1.2.2007 | 15:18
Funakoss milli kaldra vara
Árið 1928 birtist í Lesbók Morgunblaðsins kvæðið Vikivaki eftir Guðmund Kamban. Fróðir menn þóttust strax kenna að skáldið hefði sótt sér innblástur í Sörla þátt Brodd-Helgasonar. Líkt og margir aðrir Íslendingasagnaþættir er hann ákaflega stuttur og frásögnin kannski ekki eins tæmandi og æskilegt væri. Þar segir af kvonbænum Sörla Brodd-Helgasonar til Þórdísar dóttur Guðmundar ríka á Möðruvöllum. Guðmundur var höfðingi og goðorðsmaður og hélt jafnan heima á Möðruvöllum mikið lið ungra manna af göfugum ættum. Sörla hittir Guðmundur á þingi eitt árið og hefur með sér heim, enda maðurinn hinn siðmannlegasti eins og segir í sögunni.
Brátt fór að bera á því að Þórdís og Sörli höfðu meira að ræða og spjölluðu oftar saman en eðlilegt gat talist millum heimilisfólks. Guðmundur segir ekkert við Sörla en sendir dóttur sína til Einars bróður síns sem bjó á Þverá í Eyjafirði. Sennilega hafa þau Sörli og Þórdís náð að kveðjast áður en hún fór í vist til frænda síns en þannig lýsir Guðmundur Kamban kveðjustund þeirra.
Að ofan helkaldar stjörnur stara
með strendu sjáaldri úr ís
á funakoss milli kaldra vara
svo kaldra að andi manns frýs.
Og máninn skín á oss skyldurækinn,
vill skilja milt okkur við.
Við stöndum tvö hér við tunglskinslækinn
og teljum áranna bið.
Sagan segir svo að Þórdís hafi dvalið ár hjá frænda sínum áður en Sörli vitjaði hennar. Hún gengur út til lérefta sinna og tekur eftir manni einum miklum sem ríður í garðinn. Þá verður henni að orði: Nú er mikið um sólskin og sunnanvind og ríður Sörli í garð." Sörli leitar síðan fulltingis góðra manna til að snúa föður Þórdísar og leyfa þeim að eigast. Hann snýr sér fyrst til Einars föðurbróður hennar en hann bendir honum á Þórarinn tóka Nefjólfsson og segir hann bæði vitran mann og auk þess vin Guðmundar.
Þórarinn tóki fer til Guðmundar og spyr hvers vegna hann vilji ekki gefa Sörla dóttur sína, hann sé bæði ættstór og vel menntaður. Guðmundur segist að sér gangi það eitt til að sér líki ekki það orð sem áður hafi farið af kynnum þeirra. En á þjóðveldisöld virðist almennt hafa ríkt mikil andúð gegn því að ástir takist með hjónaefnum áður en þau giftast. Guðmundi þykir það því blettur á virðingu sinni að ástæða hafi þótt til að slúðra um Þórdísi og Sörla. Þórarinn ræðir þetta örlítið lengur við hann en segir svo eitthvað á þá leið að líklegasta skýringin á tregðu Guðmundar til að gefa Sörla dóttur sína sé að hann vilji ógjarnan að út af honum (þ.e. Guðmundi) sem nú sé valdamestur í landinu komi dóttursonur honum enn meiri. Þessir ofurlítið lúmsku gullhamrar urðu til þess að Guðmundur gafst upp og samþykkti ráðhaginn, enda þótti honum lofið gott. Sagan segir einnig að Þórarinn hafi þekkt skap Guðmundar og vitað hvað þyrfti til samþykkisins.
Lengri er Sörla þáttur ekki að öðru leyti en því að talið er upp eitthvað af afkomendum þeirra
Þórdísar og Sörla. Skáldin hafa hins vegar tekið sér hið fræga skáldaleyfi og bætt í eyðurnar. Guðmundur Kamban gerir söguna að dæmisögu um ást, tryggð og trúfesti. Þórdís bíður og efast aldrei eitt andartak um tryggð Sörla. Svo virðist þó að skáldið álíti tímann sem Þórdís bíður í festum langan. Sörlaþáttur þegir hins vegar um tímann sem leið þar til Sörli fékk jáyrði frá tengdaföður sínum en vitað er að ár var Þórdís hjá föðurbróður sínum. Kannski er Guðmundur hér að lýsa óþreyju ungra elskenda sem bíða þess að hittast á ný með því að gefa þá hugmynd að tíminn virðist Þórdísi ósköp lengi að líða. Hann leggur kvæðið henni í munn og þar segir: Sörla beið ég og síglöð undi við síðustu orð hans og heit..." og síðar Brenni jörð undir berum fótum og blikni sól í þeim eim: Aldrei skipti eg við annan hótum því eitt sinn kemur hann heim."
