota skífurnar eins og Heidi nefnir eða að fólk ætti sérstök mælakort sem nota má í stöðumæli sem þú fyllir bara á í netbankanum þínum. Rennir því bara inn og kaupir ákveðinn x tíma eða svipað apparat og dælulykrarnir hjá bensínstöðvunum nema að þú kaupir ákveðnar upphæðir. Sammála þér Steinka mín. Ég hef lent í svona vandræðum þegar ég var að funda niður í miðbæ og safnaði sektum.

Sigurlaug B. Gröndal, 5.10.2007 kl. 10:37

5 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Þetta er bara dulin skattheimta sem er að mestu étin upp í rekstrarkostnaði, væri nær að hækka bara útsvarið um þetta smotterí og hætta þessu rugli.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.10.2007 kl. 18:56

6 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

sammála óþolandi tæki,,,og þessar klukkur á Akureyri eru ekkert betri ...og þar eru stöðmælaverðirnir ofvirkir....skil í raun ekki afhverju þarf stöðumæla á Ak.

Einar Bragi Bragason., 6.10.2007 kl. 13:52

7 Smámynd: Heiða  Þórðar

Algjörlega óviðunandi!

Heiða Þórðar, 7.10.2007 kl. 04:07

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Stöðumælar eru eins og tréhestar á tækniöld og ekki í neinu samræmi við þarfir og ferðir borgarbúa eða þeirra sem eiga leið í bæinn í hinum ýmsu erindum. Hér þarf að fara fram þarfagreining og finna nútímalega lausn sem hentar bði borg og bílaeigendum. Hafa smá framsýni herrar mínir..framsýni.... ekki alltaf að detta um vandamálin þegar þau eru orðin risastór og þykjast ekki hafa tekið eftir að allt er breytt síðan nítjánhundruð sextíu og eitthvað!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 8.10.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband