11.4.2007 | 13:38
Þjóðkirkjan og snældusnúðurinn
Um daginn las ég bloggfærslu Bjarna Harðar. þar sem hann dáist að hófstilltu trúboði og ráðvendni þjóðkirkjunnar íslensku. Ég nenni svo sem ekki að elta ólar við hitt og þetta sem hefur misfarist hjá þeirri blessuðu kirkju en minni á að þegar prestar geta ekki setið á sátts höfði við sóknarbörn sín eða verða uppvísir af ýmsum brestum hafa þeir verið óþreytandi að minna á að mennirnir séu breiskir en stofnunin standi eftir sem áður óbrotin. Ýmislegt kann að vera til í því en við verðum að horfast í augu við að sífellt vaxandi hluti landsmanna vill ekki tilheyra þessari stofnun og kærir sig lítt um að halda henni gangandi með fjárframlögum. Í lýðræðisþjóðfélagi sem kennir sig við trúfrelsi er einnig beinlínis rangt að trúarstofnun skuli vera ríkisstofnun meðan önnur trúfélög njóta ekki sambærilegra kjara. Hins vegar reka forsvarsmenn kirkjunnar ævinlega upp mikið ramakvein þegar talað er um aðskilnað ríkis og kirkju og segja að verði skilið á milli þurfi menn að gera upp kirkjujarðirnar sem látnar voru ganga til ríkisins gegn því að það borgaði laun presta. Þetta hljómar einhvern veginn alltaf eins og hótun úr munni þeirra en ég skil ekki hvers vegna það þarf að vera vandamál. Jarðir eru metnar til ákveðins verðs og einhvern tíma hlýtur það að vera fullgreitt nema það gildi það sama um kirkjujarðir og snældusnúð kerlingar forðum sem reyndist Kiðhús dýr og þótti honum seint fullborgaður snúðurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2007 | 13:31
Í leit að afþreyingu
Við Svava brugðum okkur út á Suðurnes að skoða Wilson Muuga á annan í páskum. Okkur systrum fannst við alveg dásamlega hallærislegar að láta okkur detta í hug að skoða brotajárn í fjörunni í hífandi roki og rigningu. En þegar við komum suður úr kom bílalest á móti okkur. Það hvarflaði ekki að okkur að þetta fólk væri að koma úr sömu erindagjörðum og við vorum í þannig að við leiddum getum að því að allir væru á leið milli bæjarfélaga í fermingarveislur. „Kannski eru þeir að skoða Wilson Muuga,“ sagði Svava og við hlógum dátt að þessari vitleysu. Við Hvalsnes varð okkur hins vegar ljóst að fyndni Svövu var dauðans alvara því um það bil fjörutíu bílum hafði verið lagt á mjóum veginum og í vegkantinn og heil prósessía af forvitnum gestum var á leið niður í fjöruna til að berja augum dýrindið. Þetta fyrirbæri sem situr fast þarna í fjörunni var greinilega áhugaverðara en halastjarnan sem hér skaust í gegn á vetrarmánuðum og fyrirhafnarinnar virði að arka í vondu veðri niður í fjöru til að berja það augm. Það var ekki laust við að við systur skömmuðumst okkar enn meira fyrir hallærisganginn þegar við áttuðum okkur á því hversu útbreiddur hann var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)