Guðmundur tengir Sörlaþátt og frásögnina þar öðrum og harmrænni ástarsögum í Íslendingasögum. Hann talar um vantraust Guðrúnar Ósvífursdóttur og vonsvik Kjartans Ólafssonar sem með vopnum enduðu sinn fund en Þórdís mælandinn í ljóðinu yrkir um vissu hjartans og vonglaða íslenska lund. Hann notar tækifærið og minnir fólk á að jákvætt hugarfar og bjartsýni auðveldar lífið og segir:
Vappar ósyndur ungi á bakka
með augun blikandi af þrá -
en sumir þora ei til þess að hlakka,
sem þeim er annast að fá.
Gegn svo mörgu, sem guð þeim sendir,
menn gera kvíðann að hlíf,
og kvíða oft því sem aldrei hendir,
og enda í kvíða sitt líf.
Guðmundur er hins vegar ekki eina skáldið sem heillast hefur af sögu þeirra Sörla og Þórdísar og hinum einföldu en fallegu orðum hennar þegar hún sér ástvin sinn ríða heim að bænum og verður þess vör að sólskinið og sunnanvindurinn fylgja honum. Jakob Jóhannesson Smári yrkir í kvæðinu Á Möðruvöllum um syngjandi sunnanvindinn sem svífur um fjallaskarð og gárar gullhár Þórdísar. Að lokum segir hann:
Hlæja nú teigar og tindur
túnið, lækur og barð:
Sólskin og sunnanvindur -
Sörli ríður í garð."
Sörla Brodd-Helgasonar er einnig getið í Njálu og þar er hann sagður giftur Þórdísi dóttur Guðmundar ríka. Þau bjuggu á Valþjófsstöðum í Fljótsdal og líklegt er að Sörli hafi þegið goðorð í arf frá ömmu sinni Ásvöru Þórisdóttur, Graut-Atlasonar en Graut-Atli var meðal sex landnámsmanna sem göfugastir voru taldir í Múlaþingi. Ólíklegt er líka að Guðmundur ríki hefði samþykkt að gefa dóttur sína manni sem ekki var goðorðsmaður. Sörli var af ætt Hofverja frá Hofi í Vopnafirði en Bjarni bróðir hans fór með Hofverjagoðorð. Njála segir að Flosi Þórðarson hafi leitað til Sörla eins og annarra höfðingja á Austurlandi eftir liðveislu á Alþingi eftir að hann brenndi Bergþórshvol og ljóst var að Kári Sölmundarson hafði komist lífs af. Sörli neitar honum þó um atkvæði sitt á þeirri forsendu að hann þurfi fyrst að komast að hvern tengdafaðir hans hyggist styðja. Flosi hreytir þá í hann að hann muni búa við konuríki. Síðar leitar Flosi til Hólmsteins Spak-Bessasonar sem heitir honum liðveislu en þegar Flosi segir honum að allir höfðingjar Austurlands hafi tekið sér vel nema Sörli svarar Hólmsteinn því til að helst komi það til að Sörli sé engin ofstopamaður, enda varla við því að búast af manni sem tekur með sér sólskinið og sunnanvindinn þegar hann fer í heimsókn til elskunnar sinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2007 | 15:14
Stórt er nú höggvið
Maður að nafni Þórður var húskarl Bjarna á Hofi, hann var ójafnaðarmaður og þóttist að því meiri að vera í þjónustu ríkismanns. Einhverju sinni mætast Þorsteinn og Þórður með sinn hvorn unghestinn í hestaati. Hestur Þórðar vék sér undan biti stóðhestsins sem Þorsteinn atti og reiddist Þórður því. Hann slær því mikið högg á nasir hests Þorsteins sem svarar í sömu mynt. Þá gafst hestur Þórðar upp og var ljóst að hann hafði tapað leiknum. Þórður reiðir þá hestastaf sinn til höggs og slær Þorstein sem hlaut af sár við augnabrúnina. Þorsteinn tók þessu rólega batt um sárið og bað menn að segja ekki föður sínum frá þessu atviki.
