27.3.2007 | 10:11
Kirtlaveiki
Það hefur áður komið fram hér að ég elska meinlegar prentvillur og þýðingarvillur. Fyrir skömmu rakst ég á í kommenti á blogginu eina slíka sem mörgum hefur reynst hált á. Nefnilega að skrifa kirtill þegar átt er við kyrtil. Það er jafnan Kristur hinn krossfesti sem verður fyrir þessu því ég veit um tvö tilfelli þar sem hann og kyrtill hans eru til umræðu en í stað klæðnaðar frelsarans fer ritari óvart að tala um innyfli hans. Í flennistórri fyrirsögn í Tímanum hér í eina tíð var verið að fjalla um deilur innan kirkjunnar og sagt að aur og óhróður slettist á kirtil Krists vegna þess að prestar og prelátar gætu ekki setið á sátts höfði. Hvaða innkirtill varð fyrir slettunum fylgdi ekki sögunni. Kommentið snerist hins vegar um það að Kristur hefði verið svo örlátur að ef hann hefði átt tvo kirtla hefði hann gefið annan. Varla er þá um annað en nýrun að ræða því fæstir geta lifað án brisisins, heiladingulsins, lifrarinnar og svo framvegis. Sjálf hef ég ekki farið varhluta af svona villum því á tímabili var ég gjörn á að sleppa ð í maður þegar ég skrifaði. Gulla prófarkarlesari á Fróða var fljót að taka eftir þessu og við komumst að því að þetta væri eitthvað freudískt því ef þú sleppir ð verður orðið maður að maur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)