Tveir aðrir húskarlar Bjarna á Hofi þeir Þórhallur og Þorvaldur gerðu grín að þessu atviki, uppnefndu Þorstein og kölluðu hann stangarhögg. En eins og alltaf gerist varð einhver til að kjafta í karl föður Þorsteins og ekki leið á löngu þar til hann tók að núa atvikinu syni sínum um nasir. Spurði karl hann hvort honum væri ekki illt í höfuðbeinunum og hvort hann myndi ekki hafa verið lostinn í svima sem hundur á hestaþinginu.
Frýjað til mannvíga
Hvort sem þeir ræddu þetta lengur eða skemur feðgar varð afleiðingin sú að Þorstienn stóðst ekki frýunarorð karlsins, gekk að heiman með vopn sín og hitti Þórð við hesthús Bjarna á Hofi. Átti Þórður ekki afturkvæmt úr þeirri hrossavitjun. Þorsteinn kemur við á Hofi í heimleiðinni og biður konu nokkra er hann hittir utandyra að skila því til Bjarna að hann hafi stangað Þórð hestasvein hans og muni Þórður bíða þess að húsbóndi hans eigi leið framhjá hesthúsum sínum.
Bjarni fær fréttirnar með skilum og býr vígsmál á hendur Þorsteini og fær hann dæmdan til skóggangs. Ekki verður þess vart að Þorsteinn hafi kippt sér upp við að vera dæmdur skógarmaður því hann situr rólegur í búi föður síns sem fyrr. Taka menn þá sem óðast að brýna Bjarna og hvetja hann til að lauga virðingu sína. Þeir húskarlar Þórhallur og Þorvaldur voru manna ólatastir við þá iðju en hvort sem það var ætlun þeirra eða ekki verður skraf þeirra til þess að Bjarni sendir þá í Sunnudal til að hefna harma sinna. Hann segir þeim að hann telji þá best til þess líklegasta að þvo þennan flekk af virðingu sinni og biður þá að færa sér höfuð Þorsteins. Ekki töldu þeir félagar það ofverkið sitt og halda sem leið liggur út í Sunnudal.
Þar hitta þeir Þorstein og segja honum að þeir væru að leita hrossa en teldu sig ekki geta fundið þau við túngarðinn nema hann vísaði þeim á þau. Þorsteinn gerir það en viðskipti þeirra enda með því að Þorsteinn rekur þá báða í gegn með sverði sínu, bindur þá á bak öðrum hesti þeirra og lætur taumana á háls hestinum sem síðan töltir heim til Hofs. Á hlaðinu taka aðrir húskarlar ríkismannsins við félögum sínum og ganga í bæ og segja Bjarna að Þorvaldur og Þórhallur séu heim komnir og muni eigi erindislaust farið hafa.
Köld eru kvennaráð
Nú er allt kyrrt um hríð eða þar til Rannveig kona Bjarna getur ekki stillt sig um að minnast örlítið á það við bónda sinn í sænginni að um fátt annað sé meira talað í héraðinu en linkind hans við Þorstein stangarhögg. Bjarni býr sig þá til ferðar daginn eftir og heimsækir Þorstein í Sunnudal. Hann skorar á hann til einvígis við sig og tekur Þorsteinn áskoruninni. Áður en þeir berjast biður Þorsteinn Bjarna að sjá fyrir föður sínum falli hann.
Berjast þeir síðan á hól í Sunnudalstúninu af harðfengi miklu þar til Bjarni biður um hlé því hann þyrstir af erfiðinu, segist enda óvanari stritinu en Þorsteinn. Þorsteinn býður honum bæjarlækinn til að drekka úr og varla er Bjarni er búinn að svala þorstanum og bardaginn hafinn að nýju en hann verður þess var að skóþvengur hans er laus. Margt hendir mig í dag," segir þá Bjarni. Stillingarmaðurinn Þorsteinn leyfir andstæðing sínum að binda þvenginn, gengur í bæ á meðan og sækir tvo skildi og sverð. Réttir hann Bjarna sverð og segir það frá föður sínum og ekki muni það bíta verr en það sem hann hafði áður, annan skjöldinn fær Bjarni líka en hinn ætlar Þorsteinn sér því hann segist ekki nenna að standa hlífðarlaus undir höggum Bjarna lengur.
Bjarni segist þá ekki geta skorast undan að berjast lengur en Þorsteinn lofar honum að höggva ekki frekt. Við það móðgast Bjarni og heggur allan skjöldinn af Þorsteini sem umsvifalaust svara í sömu mynt.
,,Stórt er nú höggvið," segir Bjarni þá. En Þorsteinn bendir á að Bjarni hafi ekki hoggið minna. Þegar svo var komið voru þeir búnir að fá nóg af bardögum í bili og ákveða að sættast. Bjarni gengur til bæjar og ætlar að heilsa upp á Þórarinn gamla en karlinn er skapstyggur að vanda heggur til hans með sverði sem hann hafði falið undir sæng sinni. Bjarna hnykkir við og tilkynnir Þórarni að hann sé allra fretkarla armastur og muni hann hafa Þorstein son hans á brott með sér til Hofs og fá honum húskarla til að sjá fyrir búinu. Þorsteinn var síðan á Hofi með Bjarna eftir það.
Að lokum er sagt frá því að Bjarni hafi á efri árum ferðast suður um lönd og látist á Ítalíu og verið grafinn á bæ að nafni Vateri sem sé skammt frá Róm.
Þessi Íslendingasagnaþáttur er merkilegur ekki síst fyrir þær sakir að ófriðurinn milli Bjarna og Þorsteins tekur ekki á sig neinn hetjublæ. Menn eru seinþreyttir til vandræða og vilja bara sitja að búum sínum í friði. Það þarf eiginkonur eða alla sveitina til að reka þá af stað til mannvíga og sættir nást þegar menn eru þreyttir á að slást með bitlausum sverðum upp á hól. Þá riðu hetjur um héröð verður einhvern veginn merkingarlaust í þessu ljósi og kímnin sem skín af orðalagi þáttarins er af öðru tagi raunsærra tagi en fyndni annarra Íslendingasagna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 15:10
Konuraunir assesors Bjarna
Bjarni hafði verið skipaður aukadómari við landsyfirréttinn eftir níu ára dvöl í Kaupmannahöfn við nám og störf. Eitthvað hafði orðstír hans flogið á undan honum og menn þóttust vita að þar færi gáfumaður og skáld gott en jafnframt nokkuð aðsópsmikill, stórorður og grobbinn gleðimaður.
Bjarni sest fyrst að í Reykjavík hjá dönskum verslunarmanni Jens Klog og Guðrúnu Jónsdóttur konu hans sem var dóttir eins af vefurunum í Innréttingum Skúla fógeta. Jens lést skömmu síðar og flutti Bjarni sig þá um set. Maddama Klog var drykkfelld nokkuð og lenti af þeim sökum í basli eftir fráfall eiginmannsins. Líklega hefur henni þó ekki verið alls varnað því svo samdist með Bjarna og henni að hún yrði bústýra hans eða ráðskona.
Ástleitin ráðskona
Honum hefur sennilega gengið það eitt til að hlaupa undir bagga með þessari fyrrum húsmóður sinni en konan sá í sambúð þeirra prýðilegasta tækifæri til að komast á ný í örugga höfn hjónabandsins. Tvennt kom til er gerði það hálfundarlegt að maddaman færi að gera sér vonir um slíkt, annað það að hún var um fertugt en Bjarni tuttugu og átta ára. Hitt vóg þó þyngra að jafnættgöfugur maður og Bjarni Thorarensen gerði ákveðnar kröfur um ætterni væntanlegrar eiginkonu og uppfyllti maddama Klog ekki þau skilyrði. Henni hefur þóttt að fyrrum kona danskættaðs kaupmanns sem að auki var bróðir þáverandi landlæknis mætti renna hýrum augum hærra en rétt og slétt vefaradóttir.
Auk þess er vitað af bréfum sem Bjarni skrifaði vinum sínum í Kaupmannahöfn að hann var fús til að sigla fleyi sínu í örugga höfn hjónabandsins og hafði leitað fyrir sér eftir kvonfangi en gengið bónleiður til búðar. Ekki er vitað hver sú stúlka var eða hvað kom til að hún hafnaði svo vænum biðli en maddama Klog hefur sennilega talið sig þess umkomna að sefa sorgir og sært stolt assesors Bjarna. Hann var þó á öndverðri skoðun. Hann taldi bústýru sína nálega gengna af göflunum og leið mikla önn fyrir ástleitni hennar.
Heimilisástæður assessorsins komust enn fremur jafnskjótt í hámæli og voru hafðar í flimtingum manna á milli. Gilti einu hvort um var að ræða sauðsvartan almúgann eða firstéttina sem Bjarni sjálfur tilheyrði hvorum tveggju var umræðuefnið jafngómsætt í munni. Að lokum sá Bjarni sér ekki annað fært en að reka maddömuna frá sér og flæktist hún þá manna á milli í bænum og hefur sennilega verið mörgum aufúsugestur er fýsti að frétta frá fyrstu hendi samskipti þeirra Bjarna. Hann tók allt þetta mál mjög nærri sér og þótti Reykjavík að eigin sögn hvimleiður bær. Sú mæða sem hann varð fyrir þar hefur líklega átt sinn þátt í því að hann varð fráhverfur bæjarlífinu og flutti sig upp að Gufunesi.
Krókóttar leiðir upp altarinu
Þegar ráðskonumálið hvímleiða var frá hefði mátt ætla að þessum unga menntamanni væru allir vegir færir að biðja sér konu sem honum sómdi en nokkrar ástarraunir biðu Bjarna áður en hann að lokum kvæntist. Því olli aðallega erkifjandi hans Magnús Stephensen en þrisvar tókst honum að spilla svo um fyrir kvonbænum Bjarna að hann varð af stúlkunni. Fyrst bað assessorinn Guðrúnar Stefánsdóttur frá Möðruvöllum í Hörgárdal en hún sagði honum upp eftir að hafa setið tvö ár í festum. Þá sneri hann augliti sínu að Odda á Rangárvöllum. Treysti Bjarni þar á að Ólafur Finsen bróðir stúlkunnar sem hann ætlaði sér hefði hug á að kvænast systur sinni. Ólafur reyndist hins vegar ástfanginn af annarri og varð þá ekki af frekari ástleitni af hálfu Bjarna í þeim ranni.
Næst leitaði hann fyrir sér hjá Stefáni amtmanni á Hvítárvöllum bróður Magnúsar Stephensen og var dóttir Stefáns föstnuð Bjarna. Magnús tók fljótlega að beita áhrifum sínum og skemmst frá því að segja að hann náði að telja bróður sínum hughvarf og bróðurdóttur sína á að bregðast orðum sínum.
Bjarni reið að lokum á laun vestur í Stykkishólm og bað Hildar Bogadóttur sem hann kvæntist fjórum dögum síðar. Í þá daga þóttu langar trúlofanir tilhlýðilegar svo þetta var nokkuð óvenjulegt. Líklega hefur hann ekki ætlað að eiga á hættu að nokkur næði að spilla þessu sambandi. Bjarni kom sem sagt að sunnan vopnaður giftingarleyfi til að allt mætti nú ganga sem greiðlegast og áður en Viðeyjarjarl hefði spurnir af ferðum hans. Hjónaband hans og Hildar varð þrátt fyrir flumbruháttinn farsælt og Bjarni hrósaði fljótt happi og taldi sig hafa hreppt góða konu. Minna mátti gæfan nú varla gera eftir að þær raunir sem hann hafði áður ratað í í kvennamálum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 15:08
Ljómandi limrur
Börnin mín fá reglulega send frá mér SMS-skeyti með limrum sem ætlað er að uppfræða þau, uppörva og gleðja. Mér skilst hins vegar á þeim að það sé allur gangur á því hve vel inntakið skilar sér. Ég get því ekki annað en tekið undir með Benedikt Gröndal og sagt: Mitt er að yrkja ykkar að skilja.
Það var strákur í Timbuktú
sem átti aðeins eina kú.
Hann gaf henni gras
og eftir mikið bras
tók fyrir hana trú.
Það var stúlka sem átti kött
og elskaði Hróa hött.
Hún borðaði pítu
Síðan hringdi í Rítu
Og sagði: Þú ert brött.
Ef ég ætti að syngja þér söng
vetrar- og vorkvöldin löng.
Ég mundi það róma
að þú ert fegurst blóma
og alveg eins og Gunna stöng.
Ertu ekki á því hissa
að Árna er verið að dissa.
Sá maður á þing
fer með swing
þótt niðru sig sé búinn að missa.
Ég frétti af því í gær
að þú værir með tíu tær
og vil þér segja
fremur en að þegja
að þá ertu fljúgandi fær.
Ég vildi þig trufla um stund
til að ræða aðeins þína lund.
Á morgnana urrar
og á kvöldin murrar
eins og snúið roð í hund.
Ég mun vera að farast úr leti
og það er ekki eins og ég geti
sagst hafa afrekað margt
og gert allt sem er þarft
og verið trúað sem nýju neti.
Viljir þú í útlit þitt spá
og hvað í fatnaði ekki má.
Þá vertu í stílnum
í vinnu og bílnum
og lestu tímaritið h.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 14:42
Hin dularfulla lágvaxna kona
Ein spákona sem ég fór til sá mann á jeppa sem myndi heilla mig upp úr skónum og það svo mjög að ég yfirgæfi eiginmanninn fyrir hann. Ég hangi nú með þeim sama enn og hann er búinn að kaupa handa mér jeppling. Kannski sá spádómur hafi þar með ræst.
Ein spáði mér fimm börnum. Þau eru tvö og ekkert bólar á einu enn. Að vísu á maður alltaf að líta þetta jákvæðum augum þannig að kannski taldi hún kettina og hundinn með en þá ættu börnin mín að vera átta og þrjú látin.
Ein spáði mér frægð og frama á leiksviðinu en önnur sá glæstan feril í stjórnmálum. Ég er hins vegar ekki viss um að mér endist ævin til að framkvæma þetta allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 14:39
Hormálið á Kúgili
Þið hafið nú gott af að lesa og þess vegna kemur hér langlokupistill
Árið 1839 var ekkert góðæri á Íslandi. Dýrasta eign kotbóndans var sauðkindin og henni ekki fórnað jafnvel til að halda lífi í sínum nánustu. Örfín lína skildi milli fátæktar og örbirgðar og það var á ábyrgð húsfreyjunnar að sjá til þess að matföng entust út veturinn. Til þess þurfti útsjónarsemi og stundum verstu nísku. Sagan af heimilisfólkinu á Kúgili er sérlega lýsandi fyrir lífið á þessum tíma einkum verstu hliðar þess.
Að Kúgili í Eyjafirði bjuggu hjónin Þórður Þorfinnsson og Þórunn Jónsdóttir. Á heimili þeirra var einnig móðir Þórðar, Anna Þórðardóttir. Karl faðir hans, Þorfinnur Brandsson, hafði brugðið búi og afhent Þórði helming eigna sinna gegn því að sonurinn sæi um móður sína meðan hún lifði. Þorfinnur hélt eftir sínum helming til að sjá fyrir sér og var í húsmennsku hjá syni sínum.
Þennan vetur er kuldi mikill og vosbúð í baðstofunni á Kúgili þar sem Anna Þórðardóttir liggur. Hún er sjötíu og tveggja ára og farin að heilsu. Sveitarrómur pískrar um að Anna muni ekki njóta hlýju eða góðs atlætis hjá tengdadóttur sinni og þegar gamla konan deyr kemst pískrið í hámæli.
Sýslumaður látinn vita
Yfirvöld sjá sér loks ekki annað fært en að bregðast við og séra Hákon Espólín í Stærra-Árskógi skrifar Birni Jónssyni, hreppstjóra á Auðbrekku. Hreppstjórinn sendir bréfið áfram til sýslumanns Eyjafjarðarsýslu. Hvað svo sem prestur hefur sagt er augljóst að það hefur verið kveðið fastar að orði en svo að eingöngu hafi verið haft eftir sveitaslúðrið því sýslumaður skipar að lík Önnu sé flutt til sín til skoðunar. Honum er þá sagt að búið sé að jarða Önnu en sex menn hafi skoðað líkið áður.
Sýslumaður telur næga ástæðu til að rétta í málinu og hinn 21. apríl er hafið réttarþing að Stærra-Árskógi. Kölluð eru fyrir ótal vitni og bera allir að margt hafi verið skrafa um illa meðferð á Önnu. Björn Jónsson hreppstjóri hafði þess vegna gert sér ferð að Kúgili til að kanna hvað væri hæft í þessum orðrómi. Honum sýndist Anna grönn og vesælleg en ekki svo mjög. Hann spyr gömlu konuna um hvernig viðurgjörnings hún njóti en hún fer undan í flæmingi og kemur sér hjá að tala um það. Hreppstjóranum þykir þó ekki ástæða til að aðhafast frekar.
Nágrannar þeirra á Kúgili bera þeim feðgum almennt vel söguna en Þórunn húsfreyja hefur slæmt orð á sér. Hún þykir þrasgjörn, nísk, nokkuð heimsk og illa lynt. Tengdafaðir hennar hefur það um hana að segja að hún hafi ekki látið skera nóg fé til heimilisins um haustið og að hún sé ekki nógu góð manneskja.
Sýslumaður skilur ekki neitt í neinu
Bertel Holm Borgen sýslumaður Eyjafjarðarsýslu er danskur og hann skilur ekki kotbóndann sem leiddur hefur verið fyrir hann. Sýslumaður spyr því agndofa hvers vegna sonurinn hafi þá ekki skorið eina af kindum sínum móður sinni og matarlitlu búi til bjargar. Þorfinnur svarar að það hafi hann ekki getað vegna skulda. Sýsli innir hann þá eftir hvers vegna hann hafi sjálfur ekki fórnað einhverjum sauða sinna konunni til hressingar. Sá gamli svarar: Ég mátti ekki missa þá, ég er að berjast fyrir mér sjálfum."
Borgen sannfærist fljótt um sekt Þórunnar húsfreyju en allt bendir til að þeir feðgar hafi lítið fylgst með og verið afskiptalitlir um matarskammta eða önnur innanhússmál. Sýslumaður einbeitir sér þess vegna að því að knýja fram játningu konunnar. Hann lætur grafa upp lík Önnu Þórðardóttur og tengdadóttir hennar er látin votta að þarna sé tengdamóðir hennar komin. Í dómsmálabókinni segir að hún hafi við það verið stúrin og niðurslegin". Og Borgen hefur erindi sem erfiði, Þórunn játar. Hún segist allan þennan vetur hafa gefið Önnu lítið að borða í þeim tilgangi að hún skyldi deyja úr hor. Hún tíundar matarskammtinn sem sannarlega var skorinn við nögl en segir að þetta hafi ekki komið til fyrr en þetta misserið því áður hafi Anna getað gert ýmislegt til gagns. Þennan vetur hafði hún hins vegar legið í kör. Þórunn játar einnig að hafa talað illa til gömlu konunnar og verið henni vond.
Húsfreyjan unga segir þetta ekki hafa verið samantekin ráð þeirra hjóna en þó muni Þórður hafa vitað hversu naumt móður hans var skammtað. Síðan biður hún guð og menn að fyrirgefa sér þennan misgjörning. Þeir feðgar eru næst kallaðir fyrir aftur og enn sem fyrr segja þeir Þórunni bera alla ábyrgð á matarskömmtun og ekkert hafi þýtt fyrir þá að reyna að tala um fyrir henni. Þórunn væri ráðrík og hafi ætíð farið sínu fram. Þórður reynir þó að bera blak af konu sinni og segir að hún hafi aldrei kvartað við sig um að móðir hans væri til þyngsla. Hún hafi að vísu haft á orði þegar gamla konan hafði legið lengi veik að gott væri ef guð tæki hana til sín svo hún þyrfti ekki að þjást svona mikið.
Ekki er sopið kálið
Borgen telur sig hafa unnið mikinn sigur, fyrir liggi játning og nú sé ekki annað eftir en að dæma. Hann setur réttarþing 2. maí til að ljúka vitnaleiðslum og leggja málið í dóm. En Þórunn húsfreyja er ólíkindatól og snýr taflinu óðar en hendi verði veifað. Þegar hún kemur fyrir réttinn þennan dag dregur hún fyrri játningu sína til baka og kveður hana tilkomna af aðgæsluleysi, gáleysi og sansatruflun sem komið hafi yfir sig þegar hún var að hugsa um þetta mál sennilega vegna þess að hún væri ólétt.
Rétturinn varð óstarfhæfur um stund sökum undrunar sýslumanns en síðan tekur hann til við að reyna að flækja húsfreyju í eigin neti. Hann lætur lesa upp framburð hennar og nefnir að hún muni hvert smáatriði um matarskammtinn og beri það hvorki vitni um gáleysi né aðgæsluleysi hvað þá sansatruflun. Þórunn svarar að það geti vel komið fyrir að maður sé með fullum sönsum á einu augnabliki en á öðru ekki.
Eftir þessa uppákomu tekur sýslumaður sér réttarhlé nokkra daga en síðan er Þórunn kölluð fyrir aftur. Þau þrefa fram og aftur og enn reynir sýslumaður að koma henni á kné en hún verst öllu fimlega. Hún játar að Anna heitin hafi fengið of lítið að borða og telur að það ásamt kuldanum í baðstofunni hafi sennilega flýtt dauða hennar. Borgen finnur þarna snöggan blett og er fljótur að fylgja eftir og spyr hvort hún h afi þá ekki gert sér grein fyrir því um veturinn hvert stefndi?
Þórunn segist eiginlega ekkii hafa hugsað um það. Enn heggur Borgen og spyr hvort í þessu orði eiginlega", liggi ekki ábending um að hún muni hafa hugsað um þetta og því verið meðvituð um að tengdamóður hennar biði ekki annað en dauðinn ef ekki yrði bót á aðbúnaði hennar. Þórunn svarar að hún sé fávís kona og viti ekki hvað þetta orð þýði en það hafi verið eftir dauða tengdamóður sinnar að grunur um að ofangreindar þrjár orsakir hafi valdið dauða hennar hafi vaknað. Og þessi kona hlaut þann vitnisburð sveitunga sinna að hún væri heimsk.
Sýknuð í landsyfirrétti og hæstarétti
Hvernig sem Borgen reynir fær hann húsfreyju ekki til að játa aftur að hún hafi einsett sér að losa sig við karlæga tengdamóður sína. Í forsendum dómsins er fæðuskortur talin önnur af dánarorsökum Önnu ásamt meinsemd í lifur. Borgen fer þó ekki ofan af því að Þórunn hafi af ásetningi og vísvitandi komið af sér þeirri heimilisbyrði sem Anna var orðin. Hann dæmir hana því til að erfiða í betrunarhúsi í Kaupmannahöfn í sex ár. Þeir feðgar voru dæmdir til að greiða sex ríkisdala bætur í fátækrasjóð Arnarneshrepps.
Landsyfirréttur sýknaði seinna Þórunni en gerði henni að greiða varðhaldskostnað og öll lögleg útgjöld af sökinni. Hæstiréttur staðfesti þann dóm og bætti við 20 vandarhögga refsingu við. Allar eigur Kúgilsfólksins voru því seldar á uppboði til að mæta málskostnaðinum og þar með talið sauðféð allt sem ekki mátti fórna til að hægt væri að hressa gamla sjúka konu á nýmeti á Þorranum.
En hvort Þórunn húsfreyja var kaldrifjaður morðingi eða einfaldlega aðhaldssöm húsfreyja sem af ótta við örbirgðina tók þá áhættu að örlitlir matarskammtar nægðu til að gamalmennið næði að tóra til vors skal ósagt látið. Því verður sennilega aldrei fullsvarað en víst er að fátæktin er ekki til þess fallin að rækta manngæsku hjá sumum. Kúgilsfólkið tapaði öllu sínu vegna dauða gömlu konunnar og því hafa þau hvernig sem á allt er litið hlotið makleg málagjöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 14:32
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)